Teskeiðar

Konan segir að sá sem hefur áhyggjur af tveimur teskeiðum sé ekki normal. Undir þessu má ég sitja. Nú er það ekki svo að ég hafi áhyggjur af teskeiðunum sem slíkum, heldur af manninum sem kennt var um að hafa tekið þær. Ef og þegar honum var kennt um það. Ég hef ekki síður áhyggjur af fjölskyldu hans. Þau búa, eða bjuggu á árinu 2016, í Hue [Hu] í Víetnam. Hue er í norður-mið Víetnam, aðeins steinsnar fyrir norðan Da Nang, þar sem bandaríkjamenn voru á sínum tíma með herflugvöll. Da Nang var daglega í fréttum Ríkisútvarpsins þegar ég var ungur, því þaðan vörðust Bandaríkjamennirnir árásum norðanmanna og stöðvuðu lengi framrás þeirra suður eftir.

Góa hófst í dag og sólin er komin upp, skín í augun á mér, en er enn þá lágt á lofti. Við erum í sumarbústað austur í Þingvallasveit og ég vaknaði snemma til að skrifa, meðan aðrir sofa fram eftir. Sólin hangir yfir Miðfellinu, skín á framhlið bústaðarins og ég verð að draga fyrir gluggann til að sjá á skjáinn. Mig langar í kaffi, en set það venjulega ekki upp fyrr en konan kemur fram. Allt er hljótt, mófuglarnir og þrestirnir eru ókomnir, þeir eru ekki staðfuglar svona langt inni í landi. En á vorin syngja þrestirnir í trjánum okkar og spóinn og stelkurinn hefja söng jafnvel áður en ég vakna. Þá vil ég hvergi vera nema hér.

Teskeiðarnar eru í skúffunni. Ég sá þær í morgun, en ég borða aldrei með þeim, ég tók eina af skeiðum konunnar frá fyrra hjónabandi hennar til að borða grape-ið sem við höfum í morgunmat með, það er kannski eini lúxusinn sem við veitum okkur – svona að öllu athuguðu.

Við tókum skeiðarnar ófrjálsri hendi á hóteli í Hue fyrir níu árum og ætluðum að nota þær til að borða jógúrt og annan spónamat með það sem eftir lifði ferðalagsins með Expedia. Þær voru í handfarangri þegar við gerðum upp í anddyrinu. Það kom ekki strax að okkur, en þegar afgreiðslukonan sneri sér að eiginkonu minni spurði hún á sæmilegri ensku:

-Það virðist vanta tvær teskeiðar í herbergið ykkar. Eruð þið með þær?

Okkur brá. Var landið virkilega svo fátækt að hótelstarfsmenn stukku til þegar gestir yfirgáfu herbergin og grandskoðuðu hvort nokkuð hefði horfið?

-Nei, við höfum ekki séð þær, sagði konan.

Hún hefur orð fyrir okkur á ferðalögum.

-Við bætum þeim þá ekki á reikninginn ykkar.

Greinilegt var að afgreiðslukonunni hafði verið uppálagt að trúa ferðafólki frá Vesturlöndum, og alls ekki að munnhöggvast við það. Reyndar myndi enginn Víetnami nokkru sinni munnhöggvast við ferðafólk, kannski gera þeir það aldrei.

Það er þetta sem situr í mér. Að við skyldum ekki hafa keypt teskeiðarnar, þá væri allt í lagi. Lítill vafi er á því að hótelið ætlaði sér að endurheimta andvirði þeirra. Því fór sem fór – eða hefði alla vega getað farið – ef maður hugsar rökrétt.

Nú var komið að áhyggjunum. Áhyggjum mínum. Auðvitað set ég mig aldrei úr færi við góðar áhyggjur. Ekki núna frekar en endranær. Ég sá hann fyrir mér, tæplega miðaldra manninn, en farinn að lita á sér hárið, eins og þeir gera austur þar. Hann hafði eftirlit með hótelherbergjunum og brá skjótt við þegar gestir fóru og taldi innanstokksmuni. Núna neri hann á sér hendurnar og sat tæpt á stólnum.

-Hvað veistu um horfnu teskeiðarnar, spurði hótelstjórinn strangur.

-Ég veit ekkert um þær, sagði okkar maður, sennilega hafa Vesturlandabúarnir tekið þær traustataki.

Hótelstjórinn hélt áhram að horfa á hann og lét þögnina gefa orðum sínum vigt.

-Þú veist hvaða refsing liggur við hvinnsku, sagði hann.

-Já.

Okkar maður var orðinn niðurlútur.

En þótt ég sæi þetta greinilega fyrir mér, rétt eins og hreinar sýnir blasa við í svefnrofanum hjá næmu fólki, þá vissi ég ekki hvernig framhaldið yrði – eða réttara sagt, hvernig það var. Tvennt kom til greina, annars vegar að okkar maður yrði að greiða fyrir teskeiðarnar af litlum efnum sínum, eða hann yrði rekinn með skömm og Flokkurinn sæi um að hann fengi aldrei aftur vinnu.

Ég óttaðist hið síðarnefnda og að börnin fjögur og eiginkonan yrðu matarlaus og fjölskyldan stimpluð alla ævi. Mig grunaði að Flokkurinn væri hefnigjarn. Það kom líka fyrir íslenska stjórnmálaflokka og þá fékk sökudólgurinn ekki vinnu sem passaði hæfni hans.

Mér rann til rifja að við hefðum raunverulega skilið svona við í Víetnam. Það hafði svo sannarlega ekki verið meiningin að níðast á fátæku alþýðufólkinu.

Ég fór að eldhússkúffunni og tók upp aðra teskeiðina. Það var skorinn í hana v-laga skurður. Hún var grönn og efnislítil, enda Víetnam kannski ekki auðugt af teskeiðaefni. En ég gat ekkert gert í stöðunni. Og ég ætti ekki leið um hótelið í Hue á næstunni til að skila þeim og endurreisa mannorð dökkhærða mannsins.

Sólin hafði hækkað á lofti. Í stillunni glampaði á spegilslétt Þingvallavatnið. Náttúran var að vakna. Það styttist í að maður heyrði nánast vökvann smáskríða upp tréin frá rótum þeirra. Ég hlakkaði til sumarsins. Klukkan var orðin níu og bráðum kæmi konan fram og hún myndi enn einu sinni hlægja að áhyggjum mínum. Þá liði mér strax betur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation