Texti greinar sem birtist í Kjarnanum.
—–
Megin munur rafrænna kosninga og pappírskosninga er að í fyrrnefnda kerfinu er hægt að framkvæma miðlæg svik, á heildsölustigi eins og það er kallað, en í síðarnefnda kerfinu er hættan mest á smásölustiginu, á kjörstöðunum og í meðferð kjörgagna. Vegna þessa einkennis vekja rafrænar kosningar gjarnan upp tortryggni, enda þótt svikamöguleikarnir séu kannski litlir og vel hugað að öryggismálum. En jafnvel litlir möguleikar eru óásættanlegir því ef þeir eru til staðar yfirleitt eru þeir stórskaðlegir. Ekki er ósennilegt að tortryggni gagnvart rafrænum kosningum og netkosningum muni aukast á komandi árum, enda sjálft lýðræðið undir.
Eftir kosningahneykslið í Florida 2000 hófst tölvuvæðing bandarískra kosningakerfa. Um 2004 höfðu um 35 ríki keypt búnað frá Diebold fyrirtækinu. Kostnaður hvers þeirra hljóp á milljörðum ísl. króna og upp í tugi milljarða. Þessi þróun hefur haldið áfram og nú kjósa flestir kjósendur vestanhafs í kosningavélum. Búnaðurinn keyrir á kjörstöðum og byggir á snertiskjáum. Í flestum tilfellum er um tvöfalt kerfi að ræða þar sem annars vegar er rafræn talning og hins vegar talning á pappír, en þá prenta vélarnar út atkvæðaseðil sem kjósandinn getur yfirfarið áður en honum er komið fyrir í kjörkassa – rétt eins og við þekkjum. Með handtalningu eftir á er talið að líkurnar á kosningasvikum í stafræna kerfinu séu litlar. Um 80% bandarískra kjósenda búa við tvöfalt kerfi nú.
Úttekt á kerfi Diebold Election Systems
Kerfi Diebold var tekið út af tölvunarfræðideild John Hopkins háskólans og niðurstöðurnar birtar meðal annars í bókinni : Brave new ballout – the battle to safeguard democracy in the age of electronic voting sem út kom á árinu 2006. Hún er eftir tölvunarfræðinginn Aviel D. Rubin sem leiddi rannsóknina. Sjá bókardóm um hana á slóðinni: http://www.irpa.is/article/view/907. Í rannsókninni komu fram margir ágallar og meðal annars að rafrænar kosningar verða aldrei tryggðar, hvorki gagnvart ytri hættu eða innri hættu, sem er meðal annars hættan af svikum tæknimanna. Þannig kom í ljós að enda þótt keyrslukóði kerfisins væri innsiglaður gátu tölvumenn breytt honum. Það segir sig sjálft að framleiðandinn fór í mál við höfunda rannsóknarinnar enda um gríðarlega hagsmuni hugbúnaðariðnaðarins að ræða. Aviel D. Rubin eyddi tíma og fjármunum í réttarsölum og hefur ekki unnið við meiriháttar úttektir á kosningavélum síðan, sem eru þó hans sérsvið innan tölvunarfræðinnar.
Rafrænar kosningar eða netkosningar
Áður en lengra er haldið skulum við muna að rafrænar kosningar hafa verið skilgreindar sem kosningar með tölvubúnaði á kjörstað, en netkosningar sem kosningar utan kjörstaða, framkvæmdar á netinu. Rafrænar kosningar þurfa ekki að tengjast netinu, en ef niðurstöður eru teknar saman miðlægt þurfa þær að berast með fjarskiptakerfi og í BNA var talað um leigðar línur fyrir þau samskipti. Netkosningar hafa alla veikleika rafrænna kosninga og töluvert marga fleiri, til dæmis að leynileika er ógnað og ekki er hægt að mynda pappírsslóð til þess að sannreyna talningu tölvukerfanna.
Aðrar úttektir
Þá skulum við muna að úttekt á öryggi kosningakerfis Eistlands sem fram fór á árinu 2014 undir stjórn J. Alex Halderman, forstjóra tölvuöryggissamfélagsins við háskólann í Michigan og hins heimsfræga fyrrverandi hakkara, finnans Harri Hursti, leiddi í ljós mikla og marga svikamöguleika. Svo mikla að tiltölulega auðvelt er að hagræða miðlægt niðurstöðum netkosninganna í Eistlandi fyrir þá sem hafa þekkingu á þessum málum. Og það hafa bæði leyniþjónustur stærri ríkja, meðal annarra Rússlands og svo margir hakkarar. Eistland er eina ríkið sem hefur heildstætt kerfi fyrir netkosningar. Munum að fyrrverandi ríki Sovétríkjanna hafa litla tiltrú á pappírskosningum eftir langvarandi misnotkun þeirra í því ríki og eistar fóru svo sannarlega úr öskunni í eldinn.
Sama ár riftu norsk stjórnvöld samningum sínum við spænskt fyrirtæki sem annaðist netkosningar fyrir þau og hafði það verið rekið til hliðar við hefðbundið kerfi. Sú tilraun hafði staðið yfir frá 2011 og tilgangur hennar var að auka þátttöku ungs fólks í kosningum. Forsendur norskra stjórnvalda voru engu að síður þær að kjörsókn jókst ekki nema síður væri, en tortryggni í garð kosninganna jókst hins vegar stöðugt.
Hvar eru svikamöguleikarnir?
Fimmtán ríki í BNA reka kosningakerfi án pappírsslóðar. Sérfræðingar í tölvutækni hafa dregið í efa öryggi talningarinnar í þeim ríkjum í nýafstöðnum forsetakosningum og bent á að Clinton hafi komið verst út þar sem þau eru notuð. Þeir telja að hagræðing niðurstaðna geti numið 7%. Úrslit í Wisconsin, Michigan og Pennsylvania réðu niðurstöðum kosninganna og beinist athyglin því að þeim. Meðal sérfræðinganna eru áðurnefndur J. Alex Halderman og kosningaréttarlögmaðurinn John Bonifaz. Þeir hafa lagt til að kosningarnar verði kærðar og krafist endurtalningar og rannsóknar á framkvæmd þeirra.
Kæra er komin fram
Slík kæra var lögð fram í dag af frambjóðanda græningja, Jill Stein, sem setti af stað söfnun til stuðnings henni í gærkvöldi og hefur þegar safnað þeim $2,5 milljónum sem hún stefndi að. Af endurtalningu í ríkjunum þremur gæti því orðið.
Hverjir geta svikið?
Sérfræðingarnir telja að þótt þeir hafi ekki sannanir fyrir innbrotum sé ástæða til þess að rannsaka málið til hlítar. Fram hafa komið ábendingar um að rússar, sem studdu framboð Trumps leynt og ljóst, hafi mögulega brotist inn í kerfin, en ríkisstjórn Obama hafði áður sakað þá um að hafa sviksamleg áhrif á kjörskrár. Sé miðað við þær upplýsingar sem fram komu í rannsókn John Hopkins háskólans þá var ytra öryggi kosningvélanna all mikið í upphafi, það var meðal annars ekki á netinu, þannig að möguleikar rússa hafa legið í samstarfi við moldvörpur vestan hafs eins og í kalda stríðinu og þá má hugsa sér bæði innbrot inn á leigðar línur símafélaga og inn í miðlæg kerfi auk samstarfs við tæknimenn og stjórnendur. Sérfræðingar vestanhafs telja þó að möguleikar rússa á að hagræða niðurstöðum séu litlir.
Tortryggni gagnvart Diebold hefur alltaf verið til staðar. Fyrirtækið hefur stutt kosningasjóði republikana ríkulega og var talið hafa komið viðskiptum sínum við sum ríkin á í skjóli tengsla við þann flokk. Innan þeirra marka sem skoðanakannanir og aðrar rannsóknir í ríkjum afmarka, meðal annars útgönguspár, geta framleiðendur kosningavéla strangt tekið unnið kosningar þar sem ekki er pappírsslóð og pappírstalningar.
Lokaorð
Afar ósennilegt er að endurtalning og rannsókn á kosningamisferli í rafræna kerfinu breyti niðurstöðum. Líklegast er að tortryggnin í garð þess aukist og lögð verði áhersla á pappírsslóð og talningu kjörseðla eftir á. Enda má rökstyðja að upplýsingatæknin ein og sér ráði ekki við verkefnið leynilegar kosningar.