Sjávarútvegsstefna ESB í íslensku ljósi

Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.

—–

Valdastofnanir ESB móta stefnu og taka ákvarðanir í sjávarútvegsmálum, sem eru félagsmálapakki fyrir svæði og útgerðir sem standa veikt

Sameiginleg fiskveiðistefna ESB byggir á ESB-reglugerð nr. 1380/2013 með síðari viðbótum. Nokkrar grundvallarreglur eru líka frá eldri samþykktum.

Meginforsendur

Reglugerðin frá 2013 hefur verið að taka breytingum hin síðari ár. Þá á ég einkum við nýjar áherslur í umhverfismálum í mjög víðum skilningi. Munum að Ursula von der Leyen boðaði í nýlegri heimsókn sinni samstarf við Ísland á sviði umhverfismála hafsins. Þá hefur aukinn þungi færst á verndun af flestu tagi og er það kannski vonum seinna ef miðað er við stöðu fiskistofna á sumum miðum Bandalagsins. Þessi verndun snýr m.a. að vali á veiðarfærum og Bandalagið styður greinilega veiðar í smærri stíl. En ekki er allt upp talið. Aukin áhersla er nú á félagsleg sjónarmið, staðbundin sjónarmið og rétt lítilla sjávarbyggða og lítilla útgerða til veiðiheimilda.

Um þetta má margt segja, en sú stefna að hygla litlum sjávarplássum, litlum útgerðum og annarri sjávarútvegstengdri starfsemi sem ekki er samkeppnisfær við stórútgerð, vinnur gegn þróuninni hér á landi. Þróunin hefur verið í átt til tæknivæddrar stórútgerðar. Litlu plássin hér á landi hafa á umliðnum áratugum misst veiðiheimildir sínar og eru flest að jafna sig – og ef þær eiga að koma til baka hefur það afleit áhrif á þjóðarhag. Kaupmáttur almennings yrði töluvert annar og minni.

Það er vegna þess að við Íslendingar rekum sjávarútveginn eins og auðlindanýtingu í stórum skala og við beitum hagkvæmustu tækni á hverjum tíma. Það þarf stærðarhagkvæmni við að nýta stórar auðlindir, annars glutrast þær niður. Hið gagnstæða er uppi á teningnum hjá ESB. Að öllu samanlögðu miða reglur þess við að sjávarútvegsauðlindin sé félagsmálapakki fyrir svæði og útgerðir sem standa veikt – og sérstakur evrópskur sjóður er rekinn til að greiða útgerðum fyrir að veiða, Evrópski sjávarútvegs- og fiskveiðisjóðurinn, EMFF. Veiðum virðist ekki ætlað að skila hagnaði.

Hér skal minnt á að veiðar mannsins hafa ávallt skapað ákveðið jafnvægi milli tegunda í náttúrunni – breytilegt jafnvægi eftir tímabilum og veiðihefðum. Ástæða er til að óttast að evrópskir stjórnmálamenn og opinberir starfsmenn hafi ekki innsýn í jafnvægi í lífríkinu í hafinu. Verkin sýna merkin.

Markmið og leiðir í sjávarútvegsmálum – ESB annars vegar og Íslands hins vegar – ganga þannig að mörgu leyti í gagnstæðar áttir. En lítum nú á útlínur sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar og hvaða áhrif hún hefur á Ísland – verði ekki samið um sérreglur fyrir okkur.

Valdastofnanir

Fiskveiðilandhelgi hvers aðildarríkis er 12 mílur, en sameiginleg landhelgi er frá 12 til 200 mílna. Fyrir okkur lægi að draga landhelgina saman og missa stjórn á hafsvæðinu kringum landið – svæðinu milli 12 og 200 mílna markanna. Samkvæmt meginreglum sameiginlegu stefnunnar eiga skip frá ESB óhjákvæmilega rétt til veiða innan þeirra marka hjá öðrum aðildarríkjum. Ýmis sjónarmið og aðstæður takmarka síðan framkvæmd þess réttar, en hann er þó alltaf fyrir hendi.

ESB hefur víðtækar heimildir til að tryggja sjálfbærni og umhverfisvernd. Spurningin er hvað það þýðir í raun fyrir aðildarríkin. Því getur ESB ákveðið hvaða veiðarfæri eru notuð, stærð veiðarfæra og lokanir svæða – svo eitthvað sé nefnt.

Ákvarðanir um heildarafla (sem kallaður er TAC – Total Allowable Catches) eru teknar af ráðherraráði ESB (Counsel of ministers). Jafnframt ákveður ráðherraráðið skiptingu heimilda milli aðildarríkjanna. Hvert ríki fær nánast óbreytanlega prósentu af heildarveiðiheimildum, en þær eru hins vegar breytilegar. Þá er mikilvægt að nefna að við ákvarðanir sínar ber ráðherraráðinu ekki einvörðungu að hlíta fiskveiðiráðgjöf, heldur getur það einnig tekið önnur sjónarmið til greina og það velur sjálft hvaða sjónarmið það eru.

Veiðiráðgjöf fyrir ESB kemur frá ICES (International Council for the Exploration of the Sea), en ráðherraráðið er ekki bundið af henni eins og fyrr segir. ICES er nokkurs konar vísindaleg stoð fiskveiðistjórnunar í Norður-Atlantshafi, er staðsett í Kaupmannahöfn og Íslendingar eiga aðild að henni.

Úthlutun veiðiheimilda innan ríkja, sem eru bæði veiðiheimildirnar frá ESB og vegna eigin heimilda innan 12 mílnanna, eiga að byggja á félagslegum sjónarmiðum og umhverfisvernd og á efnahagslegum sjónarmiðum lítilla útgerða og útgerðastaða. Fremur en á veiðireynslu einni og sér.

Sameiginlega stefnan krefst þess að öllum afla sé landað í viðkomandi landi. Það er til að hægt sé að fylgjast með brottkasti.

Ákvörðunarvald í þessum sex punktum er ekki hjá einstöku aðildarríkjum og flyttist í okkar tilfelli úr landi, ef til aðildar kæmi. Nema annað komi til.

Ákvörðun veiðiheimilda

Ákvörðun um hlutfall hvers ríkis af heildarafla (TOC) byggir á reglunni um hlutfallslegan stöðugleika (relative stability) sem tryggir hverju ríki tiltölulega fasta hlutdeild af heildaraflanum. Meginviðmiðanir fyrir hlutfallslegan stöðugleika eru veiðisaga, sérstakar þarfir ákveðinna svæða og vernd svæða með litla samkeppnishæfni.

Veiðisaga er hversu mikið hvert ríki veiddi fyrir tilkomu sameiginlegu fiskveiðistefnunnar eða í aðdraganda nýrrar aðildar. Um veiðireynslu var samið innan ESB 1983 og miðað í upphafi við veiðiárin 1973-1978. Í seinni samningum hefur verið miðað við nýlegri tímabil. Hafa verður í huga að þótt ríki sitji eitt að veiðireynslu gefur það ríkinu ekki sjálfkrafa rétt til að sitja eitt að veiði, eins og áður hefur verið nefnt. Hins vegar vegur veiðireynsla þungt við ákvörðun prósentu.

Sérstakar þarfir ákveðinna svæða og byggðarlaga sem eru háð fiskveiðum. Mikil áhersla er lögð á nýtingu auðlindarinnar í þágu lítilla staða og útgerða – sem ekki eru samkeppnishæfar við stórútgerðir.

Vernd svæða með litla samkeppnishæfni og þar sem sérstakar aðstæður ríkja, t.d. einhæft atvinnulíf. Þar er átt við svæði þar sem sjávarútvegur er mikilvægur hluti efnahagslífsins og útgerðir smáar og geta ekki keppt við stórútgerð. Þá er líka miðað við landfræðilega einangruð svæði (aðallega eyjar) þar sem fáir aðrir atvinnumöguleikar eru fyrir hendi.

Veiðisaga og vernd svæða með einhæft atvinnulíf eru viðmið sem styðja að Íslendingar hafi meiri aðgang að auðlindinni við landið en aðrir (jafnvel allan aðgang). En mögulega munu önnur ríki vilja hagnýta sér rétt sinn á Íslandsmiðum – ef Ísland yrði aðildarríki – gegn því að Íslendingar fengju kvóta annars staðar eða aukinn kvóta í flökkustofnum.

Hvað varðar viðmiðið sérstakar þarfir ákveðinna svæða þá ganga þær gegn stefnu Íslands í sjávarútvegsmálum og fela í sér afturhvarf til eldri vinnubragða og ósamkeppnisfærni atvinnugreinarinnar.

Lokaorð

Í þessu máli togast á stjórnsýslufræðingurinn í mér og að ég var á togurum með námi og kynntist veiðum erlendra skipa í íslenskri landhelgi. Ég er mikill evrópusinni og lít á ESB sem draumaborg góðrar stjórnsýslu sem hýsir sennilega bestu samfélög í sögu mannkynsins – en við þurfum að lifa á einhverju hér á landi. Það þarf stærðarhagkvæmni við að nýta stórar auðlindir, annars glutrast þær niður eins og gerðist hjá okkur áður fyrr. Auk þess sem hættur á óskiljanlegum friðunum og veiðarfæratilskipunum vofðu alltaf yfir okkur.

Við vitum ekki hvaða varanlegar undanþágur, sem kallast sérreglur, gætu fengist. Önnur ríki hafa strangt tekið ekki fengið varanlegar undanþágur (á því eru undantekningar sem stundum eru túlkaðar sem varanlegar undanþágur), nema sem tímabundna aðlögun og tímabundin aðlögun er ekki það sem við þurfum Við gætum verið að semja til sex alda eins og með Gamla sáttmála. Ef samið er um sérreglur þurfa öll þjóðþing ESB að samþykkja þær. Þá á ég helst við mikilvægustu sérregluna sem er krafan um 200 mílna landhelgi með öllu því forræði sem henni fylgir. Velta má fyrir sér hvort öll þjóðþing aðildarríkjanna samþykktu það.

Engin stefnumótun fyrir Ísland er mikilvægari þeirri sem ríkisstjórnin setur fram í sjávarútvegsmálum fyrir aðildarviðræður við ESB. Afstaða stjórnvalda í málinu, þ.e. hvernig þau ætla að halda á hagsmunum landsins, ræður væntanlega miklu um hvort þjóðin vilji fara út í viðræður eða ekki. Stefnan þarf því að liggja fyrir tímanlega og vera öllum kunn áður en kosið verður um málið. Hvort sjávarútvegsmálin útiloki aðild yfirleitt skal ósagt látið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation