Við hjónin höfðum sótt jarðarför frænda konunnar og erfið á eftir. Þar sem ég stóð fyrir utan dyr veitingastaðarins þar sem það var haldið var hlaðinn steinveggur gegnt mér. Leiðin frá húsinu var til hægri, farið eftir stéttinni meðfram því og vel heppnuð hleðslan var á vinstri hönd. Það glampaði af sól þótt rigndi og ég vissi að það sæist regnbogi einhvers staðar í nágrenninu.
Mér brá þegar ókunnug kona hnippti í mig. Við vorum að ganga út af staðnum og rétt komin út fyrir, í rigninguna, en ennþá undir skyggninu. Hún kom upp að mér. Ég hafði ekki séð hana inni, hún hefði skorið sig úr, þar voru að mér sýndist allir dökkklæddir, en hún var á hvítri dragt. Sem snöggvast fannst mér ekki við hæfi að hún væri í ljósu við erfi.
-Ég er að hugsa um stjórnsýslu í íþróttafélaginu, sagði hún formálalaust.
-Einmitt, sagði ég.
Í Kennaraháskólanum svaraði einn félagi minn flestu með „einmitt“ og ég vandist líka á það. Þá þurfti maður ekki endilega að vita hvað viðmælandinn var að tala um, en það leit út fyrir að maður væri með á nótunum. Einmitt er oftast gilt svar og frekar samþykkjandi en neitandi. Ég tók nú eftir því hvað konan var myndarleg. Og svolítið mikið af henni, hvort tveggja eins og konurnar í minni föðurætt. Hún var kunnugleg, en ég kom henni ekki strax fyrir mig.
Ég veit ekki til þess að nokkur hafi áhuga á stjórnsýslu. Íslendingar hafa áhuga á völdum og að koma sér áfram með kunningsskap, en þeir hafa ekki áhuga á reglum. Og þeir geta ekki tekið reglur fram fyrir spilltar ákvarðanir pólitískra samherja. Pólitískir samherjar mega brjóta hvaða reglur sem er, en aðrir ekki. Gagnrýni sem beinist að mótherjum verður þannig marklaus.
Ég var hikandi varðandi þessa konu, hún hafði leitað til mín með því að snerta mig – ég þoli ekki snertingar og hef aldrei gert, þótt ég sé umburðarlyndari varðandi það núna en þegar ég var ungur. Snertingin var sérkennileg, nánast óraunveruleg.
-Er það framkvæmdarstjórinn, stjórnin eða þjálfarinn, þreifaði ég fyrir mér.
Þá leit viðmælandi minn aftur á mig og nú sá ég að henni var alvara. Dökkgræn augun voru skýr og horfðu beint á mig. Þau voru gagnsæ og yfirnáttúruleg, eins og hún væri búin til með gervigreind. Allt í einu mundi ég eftir afasystur minni sem var gestkomandi hjá okkur þegar ég var fimm ára. Ég svaf á dívani fyrir innan hana. Tæpast var hún aftur orðin ung og komin hingað, en þessa konu tengdi ég við hana.
Ég vissi ekki alveg hvar við vorum landfræðilega, kannski í Grafarvoginum. Í einhverju golfhúsi, en það var nýtt og fallegt og aðkoman vel skipulögð þó enn ætti eftir að malbika planið. Blikastaðaland, hafði konan mín sagt, var það ekki?
-Það er þjálfarinn, sagði hún með þjósti. -Frændi þinn, bætti hún við.
Það er nefnilega það. Ég átti bara einn frænda sem hafði lagst í íþróttir. Mínir nánustu voru ekki mikið fyrir erfiðar hreyfingar. En auðvitað telja margir að það að leggja sig á daginn sé landeyðuháttur – í stað þess að ganga upp að „steini“, eða að hlaupa upp að steini eins og óður maður – eins og það sé merki um heilbrigði. Ég fyrir mína parta hafði samt ekki haft vottorð í leikfimi, en tekið því með þegjandi þögninni að vera ávallt valinn síðastur í alla leiki.
Ég þekkti frænda minn ekki mikið, en vissi að hann var skapmikill. Hann hafði verið fyrir norðan í fyrra, farið aftur til heimkynnanna, en komið skyndilega til baka og tekið við kvennahandboltanum í félaginu sínu hér fyrir sunnan. Ég hef ekki marga tengiliði fyrir norðan nú orðið og hef engan áhuga á að vita af hverju hann ílentist ekki, eitt af því fáa sem lífið hefur kennt mér – og ég þurfti á því að halda því það braut á hefðum fjölskyldunnar – er að vera ekki forvitinn um annarra hagi.
-Þú ættir að vitja hans, sagði hún eftir hæfilega þögn.
Nokkrir gestanna ruddust nú framhjá og stór og þrekinn karl komst á milli okkar, konan steig eitt skref til baka, þannig að hún fór undan skyggninu og rigndi á hana.
-Hefur það með stjórnsýslu að gera, spurði ég.
Fyrir mér var þetta samtal óraunverulegt og eins og vill verða við þær aðstæður hvarflar hugurinn að öðru. Ég var ekki alveg góður í maganum, hafði eins og endranær borðað of mikið af súkkulaði- og rjómatertum, það svignuðu veisluborðin í þessu erfi, þótt óneitanlega vantaði flatbrauð með hangiáleggi. Ég byrja oftast á því, til að byrja á því sem er hollt, og fer svo yfir í kökur, síðan súkkulaðitertur og að lokum rjómatertur. Ekki að ég sé tíður gestur í erfidrykkjum.
Ég mundi svo sem eftir frænda mínum. Hann var jafnaldri minn og honum var strítt, enda var hann svolítið öðruvísi en aðrir. Ég gat ekki leikið við hann nema þegar enginn sá til, annars var ég ekki látinn í friði. En þegar við vorum saman fór vel á með okkur. Það voru samt ekki ortar um hann níðvísur fyrr en hann var unglingur, en hann var að ég best veit aldrei barinn. Þar sem við ólumst upp voru menn meira í goggunarröð, uppnefnum, níðsögum og ferskeytlum.
Konan steig aftur inn úr rigningunni, það var ekki að sjá að hún hefði blotnað. Hún hallaði sér upp að mér og sagði.
-Þú mætir óréttlætinu.
Mæti óréttlætinu, ég er nú ekki viss um það. Ég hef engan áhuga á stimplunum eða að vera vöndur mannfélagsins. Það er óþarfi að kalla mín verk nöfnum.
Þegar ég sneri mér aftur að henni var hún horfin. Ég skimaði í kringum mig, en sá hana ekki. Kannski var hún farin út á bílaplan, það sást ekki héðan. Ég hafði svo sem lent í nokkrum svona samtölum, þar sem ókunnugt fólk þurfti að takast á við stjórnsýslu einhvers staðar. Og ég hafði yfirleitt ekki getað orðið að liði. Ákvarðanir standa og venjulegt fólk fer ekki í mál þótt það mæti ranglæti. Það sendir ekki heldur inn kærur, kann það ekki og formlegu leiðirnar við að kæra eru oftast of flóknar. Enda ber slíkt sjaldnast árangur, kerfið réttlætir sig sjálft. Mér brá eiginlega ekki þótt hún hyrfi, hún átti ekki heima þarna. Ég sé stundum eitthvað eða heyri sem aðrir gera ekki, rétt eins og móðir mín gerði. Ég geri ekki greinarmun á skynjunum.
Ég leit aftur fyrir mig. Var eiginkona mín og mágafólk ekki að koma? Ekki að ég sé óþolinmóður, ég bíð alltaf. Konan er lengi að kveðja. Við fyrstu kveðju er ekkert að gerast, ég hirði varla um að setja upp húfuna eða fara í stakkinn – það er ekki fyrr en eftir aðra kveðju sem hlutirnir komast á hreyfingu og hún ber upp erindið. Og þá hefjast samræður um nýja umræðuefnið og þær geta staðið lengi. Þá er ég stundum við útidyrnar eða úti á tröppum og drep tímann. Læt hugann reika. Hún skilar sér.
Það var svo ekki fyrr en tveimur vikum síðar sem systir frænda míns hringdi í mig þegar ég var í bílnum. Þótt handfrjálst kerfi sé í honum þykir mér óþægilegt að tala í síma við akstur. Ég var á Freyjugötunni og aksturinn þurfti alla mína athygli. Ferðinni var heitið á Skólavörðustíg, í bókabúðina. Reyndar finnst mér erfitt að tala í síma yfirleitt. Mér líkar ekki heldur að heyra í ættingjum mínum, það boðar sjaldnast gott. Hún sagði mér að bróðir hennar væri allur, hefði séð um það sjálfur.
-Kom eitthvað upp á, spurði ég.
-Öðru nær, það er nú málið, svaraði hún.
Eftir svolítið hik sagði hún.
-Það kom til íþróttafélagsins gamall vinur að norðan og bróðir minn lét eins og honum þætti það verra af því að með honum komu gömul viðurnefni og vísur. Auðvitað var hann alltaf viðkvæmur fyrir því, þú manst það, er það ekki? Hann varð reiður og lét eins og hálfviti. Ég sagði honum að þetta væri allt í gamni gert, þetta er meira að segja gert í vináttuskyni og sýnir að fólki þykir vænt um mann. Þetta eru gælur, en ekki níð nema á yfirborðinu. Heldurðu virkilega að þetta tengist eitthvað, ég held varla.
-Einmitt, sagði ég. -Þakka þér fyrir að hringja.
Nú var ég kominn niður á Óðinsgötu og ók í norður. Ég var strax farinn að hafa áhyggjur af bílastæðaleysinu og líklegum sektargreiðslum. Hér var ekkert stæði laust. Ég hefði átt að leggja í úthverfi og koma á reiðhjóli í miðbæinn.
Hún hætti ekki.
-Ég hef svo gaman af þessu. Hugsaðu þér, á Húsavík eru flestir uppnefndir, eða voru það að minnsta kosti. Það skreytir samfélagið svo fallega. Húsvíkingar ganga ekki undir eigin nafni allt lífið og geta ekki ráðið því hvað þeir heita. Kannski Leibbi leppur, Danni dropi – þú manst að hann var fyllibytta þegar hann var ungur. Eða bara Glamri. Fölsku tennurnar hans voru lausar. Mannstu eftir Gunnu gras, hún var staðin að því að sofa hjá í kirkjugarðinum og fékk grasgrænu í brókina.
Nú hló frænka mín innilega. Eftir svolitla stund og þögn frá minni hálfu varð hún alvarleg og sagði:
-Sumir brottfluttir, aðallega hér fyrir sunnan, eru að reyna að eyðileggja þennan skemmtilega móral. Fólk er alltaf að verða húmorslausara og húmorslausara.
Ég spurði hana ekki hvort frændi hefði verið húmorslaus. Það var óviðeigandi.
Nú beygði ég til vinstri inn á Skólavörðustíg. Þar var örtröð af bílum og ég þurfti að bíða meðan aðrir óku framhjá. En ekkert laust stæði. Ég ákvað að fara ekki bak við bókabúðina – mér hættir við að tala um hús sparisjóðsins – því bílastæðin þar voru ávallt setin. Líka sérmerktu stæðin. Ég myndi reyna að fá pláss í bílastæðahúsinu við Bergstaðastræti. Og vonaði að gjaldstandurinn væri í lagi og ekki þyrfti að greiða með appi. Ég er ekki app-maður.
Svo sagði hún.
-Veistu til þess að bróðir minn hafi lent í ástarsorg eða annarri sorg? Heldurðu ekki að konan hans hafi verið góð við hann? Hann var eftirsóttur þjálfari.
-Nei, hef ekki heyrt af því.
-Þetta er bara alls ekki í ættinni, bætti hún við.
Svo sneri ég taflinu við og spurði hana.
-Hefurðu þú nokkurn tíma heyrt að fólk hafi dáið úr níðvísum, uppnefnum eða upplognum sögum?
Hún skellihló.
-Svo þú ert húmoristi, frændi.
Ég fann þröngt stæði innst í bílastæðahúsinu. Ég yrði sjálfsagt hurðaður. Það kostar nokkur hundruð þúsund þegar bæði sjálfsábyrgðin og tapið á bónusnum eru talin með. Það getur verið dýrt að fara í miðbæinn. Þá er að leita að gjaldstandinum. Kannski liti ég í búðarglugga á leiðinni upp að bókabúðinni. Er ekki herrafataverslun á horninu?
Við slitum samtalinu. Hún var ennþá hlæjandi.
Ég var svolítið miður mín yfir að hafa ekki skilið tilmæli afasystur minnar, þeirrar sem ég svaf fyrir innan þegar ég var fimm ára, en hafði ekki séð síðan. Hefði það breytt atburðarrásinni að ég blandaði mér í málið, væri frændi enn á lífi? Því verður ekki svarað. En ég var ánægður með að hafa flutt suður og hætt að skemmta mér með umtali um aðra.