Snjór í nóvember

– Hefur þú orðið var við að eiturlyfjum sé dreift hér á Alþingi, spurði Hreggviður Hannesson, forseti þingsins, skrifstofustjóra sinn, Eggert Briem, þar sem þeir sátu síðdegis í koníakstofunni í kjallara Kirkjustrætis 10 og héldu báðir á glasi. Sá fyrrnefndi hafði boðað þann síðarnefnda niður, hafði ætlað að gera það fyrr þennan sama dag, en annir hindruðu.

Skrifstofustjóranum brá en náði að hafa fullt vald á sér, enda annálaður fyrir mikla diplómatíska hæfileika. Hann var allra vinur og – að flestra dómi – öllum trúr. Hvernig sem hann fór að því. Margir alþingismenn leituðu til hans sem ráðgjafa og aðrir litu á hann sem sérstakan trúnaðarvin. Nú velti hann koníaksglasinu hugsi í hringi. Það var farið að mugga fyrir utan gluggann, það festir að vísu sjaldan snjó í Kvosinni, en fölið var við það að hylja misfellur. Stór snjókornin féllu hægt til jarðar. Svo bar hann glasið upp að vitum sér til að njóta ilmsins.

-Nei, sagði hann, hvernig dettur þér það í hug?

Þar með hafði hann svarað með spurningu. Þingforsetinn sat gegnt honum og gaumgæfði ekki snjókomuna, enda gamall bóndi og þekkti snjó eins og handarbakið á sér og fannst ekki mikið til hans koma.

Koníakstofan í Kirkjustræti 10 var nýlega innréttuð og vera í henni var eini lúxusinn sem fylgdi æðstu embættunum á Alþingi. Jæja, kannski ekki alveg sá eini. Þarna niðri, í laglega steinhlöðnum kjallaranum, sem hafði við uppgerð hússins verið dýpkaður til að tryggja góða lofthæð gátu þeir setið sem á annað borð höfðu aðgang að rýminu. Sem auðvitað voru ekki margir, en þeir gátu hvílt sig eftir eril dagsins og borið saman bækur sínar. Það var alltaf gantast með að Víetnam-hreyfingin hefði haft kjallarann til umráða og hann því heldur betur gengið upp virðingarstigann. Forseti Alþingis og aðrir sem komu niður hlógu digurbarkalega að þessu. En aðrir hlógu minna. Kannski var þetta ekki satt.

-Ég hef mínar heimildir fyrir því að eitthvað óhreint sé á seyði, svaraði Hreggviður hægt og eins og honum væri alveg sama. Þessi afar stóri maður laut fram, var raunar alltaf lotinn og með vísi að herðakistli, og dökkgráu samstæðu fötin krumpuðust enn meira. Svo bætti hann við.

-Ég ætla að biðja þig að hafa augun opin. Eiturlyf eru alvarlegt mál, ef þannig er í pottinn búið. Þetta þarf að fara hljóðlega því jafnvel óvarleg hugsun getur dreift sér.

Skrifstofustjórinn iðaði af ánægju þegar hann heyrði þetta orð. Hljóðlega. Hann brosti með sjálfum sér. Hann aðhylltist leyndarmál í opinberu lífi, að sumt færi hljóðlega – þótt annað þyrfti auðvitað að komast á yfirborðið, það sem gegndi jákvæðum tilgangi.

Eggert var að nokkru leyti andstæða hins stórskorna forseta Alþingis, lágur vexti og grannur, fríður, jafnvel smáfríður, og bar vel vandaðan þrískiptan fatnað eins og hann klæddist á þessari stundu, rétt eins og hann hefði fæðst í honum. Hárlaus hvirfillinn lét hann sýnast lægri en hann var í raun og veru. Nú var honum ekki rótt. Hvað var forsetinn að róta í misjöfnu? Það var hann sjálfur sem hafði með skrifstofuna að gera. Kjarni málsins var sá, að hann þurfti sífelldlega að verja sjálfstæði skrifstofunnar gagnvart honum, en forseti á einvörðungu að fjalla um þingmál. Með ráðgjöf frá skrifstofustjóranum. Í þingsköpum segir svo orðrétt að skrifstofustjóri stjórni skrifstofunni í umboði forseta. Stjórni skrifstofunni! En þessi nýi forseti hafði hvað eftir annað reynt að hafa áhrif á stjórn skrifstofunnar, eins og raunar hafði borið við áður. Flestir forsetar voru sérlega áhugasamir um mannaráðningar og innkaup. En þessi var ekki einu sinni laus við ágirnd – með stórum bændahöndum trommaði hann á borðið og sagði.

-Ég þarf nauðsynlega hönnunarlampa.

Sem hann vildi láta kaupa til þess að sýna veldi sitt fyrir gestum – og auðvitað bað hann um margt annað, nú síðast fatapeninga. Skrifstofustjórinn stöðvaði hugrenningar sínar og sneri sér að þingforsetanum.

-Nei, ef eitthvað væri um slíkt hér myndi það væntanlega koma upp á yfirborðið, sagði hann. -Við vinnum nú á hálfgerðri útvarpsstöð. Fátt er sagt hérna, hugsað eða gefið í skyn án þess að verða að fyrirsögnum blaðanna.

Eftir nokkra málhvíld bætti hann við.

-En er ástæða til að ætla að svo sé?

Eitt andartak var andlitið spurult. Skrifstofustjórinn duldi samt forvitni sína jafnan vel.

Þetta var augnablikið. Hreggviður svaraði spurningunni ekki, en tók að ræskja sig.

Skrifstofustjórinn var svo sjóaður í að taka á móti beiðnum um aukin útgjöld að hann sá þær jafnvel koma gangandi á móti sér. Honum fannst augnaráðið oftast koma upp um fyrirætlanir alþingismanna í þessu efni, og kannski líkamstjáningin. Nema þegar forseti þingsins átti í hlut. Hann hóf beiðnirnar með ræskingum. Eggert hafði óbeit á beiðnum um aukin fjárútlát og þrá hans eftir samhaldssemi í opinberum rekstri hafði aukist með árunum.

-Ég ætla að biðja þig að útvega egg Arne Jacobsen og koma fyrir hér í koníakstofunni, byrjaði Hreggviður. Þú veist hvað ég á við; stólinn sem hann hannaði fyrir SAS Royal-hótelið fyrir næstum fjörutíu árum. Ég hefði viljað tvo og að þeim yrði stillt upp hverjum gagnvart öðrum og sá þriðji yrði svanurinn, hann væri til hliðar. Stólarnir þurfa að vera leðurklæddir.

Að þessum orðum sögðum teygði þingforsetinn sig í ytri brjóstvasann þar sem tveir vindlar í hylkjum blöstu við. Hann otaði öðrum þeirra að skrifstofustjóranum.

-Má ekki bjóða þér vindil?

Svo fór hann að dedúa við sinn eigin vindil, klippti hann til og var lengi að kveikja í honum með bensínkveikjara.

Ekkert af þessu kom skrifstofustjóranum á óvart og hann sá í hendi sér að verið var að tala hið minnsta um fimm milljónir í kostnað. Sem var engin ósköp á mælikvarða forsetans. En Eggert sagðist svo hugur um að forsetinn hefði borið stólamálið upp til að fá höfnun skrifstofustjórans, sem hafði þegið af honum vindil. Hann væri kannski með annað og kostnaðarsamara erindi í pokahorninu sem hann kæmi með á eftir, en byrjaði á stólunum. Ef skrifstofustjórinn hafnaði fyrra erindinu yrði erfiðara fyrir hann að hafna því síðara þótt það væri margfalt dýrara.

-Ég get ekki svarað þér jákvætt um stólana í bili, en skal athuga málið. Ég á fund með formanni fjárlaganefndar í næstu viku.

Það brá fyrir hiki í rómnum. Hann vissi ekki alveg hvaða stefnu þetta samtal myndi taka.

-Eiginlega finnst mér ekkert gefa starfinu þægilegri blæ en að sitja hér eftir erfiðan vinnudag í góðum stól. Við þurfum líklega báðir á því að halda, svaraði Hreggviður.

Nú hló þingforsetinn.

Hann átti ekki marga óvini, en formaður fjárlaganefndar hafði unnið gegn honum í prófkjörinu þannig að hann færðist sæti neðar á listanum. Það yrði ekki fyrirgefið.

Svo bætti hann við:

-En finndu aðrar leiðir en að tala við formann fjárlaganefndar.

Skrifstofustjórinn leit óþolinmóður niður í glasið sem of lítið var í og hugsaði með sér að ef þingforsetinn teldi sig hafa góðan málstað til að biðja um eitthvað annað, myndi hann láta kné fylgja kviði. Núna kæmi það.

Í því efni reyndist hann sannspár. Nú skipti forsetinn um umræðuefni og varð aftur alvarlegur.

-Svo er annað og enn mikilvægara mál, við þurfum að koma okkur upp bifreið. Auðvitað þarf ég embættisbifreið svipað og ráðherrarnir eru með. Það kallar á einkabílstjóra og kostnaðurinn yrði nokkur. Bílstjóri myndi til dæmis keyra mig í fylgd minni með forseta Íslands. Við gætum losað okkur við Jósafat bæði hratt og vel. Hann er ekki rétti maðurinn til að keyra þjóðhöfðingja, á slitnum gallabuxum, skilur ekki prótókoll og er ókurteis! Það er stutt í að ég sinnist við hann.

Skrifstofustjórinn var risinn upp undir þessum orðum, mest til að ná sér í eldfæri, en síðan horfði hann vel og vandlega út á Kirkjustrætið. Það var byrjað að hreyfa vind. Í áttleysu. Hann átti bágt með að þola áttleysuna hér fyrir sunnan og hún pirraði hann rétt eins og erindi forsetans.

Svo það var þetta sem var í pípunum. Nýr, stór, þýskur fólksbíll og bílstjóri.

Hann settist aftur og sagði.

-Núverandi fyrirkomulag er gott. Við komumst á forsíður blaðanna ef við kaupum glæsibifreið. Ráðuneytin kaupa þær á sumrin þegar sumarfrí eru hjá fjölmiðlum, í stjórnmálunum og hjá þjóðinni. Við stöndum vel því Jósafat leggur okkur til nýjan Benz í verktöku. Kostnaðurinn við þjónustu hans er vissulega mikill, en það er rekstrarkostnaður. Stofnkostnaður kemst hins vegar alltaf á forsíðurnar. Aksturskostnaður æðstu ráðamanna er viðkvæmt mál sem heppilegt er að vekja ekki athygli á.

Það varð þögn. Hreggviður horfði á Eggert. Auðvitað höfðu ráðherrarnir eigin embættisbíla og eigin bílstjóra sem óku þeim um bæinn, slompuðum eða ekki. Hvaða erindum sem var. Fóru jafnvel í leikfangabúðir og keyptu afmælisgjafir fyrir afkomendur ráðherranna og blóm fyrir konur sem þurfti að blíðka.

Nú sýndi skrifstofustjórinn hæfileika sína og að hann stóð fyllilega undir því orði sem af honum fór, því eftir útmælda þögn sagði hann.

-Ég skal skoða bílakaup með velvilja, en allt tekur sinn tíma. Hvað er annars að honum Jósafat? Er hann að dreifa eiturlyfjum?

Þetta var skot í myrkri, en Eggert varð að þjóna forvitni sinni. Og skotið hitti þingforsetann illa fyrir. Hann horfði rannsakandi á Eggert. Alltaf var hann með undirmál. Vissi hann af töskuburði Jósafats og hvað var í þeirri tösku, jafnvel hverjir nutu innihalds hennar? Var hann einn þeirra, þessir æðstu menn ríkisins gera það sem þeim sýnist. Þeir fastráðnu. Var hann kannski kominn í kúgunaraðstöðu gagnvart forseta Alþingis og jafnvel forseta Íslands og voru þeir leiksoppar hans? Af því að óútskýrður töskuburður var stundaður fyrir framan nefið á þeim?

En þingforsetinn hristi af sér ofsóknartilfinninguna. Hún tilheyrði annarri stétt manna en hann var í um þessar mundir. Hann yrði að ganga út frá því að Eggert þekkti ekkert til málsins. En hann fann vel hvernig óttinn læsti sig um hann. Myndi svört taska fella hann að eilífu?

-Veistu Eggert minn, stundum er best að vita sem minnst. Vegir stjórnmálanna eru órannsakanlegir. En þetta mál með bílinn er þannig að það þolir enga bið. Við verðum óhjákvæmilega að leysa það fyrir helgina.

Forseti Alþingis myndi ekki í þetta skipti hella aftur í glösin, sem hann hafði annars hugsað sér. Tvisvar, hefði hann fengið bílinn refjalaust. Hann var óöruggur, auðvitað var þetta töskumál of krassandi fyrir litla þjóð. Það er nú einu sinni svo að á Alþingi, og raunar í stjórnarráðinu líka – ef út í það er farið – er best að afgreiða málin í kyrrþey. Annars er hætt við að tiltrú almennings á lýðræðinu veikist.

Skrifstofustjórinn fann vel að Hreggviður var órólegur. En þótt honum fyndist það þægilegt var vont að spila á móti blindum. Hvað vissi þingforsetinn raunverulega um eiturlyf á skrifstofunni og hvað var hann að fela sem snerti Jósafat? Hann tók aftur til máls:

-Við höfum rætt um fjárhagsáætlunina. Þú manst að við vorum skornir niður í fyrra og erum að tefla á tæpasta vað í ár. Við höfum bæði þurft að endurbjóða út prentun Alþingistíðinda og minnka yfirvinnu. Alþingi getur ekki farið fram úr fjárheimildum, við erum öðrum fyrirmynd.

Og svo fór hann út á ísinn:

-Ég hefði haldið að þú þyrftir að sækja fjárveitingu fyrir bíl sjálfur og jafnvel fyrir fleira í leiðinni. Við í yfirstjórn skrifstofunnar yrðum þér þakklátir. Ég get undirbúið erindið og kallað formann fjárlaganefndar til fundar við okkur.

-Það þýðir ekkert, hann er fífl, svaraði forseti Alþingis.

*

Að morgni þessa sama dags ók nýlegur Mercedes-Benz 500, árgerð 1994, í austurátt eftir Keflavíkurveginum. Hraðamælisnálin var stöðug og blasti við á stórri hringlaga skífunni fyrir framan stýrið. Hún sýndi 120 km./klst. sem er ekki mikill hraði fyrir þennan bíl á þessum vegi. Í aftursætinu sat einn farþegi, forseti Alþingis, og einkabílstjóri þingsins, Jósafat Pálsson, ók. Þeir voru á leiðinni til baka frá Leifsstöð eftir að hafa farið í veg fyrir morgunflugið til Berlínar og þögðu án þess að það væri þvingandi og þingforsetinn var í eigin heimi. Hann var í vinnugallanum, á sparifötum, eins og Jósafat myndi orða það.

-Hvað er í …

Hreggviður var næstum því farinn að spyrja út í innihald töskunnar þegar hann áttaði sig á að það væri kannski ekki skynsamlegt. Hér gæti verið betra að hugsa áður en talað er. Hann var stundum lengur en aðrir að meta aðstæður, en nú var hann stoltur af að hafa stöðvað sjálfan sig á síðustu stundu.

-Hvað er vélin mörg hestöfl, bjargaði hann sér svo með og Jósafat svaraði að bragði.

-Hún er 320 hestöfl og bíllinn kemst á 320 km. hraða ef með þarf.

Jósafat var hróðugur.

-Ég hef ekið honum á þeim hraða, á Mýrdalssandi.

Hreggviður svaraði ekki. Hann sat hægra megin í aftursætinu og tók handlegginn af armpúðanum sem var felldur fram milli sætanna, klæddur svörtu leðri eins og sætisbekkurinn, og seildist eftir seinni vatnsflöskunni sem Jósafat stillti alltaf upp í flöskuskálunum og fékk sér sopa. Um hægri gluggann mátti sjá móta fyrir hrauninu og útlínum Keilis, en ljósin í Vogunum voru að birtast til vinstri. Það var dimmt, en aðeins byrjað að skíma í austrinu.

Þingforsetinn fann það núna hvað hann var orðinn eftir á í bílamálum, Hondan hans, Honda Accord, var farin að lýjast, meðal annars flökti hraðamælisnálin og titringur var í bremsunum. Hann hafði vonast eftir að nýju ráðherraembætti fylgdi nýr bíll, almennilegur bíll – en hann varð ekki ráðherra í nýju ríkisstjórninni, heldur forseti Alþingis. Af því að hann var of neðarlega á lista. Þar með varð hann hálfdrættingur í launum á við ráðherra og bíllaus. Hann hafði samt aðgang að Jósafat og hans akstri, en Jósafat var ekki kallaður til af tilefnislitlu.

-Þú ert glanni, sagði hann og ætlaðist ekki til svars. Þetta var sjálfstæður dómur.

Aðstaðan á Alþingi var að flestu leyti önnur og lakari en í ráðuneytunum og núningur var kominn upp milli hans og skrifstofustjórans, eiginlega út af hvaðeina; hvernig hafði honum til dæmis gengið að fá handgerða verðlaunalampann frá hönnunarsamkeppninni í vor? Og hann á eftir að fá betri einkaskrifstofu, hún verður á efstu hæð Austurstrætis 10 og mun snúa að Austurvelli. Enn er verið að innrétta húsnæðið sem átti með réttu að vera tilbúið síðastliðið vor. Hann gat varla látið sjá sig í kytrunni við Templarasund. Við tilhugsunina eina fann hann fúkkalyktina í vitum sér.

Hreggviður beygði sig fram til að lina magaverkinn. Hann var veill í maga og þoldi kaffi illa, raunar sterk vín líka ef út í það er farið, en hann stóð þau oftast af sér. Einmitt núna var hann með magaverk og það var annað og verra en aðstöðuleysið á Alþingi sem olli því.

Á leiðinni niður rúllustigann sem bar flugfarþegana til komufríhafnarinnar í Leifsstöð varð honum litið aftur fyrir sig. Við blasti svört ferköntuð leðurlíkistaska sem Jósafat hélt á, en hann stóð þremur þrepum ofar en forseti þingsins. Við fyrstu sýn virtist honum ekkert óeðlilegt við það að bílstjóri Alþingis héldi á skjalatösku, en samt hnykkti þingforsetanum við. Jósafat átti ekki að halda á tösku inn í landið. Á leiðinni inn í Leifsstöð hafði Hreggviður tekið eftir því að Jósafat hélt á hinni brúnu skjalatösku embættis forseta Íslands. Sem núna var orðin svört – og ekki bara það – forsetinn var farinn með brúnu töskuna inn í flugvélina Herðubreið og sat þar í fremsta sætinu á Saga-klass og blaðaði í þýsku glósunum sínum frá náminu hjá Germaníu – hann var svo sannarlega ástundunarsamur við þýskuna – og var sennilega með töskuna í fanginu. Hvaða ferðalag var á þessari svörtu tösku? Frá transit í Leifsstöð og til Alþingis. Þingforsetinn teygði sig fram og sá töskuna þar sem hún lá á hliðinni til fóta fyrir framan framsætið.

-Mig hefur lengi dreymt um að eignast góðan bíl, sagði hann í mæðutóni. -En þú veist hvernig launamálum stjórnmálamanna er háttað. Við höfum varla í okkur og á eftir að við hættum að stunda aðra vinnu með.

Jósafat þagði.

-Það er annað en þið bílstjórarnir sem eigið skuldlaus einbýlishús í úthverfunum.

Enginn vafi lék á því að þetta tók á forsetann.

Enn sagði Jósafat ekkert en einbeitti sér að akstrinum. Kannski fann hann á sér að forsetinn var að beina athyglinni frá töskunni, sem hann virtist hafa rekið augun í. Sem hann hafði ekki gert áður, eins utan við sig og hann var. Var hann ekki næstum því farinn að spyrja út í hana?

Fylgd forseta Alþingis með forseta Íslands út á Keflavíkurflugvöll var í fyrstu áhugaverð skylda, það var ekki ónýtt að vera í nánu sambandi við æðsta valdamann lýðveldisins. Forsetanum var fylgt að brottfararhliðinu þegar hann fór til útlanda og þaðan þegar hann kom til baka. Þarna áttu valdaskiptin sér stað, þeim var handsalað; forseti Alþingis, og raunar einnig forseti Hæstaréttar, öxluðu ábyrgð forsetaembættisins þegar forseti Íslands fór til útlanda og skiluðu henni af sér við þetta sama hlið þegar hann kom aftur.

Eftir því sem ástarsamband forseta Íslands við yfirstéttarkonuna í Berlín varð dýpra urðu ferðirnar út á völl smám saman fjölmargar, núorðið í hverri viku – og Hreggviði fór að finnast nóg um.

Í ljós kom að þeir forsetarnir, forseti Alþingis og forseti Íslands, áttu ekki skap saman og þagnirnar í aftursætinu urðu lengri og lengri með hverri ferðinni sem farin var. Við þær aðstæður átti Hreggviður í vandræðum með sig, sérstaklega það hvert hann beindi sjónum sínum, og hann starði gjarnan í bak framsætisins eða gjóaði augunum að hraðamæli bílsins. Honum bar samt að vera áhugasamur um málefni forsetans og lýðveldisins.

En svo hagaði til að forseti Íslands var hrokagikkur, að minnsta kosti gagnvart þingforsetanum, og hafði jafnvel meiri áhuga á samlífi með konunni í Berlín en málefnum lýðveldisins; auk þess með hvaða fólki hann borðaði málsverði. Þeir forsetarnir áttu þó áhuga sinn á kvenfólki sameiginlegan, en eftir að forsetinn fór að niðurlægja hann í því efni forðaðist Hreggviður umræðuefnið. Í sjálfu sér hafði hann ekki veikt andsvar, samkvæmt skoðanakönnunum var þjóðinni ekki gefið um kvennafar forseta Íslands. En hann skattyrtist ekki við hann.

Hreggviður leit á Jósafat og mældi hann út þar sem hann sat í bílstjórasætinu. Bílstjóri Alþingis var röskur maður á stökum ullarjakka og bláum bómullarbuxum; hann gekk alltaf á undan forsetunum að brottfararhliðinu teinréttur, eins og lágvaxnir menn eiga vanda til, bæði við komur og brottför forsetans, og kvaddi hann með handarbandi, helst áður en valdaskipti forsetanna áttu sér stað. Það var ekki samkvæmt þeirri röð fylgdarmanna og atburða sem prótókollar sögðu fyrir um. Enginn kallaði Jósafat töskubera, sem hann þó var, hann hélt bæði á skjalatösku og ferðatösku forsetans milli bílsins og brottfararhliðsins og ekki varð séð að þær tækju í.

-Hvað tekurðu annars á tímann, eða mælirðu kílómetrana sem eknir eru, hélt Hreggviður áfram.

Svarið kom um hæl.

-Hvort tveggja.

Auðvitað gat Jósafat tekið hvað sem var með sér inn í landið án þess að tollverðir skiptu sér af því. Þeir ónáðuðu ekki forsetafylgdina. En þá mátti hann ekki heldur vekja athygli forseta Alþingis á því. En var athygli hans alltaf vel vakandi? Við brottförina voru aðrir farþegar flugvélarinnar að fara frá landinu í Evrópuflug, en ekki að koma. Ef komufarþegi afhenti Jósafat tösku hafði hann komið með morgunfluginu frá Ameríku og myndi kannski ferðast lengra eða til baka, en væri í transit í Leifsstöð. Þar afhenti hann Jósafat tösku án þess að nokkur tæki eftir því.

-Hvað færð þú og bíllinn á tímann í svona ferð? Sennilega mikið meira en ég.

Nú svaraði Jósafat ekki, það eins og slumaði í honum. Hann var sennilega að hugsa sig um.

Aftur sóttu hugsanir um strategíu í þessu máli að þingforsetanum. Í fljótu bragði má ætla að til greina hefði komið að spyrja Jósafat út í töskuna:

-Hvaða svarta taska er þetta? Hvað er í henni?

En Hreggviður hafði á síðustu stundu séð að það gekk ekki. Jósafat mátti ekki vita af grunsemdum um athæfi hans, þá var ekki víst að hann héldi leynd um það. Hann gæti farið að státa sig af dirfsku sinni og hugkvæmni. Hann var að pukrast og hann skyldi fá að halda því áfram. Leyndin skiptir öllu máli.

En auðvitað væri spennandi að hringja beint í lögregluna og fela henni rannsókn málsins. Láta hana skoða upptökur myndavélanna í Leifsstöð og finna út hver afhenti Jósafat tösku. Auk þess að gera sjálfa töskuna upptæka og greina innihald hennar út í hörgul. Voru þetta varahlutir í bifreið Jósafats – nei, það var ekki líklegt, var þetta hass eða var þetta kókaín? Forseti Alþingis var ekki vel að sér um eiturlyf, en mundi svo allt í einu eftir amfetamíni, sem sagt var um árið að nefndarmenn á Alþingi tækju til að geta unnið allar nætur við þinglok.

Hann gæti vissulega slegið sér upp, mætt í viðtal við fjölmiðla, hreinsað andrúmsloftið og mannorð Alþingis – eða væri hann miklu fremur að ata það auri? Þá væri hann orðinn byltingarmaður. Honum brá við sjálfa hugsunina.

-Þessi túr kostar þig 93 þúsund, sagði Jósafat og rauf þannig hugsanir forsetans. -Ég geri reikningana fyrir fram, reikningar eru hjarta hvers rekstrar.

-Já vissulega, svaraði Hreggviður áhugalaust.

Forseti Alþingis gerði sér grein fyrir því að staða hans gæti eins vel verið að veði ef upp kæmist. Óþekkta taskan kom inn í landið þegar þeir tveir gengu til baka. Þó sjaldgæft væri að æðstu ráðamenn þjóðarinnar segðu af sér gæti hann orðið undir þrýstingi í þá átt ef upp kæmist um eitthvað misjafnt og flokksformaðurinn hafði vissulega fórnað honum í ráðherrakaplinum. Hvað myndi hann gera yrði Hreggviður skotspónn fréttamanna og almennings? Hann sjálfur yrði að losa sig við Jósafat.

En það þyrmdi ekki yfir forseta Alþingis fyrr en hann sá fyrir sér augnaráð Eggerts Briem, skrifstofustjóra Alþingis. Ásökunina í augnaráðinu, ásökun um svik með tilheyrandi útilokunarsvip. Og hann sá líka hvernig tiltrú almennings á lýðræðinu dalaði á línuriti í sjónvarpinu, jafnvel hryndi – fólk segði, eiturlyf á Alþingi, vissi ég ekki – og skrifstofustjórinn horfði á hann í lyftingu, en hann yrði lítill og hræddur.

Þeir voru að nálgast álverið í Straumsvík, dagskíman bjarmaði á móti þeim og annir dagsins í þinginu sigu hægt en ákveðið yfir þingforsetann. Hann hafði fitnað og fannst það verra. Hann kenndi því um að maturinn í mötuneyti Alþingis var afar góður, auk þess að vera ódýr, ódýrasti matur í landinu, eins og fjölmiðlar upplýstu reglulega um. Hann tók upp símann, það var orðið nógu áliðið morguns til að hringja í þingflokksformanninn.

*

Morguninn eftir fundinn í kjallara Kirkjustrætis 10 hittust forseti Alþingis og skrifstofustjóri þess fyrir tilviljun í mötuneytinu á annarri hæðinni í nýja Skálanum. Það var enn skuggsýnt og þeir voru einir og gengu að austurglugganum. Furugluggatjöldin voru hálfopin og mátti ógreinilega sjá spor í snjófölinu í Alþingisgarðinum, en ekki sprautunálarnar sem söfnuðust þarna saman.

-Við ættum kannski að funda, bara stutt, ef þú hefur tíma, sagði Eggert.

Hann benti á færeyska herbergið sem var á sömu hæð hússins. Mötuneytið var of opinn staður fyrir fundi. Að vísu hafði herbergið galla, lóðréttur gluggi var með dyrunum inn í það, þeir myndu sjást frá ganginum, og ekki víst að þeir fengju að vera í friði.

-Já, það líst mér vel á, svaraði Hreggviður.

Svo báðu þeir konurnar á bak við skenkinn að koma með kaffi inn til sín og kannski eina köku á mann.

Færeyska herbergið var fremur lítið fundarherbergi, það fór samt vel um fjóra við aflangt borð, og forsetinn settist með bakið í vesturgluggann sem vissi að bílastæðinu og skrifstofustjórinn gegnt honum.

-Ég hef verið að skoða þetta bílamál, byrjaði Eggert.

Hreggviður varð undrandi og ánægður, Eggert skrifstofustjóri tók sér yfirleitt tvo til þrjá mánuði í hvert erindi.

Fyrir skrifstofustjóranum vakti að loka á umræður um eiturlyf á Alþingi. Það var eitthvert samband milli þeirra og bílamálsins. Hann þóttist vita að Hreggviður vissi meira en hann gaf upp. Ýmislegt gæti verið að veði; ekki má vera mögulegt að kúga æstu valdamenn þjóðarinnar.

En nú var bankað. Fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis stakk inn höfðinu, horfði fyrst á færeyska málverkið af kindinni í grænni, brattri hlíðinni, sneri sér svo að þingforsetanum og spurði hvort hann hefði mínútu.

-Ég er upptekinn. En ef þú hefur tíma til að bíða þá verð ég ekki lengi. Viltu ekki bíða eftir mér í klukkuherberginu?

Þingmaðurinn lokaði með hægð og skrifstofustjórinn hvessti augun að forsetanum.

-Ég lokaði samningnum við Jósafat í morgun og nýr bíll er í ryðvörn. Hann verður afhentur á föstudaginn. Jósafat hætti raunar í gær þannig að þú þarft ekki að hitta hann oftar.

Skrifstofustjórinn rakti efnisatriði lausnar sinnar ekki fyrir forsetanum, en hann hafði sagt upp húsverði og tæki uppsögnin gildi um áramót. Reikningurinn fyrir bílnum kæmi fyrsta janúar og sléttaðist á næsta ári út á móti spöruðum launakostnaði og samningurinn við Jósafat var ekki eingreiðsla, heldur mánaðarlegar greiðslur í sex mánuði, sem breyttu engu um rekstrarkostnað frá því sem verið hafði. Að þeim sex mánuðum liðnum hafði skrifstofan lausan rekstrarkostnað sem þeim greiðslum nam og gat þá bætt við sig þingverði ef þess þyrfti. En hann ætlaði ekki að gefa eftir að forsetinn kæmi með aukafjárveitingu.

Kaffið var borið inn og Eggert hellti í bollana.

-Þetta líkar mér, svaraði Hreggviður. -Og keyptir þú almennilegan bíl?

Skrifstofustjóranum var litið út á planið og hin misfagra bygging Happdrættis Háskólans blasti við honum.

-Ég keypti stærstu gerð af Suburu, svaraði hann. Ég skal segja þér hvernig við förum að þessu. Umboðið mun státa sig af því að hafa selt Alþingi bíl, málið verður opinbert og við verðum að svara fyrir það. Því er best að við séum fyrri til og gefum út fréttatilkynningu með skýringu. Það hefur snjóað og spáir meiri snjókomu og við kaupum fjórhjóladrifsbíl til að tryggja ferðir þínar að vetrarlagi. Það þolir enga bið, enda forseti Íslands í Berlín. Bensinn hans Jósafats dugar ekki. Subaru-inn mun ekki þykja óhóflega dýr miðað við ráðherrabílana. Þingverðirnir verða góðir bílstjórar, ég ábyrgist að þeir kunna sig og þeir eru á svörtum hæfilega fínum fötum.

-Eru Subaru ekki óttalegar hjólbörur, maldaði Hreggviður í móinn.

Honum fannst hann hafa gert slæm kaup. Hann sæti uppi með óáhugaverðan bíl og án einkabílstjóra. Hann var ekki ánægður með að bíllinn stóðst ekki samanburð við hliðstæða embættisbíla.

