Siðareglur alþingismanna

Facebook-færsla.

Þetta mál sem Eiríkur Rögnvaldsson (sá réttsýni og víðsýni fræðimaður og skólabróðir minn) fitjar upp á í stöðufærslu – hæfisreglur alþingismanna – á sér langa sögu. Það byggir á því að löggjafarþingið var í upphafi fulltrúi fólksins í Danmörku, meðan framkvæmdarvaldið var að mestu leyti undir stjórn konungs, þ.e. hann skipaði ráðherra uns þingræði var tekið upp í Danmörku 1903 (það var tekið upp hér 1920, en konungur skipaði okkar ráðherra áður). Þessi staða löggjafarþingsins – að vera beinn fulltrúi fólksins, en ekki kóngs og aðals – gaf því óskorðuð völd samkvæmt stjórnarskrá, það var æðst hinna þriggja þátta ríkisvaldsins og það hafði m.a. dómsvald í ýmsum málum (og eimir eftir af því hér þegar þingmenn dæma sjálfir um að þeir séu réttkjörnir). Nú telja flestir, þó ekki allir, að löggjafarvaldið sé ekki hafið yfir hina valdþætti ríkisins.

Þingmenn setja margháttuð lög sem lagfæra hag allra þjóðfélagsþegnanna, m.a. þeirra sjálfra. Þessi staðreynd er alltaf lögð fram þegar bændur og sjómenn/útgerðarmenn samþykkja lög sem hafa áhrif á rekstrareikning rekstrareininga þeirra (og slík lög hafa verið sett í áratugi, sennilega frá upphafi). Bara ein hæfisregla er fyrir hendi, þ.e. að þingmenn mega ekki taka þátt í lokaafgreiðslu um fjárveitingu til sjálfs síns (þ.e. aðeins atkvæðagreiðslu við þriðju umræðu), en þeim er ævinlega frjálst að taka þátt í umræðum um öll mál. Munum að skilja á milli umræðu og ákvörðunar (atkvæðagreiðslu).

Með setningu Siðareglna fyrir alþingismenn árið 2016 (eftir langvarandi ábendingar Greco) skapaðist möguleiki á að setja þingmönnum de facto hæfisreglur – auk siðareglna. Það er eins og þingmenn hafi ekki gert sér grein fyrir þessu, þeir einblíndu á setningu reglna um skráningu hagsmunatengsla. Hins vegar eru Siðareglurnar góðar og í takt við það sem Greco lagði upp með. Með úrskurðum ráðgefandi siðanefndar Alþingis geta smám saman orðið til viðmiðanir um hvenær fjármálaleg tengsl alþingismanna við málefni hindra þá í umræðu og/eða atkvæðagreiðslu og líka um hvenær athæfi þeirra við þinglega meðferð máls brýtur að öðru leyti á siðareglum (t.d. um að verja virðingu Alþingis og um heiðarleika). Þannig gætu Siðareglurnar orðið til þess að málþóf yrði siðareglnabrot. En enn er ekki öll sagan sögð.

Alþingi samþykkti – eftir miklar umræður þar um – að kærur um brot á Siðareglum færu til forsætisnefndar þingsins, en ekki beint til ráðgefandi siðanefndar. Allir íbúar landsins geta kært. Forsætisnefnd á að gera forathugun á málinu, m.a. leita skýringa frá öllum hlutaðeigandi. Síðan metur forsætisnefnd hvort kæran fer til umsagnar ráðgefandi siðanefndar. Þegar ráðgefandi siðanefnd hefur skorið úr um málið, þ.e. veitt ráðgefandi álit, tekur forsætisnefnd Alþingis ákvörðun í því. Það er því forsætisnefnd sem úrskurðar í málum. En óneitanlega myndu úrskurðir ráðgefandi siðanefndar – jafnvel þótt forsætisnefnd leyfði sér að ganga gegn þeim – mynda viðmiðanagrunn sem fara mætti eftir. Hana sitja – skv. vef Alþingis: Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður, Kári Hólmar Ragnarsson og Eyja Margrét Jóhönnu Brynjarsdóttir. Varamenn eru : Andrés Ingi Jónsson, Svala Ísfeld Ólafsdóttir og Sigurður Kristinsson.

Ég man ekki eftir nema tveimur úrskurðum forsætisnefndar í siðamálum. Annars vegar gagnvart Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur – úrskurður sem talinn var orka tvímælis – og hins vegar gagnvart Bergþóri Ólasyni og Gunnari Braga Sveinssyni.

Hins vegar man ég vel eftir kæru til forsætisnefndar sem ég sendi inn fyrir ári vegna hagsmunatengsla Þórarins Inga Péturssonar í búvörulagamálinu. Hann var formaður atvinnuveganefndar og framsögumaður hennar. Í vor felldi forsætisnefnd málið niður og taldi ekki efni til frekari skoðunar á því, það var því aldrei sent til ráðgefandi siðanefndar. Þá höfðu bæði Birgir Ármannsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir, forsetar þingsins á tímabilinu sem málið beið afgreiðslu, haft málið til skoðunar í nokkra mánuði hvort um sig og sennilega íhugað það vel. Staðreynd málsins er sú að ef hagsmunatengsl Þórarins Inga hefðu komið til úrskurðar ráðgefandi siðanefndar – til efnislegrar afgreiðslu – þá hefði hún orðið að leggja fram einhverjar viðmiðanir um hagsmunatengsl. Hvenær hindra hagsmunatengsl þingmenn í að fjalla um eða leiða mál í gegnum þingið (umræður, nefndarseta eða formennska í nefnd geta skipt máli)? Siðareglurnar fyrir alþingismenn eru mjög strangar í þessu efni, þ.e. þær taka fast á hagsmunatengslum. Með úrskurði ráðgefandi siðanefndar kæmi fram hæfisregla – eitthvað sem þingmenn vilja ekki starfa undir og hafa ekki starfað undir frá 1845. Það að Jón Pétur Zimsen og Jens Garðar Helgason hafa tekið þátt í umræðum um mál sem varðar hag þeirra miklu og þeirra nánustu fjölskyldu – er því ekki líklegt að rynni til ráðgefandi siðanefndar. Þótt einhver kynni að vilja kæra málið, sem auðvitað er sjálfsagt.

En ekki er allt búið enn. Hæstiréttur felldi í vor dóm um að lagabreyting á búvörulögum, þ.e. sú breyting að fella niður samkeppnishömlur hjá afurðastöðvum væru lögleg og bryti ekki á stjórnarskrá. Frumvarpið sem varð að lögum var upphaflega um rétt bænda til að mynda stéttarfélag og við aðra umræðu bættist við frelsi afurðastöðvanna. Ákvæði laganna um niðurfellingu samkeppnishindrana fékk því aðeins tvær umræður. Það taldi Hæstiréttur nóg og að það bryti ekki í bága við stjórnarskrárákvæðið um þrjár umræður. Um málið má segja fjölmargt – og ég hef skrifað heila fræðibók um hvað ákvæðið um þrjár umræður þýðir, en í stuttu máli eykur dómurinn og staðfestir réttindi þingmanna til að taka upp óskyld eða lítið skyld mál við meðferð frumvarpa, hvort heldur er í nefnd eða í málstofunni. Eftir dóminn getur því verið erfiðara að fullyrða að þótt þingmenn tali út og suður um frumvarp – þá sé það málþóf og varði við siðareglur. Þessi dómur var það síðast sem Alþingi þurfti á að halda.

Ég tel raunar að eftir þessar tvær niðurstöður, niðurfellingu forsætisnefndar á hagsmunatengslamáli Þórarins Inga og dóm Hæstaréttar um að koma megi með fram lítið efnislega skylda breytingartillögu við aðra umræðu – búi alþingismenn við meira staðfest frjálsræði en áður. Ég tel fyrirkvíðanlegt fyrir nýja ríkisstjórn og meirihluta á Alþingi að hefja störf á komandi hausti við þessar aðstæður. En nú er spurning hvort meirihlutinn kjósi – og verði – að gera í haust breytingar á þingsköpum sem þrengja frjálsræði stjórnarandstöðunnar til að vera með raunverulegt neitunarvald í þinginu.

Eitt í viðbót. Stjórnarskrárákvæðið um þrjár umræður hefur bæði formreglu (sem deila má um hvað beri með sér, en alla vega þrjár umræður í málstofunni) og efnisreglu. Efnisreglur eru þær í danska þinginu að þingmenn hafa ekki frjálsræði til að tala um annað og gera tillögu um annað en málefnið sem frumvarpið fjallar um; sem fela í sér lausn á sama vandamáli og frumvarpið gerir og stefna sem lausn í sömu átt og frumvarpið. Segir sig sjálft að slíkar efniskröfur hér þýddu að þingmenn gætu ekki í nefndum eða í málstofunni farið um víðan völl – með málþófi eða fráleitum breytingartillögum. Taka má fram að popúlískar breytingartillögur (sem minnihlutinn ætlast ekki til að fari í gegn, heldur setji opinbera umræðu í uppnám) geta verið mjög skaðlegar fyrir meirihlutann.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation