Facebook-færsla.
Við skilgreinum sífellt fleiri gæði landsins sem auðlindir, jafnvel landið sjálft. Og við tölum nú í alvöru um að þær eigi að taka þátt í sameiginlegum kostnaði við rekstur þjóðfélagsins. Við höfum sterk rök fyrir því af því að fámennið gerir okkur algerlega ómögulegt að nýta stærðarhagkvæmni í opinberri þjónustu (kostnaður pr. þjónustueiningu og pr. skattgreiðanda verður alltaf mikið hærri en hjá öðrum ríkjum þannig að ef við ætlum að halda uppi sambærilegri opinberri þjónustu og aðrir þurfum við þáttöku auðlindanna. Staðreynd sem of sjaldan er rædd. Auðlindirnar geta þó ekki greitt endalaust í ríkissjóð því afurðir þeirra eru á alþjóðlegum markaði).
Nú ber svo við að orðin er útbreidd sú krafa að nýting sjávarútvegsauðlindarinnar þurfi ekki að fela í sér mesta afrakstur fyrir þjóðfélagið allt – heldur eigi að verða félagsmálapakki fyrir ákveðin hóp fólks, sem vill vera á sjó á sumrin. Og fyrir tiltekin þorp. En sjávarútvegsauðlindin má ekki og á ekki að vera félagsmálapakki.
Ég tel ekki að sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan, fallvötnin/jarðhitinn/vindurinn séu félagsmálapakkar – heldur alvöru auðlindir. Þær þarf að nýta eins og aðrar auðlindir á alþjóðlegum markaði og í alþjóðlegri samkeppni – með mesta mögulega hagnaðinum fyrir samfélagið allt. Ef þær verða ósamkeppnishæfar falla þær út og kaupmáttur okkar minnkar.
Þar sem þær eru ekki félagsmálapakkar – á enginn rétt á því að nýta auðlindina, þ.e. að fá ferðamenn fyrirhafnarlaust inn á veitingastað til að kaupa sér mat, að hafa landbúnaðarkvóta, að nýta vatn til útflutnings eða til rafmagnsframleiðslu – eða að hafa fiskveiðikvóta. Engu að síður geta menn og opinberir aðilar komist sér í slíka aðstöðu – og einhverjir þurfa að sinna þeim störfum. En enginn á kröfu til þess.
Þannig skýrist að enginn á rétt á því að verða útgerðarmaður, eða trillukall. Ef fiskveiðar á grunnsævi á sumrin – þegar erlendir markaðir eru í lægð – veiðar á fiski sem er laus í sér vegna sjávarhitans á grunnsævinu, á fiski sem hefur hringorma vegna göngunnar á grunnsævið, ormarnir kosta dýra vinnslu – auk gríðarlegs fjárfestingarkostnaðar í trillum sem geta aldrei verið með jafngóð tæki og tækni um borð og alvöru fiskiskip – ef slík veiði verður algeng erum við að spilla auðlindinni og hún að gefa minna af sér en ef hún er nýtt faglega af fáeinum vel búnum togurum (n.k. frystihúsum á sjó) sem skila fiskinum jafnt á markað allt árið.
Að setja um 12% þorskkvótans á árinu í strandveiðar (svipað hlutfall og stærslu útgerðirnar hafa til umráða) er óskynsamleg aðgerð. Og þar sem ríkisstjórninni ber að gera það sem eflir best hag þjóðfélagsins alls, þá á hún að hindra aukningu strandveiða, en smádraga úr henni uns henni linnir.
—–
Þá er ótalað um byggðasjónarmið, en þau þýða einnig að auðlindin eigi að vera félagsmálapakki fyrir ákveðna staði. Ég ræði hana bara í fáeinum orðum – hún er annað málefni en nýting auðlinda – en nefni að fiskveiðar og landbúnaður sem hvort tveggja þarf stöðugt færri heldur – bjarga ekki byggð. Það mun bara halda áfram að fækka á stöðum sem byggja á þeim atvinnugreinum eins og verið hefur. Óhjákvæmilega. Ekkert kemur sér betur fyrir lítil pláss en að losna við fiskinn – aðeins þá hefst uppbygging sem gæti enst eitthvað.