Svo hann svaraði fyrir sig.

-Rétt er að þú vitir að bið gæti orðið á aukafjárveitingu vegna þessa máls.

Eins og til að sýna að þetta bílamál væri honum ekki hjartfólgið, og til að ekki yrði farið nánar út í fjármögnun verkefnisins, sneri hann sér rakleitt að öðru:

-Er innréttingavinnan í Austurstræti 10 ekki á áætlun?

-Því miður, svaraði Eggert. Hann tók eftir því að umræðuefnið hafði breyst og að aukafjárveiting hafði verið dregin til baka, en stillti sig samt um að sýna nokkur óánægjumerki, ákvað að láta þetta yfir sig ganga í bili.

Þá var aftur bankað. Starfsmaður þingmálasviðs spurði hvað ætti að vera á dagskránni eftir hádegið. Skrifstofustjórinn var pirraður, þessi undirmaður hans hefði átt að virða að þeir forsetinn funduðu.

-Bíddu með þetta þangað til á eftir, sagði hann.

Þegar starfsmaðurinn var farinn hallaði hann sér fram á borðið og sagði lágt og með hægð, rétt eins og í trúnaði:

-Við höfum átt í erfiðleikum með að útvega iðnaðarmenn og óvissa er uppi um nýtingu kjallarans. Til stóð að þar yrði líkamsræktarstöð fyrir ykkur og aðra gesti sem hefðu efni á að sækja lúxusstöð, en það hefur strandað vegna loftræsingamála. Ég reikna með að fundarherbergin verði tilbúin í febrúar, en skrifstofurnar kannski fyrir páska.

Hreggvið setti hljóðan.

Svo sagði hann:

-Við skulum hittast í koníakstofunni síðdegis á föstudaginn og halda upp á bílakaupin.

-Já, þá verða stólarnir líka komnir. Þeir koma með flugi á morgun. Ég lét arkitekt velja áklæðið, sem er ljóst leður sem sker sig vel frá steináferð veggjanna, svaraði Eggert.

Hann hugsaði með sér að stólarnir og bíllinn væru það síðasta sem hann gerði fyrir þennan þingforseta án þess að hafa fjárveitingu í hendi á móti. Hann yrði ekki kúgaður meira.

*

Það var ekki fyrr en forseti Alþingis gekk yfir Templarasundið á leið til skrifstofu sinnar að það rann upp fyrir honum að í raun og veru hafði hann sigrað. Hann hafði að minnsta kosti, eftir allt saman, bægt hættunni frá. Hann hraðaði sér heldur upp tréstigann, tók tvö skref í einu frekar en að tifa hratt upp þrepin og vatt sér ánægður inn á skrifstofuna á annarri hæðinni.

Hann gekk út að glugganum. Það var enn og aftur farið að mugga. Hann losaði bindið og hlammaði sér niður í skrifborðsstólinn.

Þingforsetinn kveikti á tölvunni, en fann strax að hann hafði ekki eirð í sér til að vinna, enda þótt þörf væri á því. Þess í stað hringdi hann í þingverðina og bað um að sóttir yrðu fyrir hann vindlar upp í Bristol.

Svo gekk hann hægt og eins og af kæk fram að herbergisdyrunum og opnaði þær. Það var enginn fyrir framan.

Hvernig hafði honum dottið í hug að afsögn yrði hlutskipti hans? Af hverju var hann svona órólegur út af einni tösku, hann hafði allt í hendi sér og hafði haft allan tímann. Skrifstofustjórinn var ekki eins frekur og hann hafði haldið, hafði í rauninni reynst honum vel. Nú var Jósafat farinn, hafði komist upp með glæp sinn og gat ekki sagt frá honum án þess að taka áhættu á að vera ákærður. Lögreglan vissi ekkert. Honum fannst samt verra að vita ekki hvað var í töskunni.

Í raun og veru hvíldi þó allt málið á því að hann spurði ekki út í innihald töskunnar. Öll tilvist töskunnar yrði alltaf leyndarmál. Það var lykillinn að björgun lýðræðisins. Björgun lýðræðisins, í bili. Lýðræðið var brothætt fjöregg.

Nú hló hann upphátt.

Þegar hann var búinn að kveikja sér í og breiða teppið yfir fæturna í sófanum, tók hann allt í einu eftir því að magaverkurinn var horfinn og þegar hann leit í kringum sig sá hann að skrifstofan hans, með sitt gamla veggfóður, slitna gólfteppi og skítuga svefnsófa – og nýja verðlaunalampann – var alls ekki eins óvistleg og honum hafði áður fundist.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation