Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.
—–
Stjórnmálakerfi sem byggjast á almennri skynsemi og stefnumiðum gætu staðið veikt, meðan sértæk, staðreynd þekking gerir kröfur um völd og áhrif.
Komið hefur fram hjá ákveðnum þingmönnum að völd þeirra fari þverrandi. Það er ágeng spurning og svörin við henni eru mörg. Hér ræði ég bara um eitt þeirra og hugsa upphátt.
Þekkingarþjóðfélagið
Enda þótt upplýsingin og þekkingin sé kannski besta gjöf mannkynsins gæti hún verið að skipta um eðli. Minna má á að magnbreytingar verða oft að eðlisbreytingum, eins og hefur sýnt sig hvað eftir annað í upplýsingatækninni.
Á meðan ný þekking og upplýsing hefur verið meginstoð stjórnmálanna, kannski alveg frá upphafi upplýsingaaldar, og lagt almenningi og stjórnvöldum til ný og beitt rök, oft kölluð fagleg rök, gæti hún nú gert auknar kröfur um að taka við stjórninni.
Fyrir liggja rannsóknir á flestum sviðum: Í hvaða þjóðfélagsgerð þróast bestu mannfélögin og mesta hagkvæmnin, hvaða áhrif hefur spilling, á hvaða stjórnsýslustigi eiga verkefni að vera – og hvað á að vera í opinberum rekstri, hvað á að vera í einkarekstri, t.d. vegna sveigjanleika, og hvað á að vera í blönduðum rekstri?
Hér erum við komin að vegg, staðreynd þekking er ekki sjónarmið eða stefna eins og stjórnmálaskoðanir, heldur er hún í eðli sínu alræðisleg og hafnar mótbárum og málamiðlunum.
Ólík þekking tekst á
Ólíklega mun mannkynið hætta að skiptast á skoðunum og nú sér í hvernig þetta gæti átt sér stað. Það er með breytilegum sannleika, breytilegri staðreyndri þekkingu. Við höfum séð rússnesku leyniþjónustuna og Wagner-hópinn leggja fram hliðarsannleika – og kosta jafnvel rekstur jaðarrannsóknarstofa um allan heim til að framleiða slíkar niðurstöður. Við köllum hliðarsannleika falsfréttir, þá sem aðhyllast hann afneitunarsinna og málflutning þeirra samsæriskenningar og jafnvel hatursorðræðu.
Hins vegar erum við líka með meginstraumssannleika, sinn fyrir hverja þjóðfélagsgerð. Þannig fá Kínverjar aðeins tiltekna staðreynda þekkingu, Vesturlandabúar sína, nema Bandaríkjamenn sem hafa hana væntanlega tvískipta, Rússar sína og Íranir sína. Enda þótt þessir þekkingarheimar eigi mikilvægustu rannsóknarmiðurstöður mannkynsins sameiginlegar, þá leggja þeir allir áherslu á að byggja upp eigin þekkingarsetur gervigreindar, sem munu gefa almenningi að einhverju leyti ólíkar niðurstöður í flestum samfélagslegum efnum.
Við höldum því auðvitað fram að vestræn háskóla- og rannsóknarstofuþekking gefi okkur hin endanlegu svör, en vitum um leið að freistnivandi felst í baráttu þekkingarheimanna, t.d. þegar miklir hagsmunir eru í húfi.
Síðan kunna einhverjir að leita sjónarmiða til hliðarsannleikans ef hann hentar. Við erum þegar farin að sjá þetta, t.d. rússneska áróðursþekkingu í íslenskum miðlum varðandi loftslagsmál, en ekki síður varðandi þjóðernishyggju, afbökun fullveldishugtaksins og gegn NATO og ESB – til að spilla samvinnu vestrænna ríkja.
Við gætum jafnvel séð nýja skautun, t.d. milli menntaðra og ómenntaðra (einkum í strjálbýli), svipað og virðist tilfellið í BNA.
Ný þjóðfélagsgerð
Heyrir lýðræðið eins og við þekkjum það þá ekki sögunni til? Það má rökstyðja. Lýðræðið, þ.e. að almenningur geti myndað sér skoðun á hvaðeina og meginniðurstaða hans í kosningum skapi besta þjóðfélagið, byggist á því að almenn skynsemi (e. common sense) og pólitísk stefnumið, séu grundvöllur lýðræðislegra ákvarðana. En hvort tveggja er að víkja fyrir þekkingunni.
Ef við látum sértæka staðreynda þekkingu ráða við mótun þjóðfélagsreglna þurfum við ekki kosningar og alþingismenn verða stimpilpúðar.
Fyrir nokkrum árum birtu fjölmiðlar gjarnan andstæðar skoðanir, skoðanir sem byggðust á almennri skynsemi, og stjórnmálaflokkarnir tryggðu jafnvægi í umfjöllunum RÚV, en nú hafa íslenskir og vestrænir fjölmiðar skipað sér í fylkingar: Annars vegar meginstraumsfjölmiðla sem halda fram vestrænni þekkingu – og fjölmiðla afneitunarsinna.
Meginstraumsfjölmiðlarnir birta ekki lengur andstæð sjónarmið af því að þau eru að þeirra mati ósönn, jafnvel hatur – og, eins og hér er sagt, sjónarmið hafa verið leyst af hólmi með þekkingu. Samkvæmt siðfræðikenningum nútímans gengur enginn heiðarlegur maður veg lyginnar!
Við berumst með straumnum til nýrrar þjóðfélagsgerðar að kínverskri fyrirmynd, allir verða að ganga í takt sem hjá okkur er sleginn af vestrænni þekkingu og sumum þeim gildum sem okkar þjóðfélagsgerð byggist á – nema kannski gagnrýninni hugsun og víðsýni.
Að lokum
Við þessar aðstæður horfa þingmenn hissa á þróunina, en segja: Við afhendum þekkingarþjóðfélaginu völdin mótþróalaust, gerðum það t.d. í kóvíd, enda þótt okkar störf breytist við það í leiksýningu.
Sá sem þetta skrifar trúir á vísindin, þekkinguna, jöfnuð og lýðræði og getur ekki annað en vísað á staðreynda vestræna þekkingu sem grundvöll ákvarðana. En við erum á óþekktri leið, jafnvel þekkingin sér ekki langt inn í framtíðina, og ég horfi með ugg á þróun fjölmiðlanna, skilmála þekkingarinnar og einsýna gervigreindina. Er alræði þekkingarinnar að taka við? Hvert sem svarið við því er verðum við að ganga henni á hönd, viljug, óviljug.