Það eru ekki skerðingarnar! (12.01.2023)

Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.

—–

Ástæða er til að endurhugsa kjarabaráttu eldri borgara. Hér er minnst á félags- og sjúkratryggingar og eðlisþætti ellilífeyriskerfisins.

Réttinda- og kjarabarátta eldri borgara hefur legið niðri í nokkur misseri meðan beðið var úrslita í málaferlum Gráa hersins gegn ríkinu. Nú er aftur tímabært að taka upp þráðinn og ræða á hvað leggja beri áherslu.

Félags- og sjúkratryggingar

Uppbygging félagslegra trygginga fyrir eldri borgara, svipað og er hjá verkalýðsfélögunum, er efst á blaði; það er raunar vítavert að verkalýðshreyfingin hafi byggt upp ameríska kerfið að ákveðnu leyti, sem sé að fullar félagslegar tryggingar séu bundnar við vinnandi fólk. Þeir sem hætta að vinna detta út úr kerfinu, með aðeins mismunandi hætti þó. Þeir mega búa við strípuð kerfi ríkis og sveitarfélaga.

Opinberir aðilar hafa sparað stórfé með því að félagssjóðir verkalýðsfélaganna hafa að nokkru leyti tekið við af félags- og sjúkratryggingum þeirra, eða það sem réttara er, þróað kerfið áfram meðan opinbera kerfið hefur staðnað. Sparnað opinberra aðila af þessu er hægt að reikna út og miðað við meðalgreiðslur til félagssjóða verkalýðsfélaganna frá hverjum og einum sparar ríkið sér gagnvart eldri borgurum 21,3 milljarða.

Við erum því aftur komin á þann stað að þurfa að berjast fyrir félags- og sjúkratryggingum. Ef eldri borgarar notfæra sér félags- og sjúkraþjónustu í sama mæli og launþegar eru útgjöld þeirra yfir 21 milljarði hærri en fólks á almennum vinnumarkaði. Ætti þó að vera óumdeilt að eldri borgarar þurfi bæði meira á stuðningi af þessu tagi að halda en aðrir og að þeir notfæra sér félags- og sjúkraþjónustu meira en aðrir.

Allar réttmætar kröfur styðja öflugar tryggingar þeirra. Fullljóst er að 76. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæðin í alþjóðasamningnum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi hindra að lakara tryggingakerfi sé fyrir eldri borgara en aðra. Þessu verður að breyta.

Meginkrafa eldri borgara hlýtur því að vera bætt opinber tryggingavernd, enda þótt margt fleira mætti nefna.

Eðlisþættir ellilífeyriskerfisins

Þá skal það nefnt einu sinni enn að alger kerfisbreyting hefur átt sér stað hjá ríkinu varðandi ellilífeyri frá 1969 þegar lífeyrissjóðakerfið var tekið upp, það var endanlega gert 2016 þegar núgildandi almannatryggingalög voru sett. Í stað þess að greiða sömu upphæð til allra (almennan ellilífeyri) smábreyttist kerfið þannig að eldri borgurum er nú algerlega mismunað eftir tekjum (kerfi félagslegs stuðnings); hæstu bætur hafa hækkað mikið (eru nú 385 þús./mán.) og aðrir búa við minni, litlar eða engar bætur. Virðast þessi kerfisskipti hafa ruglað Gráa herinn í ríminu og sumir jafnvel haldið að núverandi hámarksbætur hefðu orðið hlutskipti eldri borgara 1969 og ættu því að verða það núna. Það er misskilningur, þá var einfaldlega allt annað kerfi.

Kerfi félagslegs stuðnings er í sjálfu sér í takt við lagalegar skyldur ríkisins, en í sumum nágrannaríkjunum, t.d. Svíþjóð, eru almannatryggingarnar tvískiptar og báðar leiðirnar farnar; þá eru bæði rekin kerfi almenns ellilífeyris og kerfi félagslegs stuðnings.

Í kerfi félagslegs stuðnings eru skerðingar óhjákvæmilegar, öðruvísi er ekki hægt að haga stuðningnum, og kjánalegt að berjast gegn þeim sem slíkum, en deila má um við hvaða tekjumörk þær eigi að fara að bíta (frítekjumarkið fyrir lífeyrissjóðstekjur er nú 25 þús./mán. en þyrfti að hækka mjög verulega) og hvað þær eigi að vera miklar (skerðingarhlutfallið er 45% en þyrfti að lækka umtalsvert).

Einnig er full ástæða til að berjast fyrir því að almennur ellilífeyrir til allra verði aftur tekinn upp hjá ríkinu til viðbótar við félagslega stuðninginn.

Rænir ríkið lífeyrissjóðsgreiðslum?

Þá má nefna að greiðslur ríkisins til hvers og eins eldri borgara hafa að meðaltali hækkað töluvert frá 1969, þannig að strangt til tekið hefur ríkið ekki notað lífeyrissjóðakerfið til að lækka útgjöld sín. Meðalgreiðslur ríkisins til hvers og eins 67 ára og eldri voru 157 þús./mán. á árinu 2022, en hefðu verið 117 þús./mán. ef bæturnar á árinu 1969 eru framreiknaðar miðað við meðallaun ófaglærðra (Hagstofan og Fjárlög 2022). Ef framreikningurinn miðar við neysluvísitölu væri upphæðin um 50 þús./mán. Ellilífeyrir ríkisins, eins og hann er í dag, hefur því hækkað töluvert umfram launavísitölu og langtum meira en neysluvísitala, en kröfur þjóðfélagsins hafa gert það líka.

Meginástæðan fyrir uppbyggingu lífeyrissjóðakerfisins 1969 var að bætur ríkisins voru hraksmánarlega lágar, sjá t.d. greinargerð Ásmundar Stefánssonar: „Markmið og hlutverk lífeyrissjóða, staða lífeyrismála“ frá 1994, sem er á netinu. Hins vegar hafa eðlisþættir ellilífeyriskerfisins breyst eins og hér hefur verið rakið – og hefur ríkið þannig notfært sér lífeyrissjóðakerfið til að hækka hinar lágu greiðslur sínar til þeirra sem þurfa þær mest, en skilið hinn almenna skjólstæðing lífeyrissjóðakerfisins eftir með enn minna ríkisframlag en áður. Þó er staðan ekki verri en svo að þeir sem búa einir og fá minna en 496 þús./mán. frá lífeyrissjóðunum fá meira frá ríkinu en sem samsvarar upphæðinni frá 1969 og sambýlisfólk sem hefur minna en 448 þús./mán., hvort um sig, fær líka meira en annars væri. Sýnir þetta vel fyrir hvaða tekjuhópa Grái herinn barðist.

Vegir réttlætisins eru torfarnir – hér virðist enn og aftur einfaldlega of naumt skammtað.