Um lagasafnið á Alþingi

Facebook-færsla.

Lagasafnið á vef Alþingis átti 30 ára afmæli í fyrra og var ekki haldið upp á atburðinn – en prentaða lagasafnið sem kom því frumkvæði öllu af stað (netútgáfunni) á 30 ára afmæli í ár. Vefurinn var sem sagt opnaður 1994, þegar unnið var að gerð bókarinnar, sem kom út 1995 – í ritstjórn Ólafs Walthers Stefánssonar í dómsmálaráðuneytinu – eins og ekkert hefði í skorist.

En stóratburður hafði átt sér stað. Ókeypis aðgengi að lagasafni heils ríkis á vef var hvergi annars staðar í heiminum að finna – og flest ríki hafa hingað til selt aðgang að lagasöfnum sínum og allur gangur er á því hvað þau eru hratt uppfærð og hvort breytingalög séu felld inn í heildarlög. Birting laga, útgáfa þeirra og dreifing er nefnilega framkvæmdarvaldsverkefni en ekki verkefni löggjafans og jafnan engin tenging við löggjafann. Mér liggur við að fullyrða að einsdæmi sé að Alþingi leggi metnað sinn í að birta þjóðinni ávallt nýuppfærð lög með innfelldum breytingum – önnur þjóðþing láta sér nægja að setja lög. Á ég þá ekki síst við hin norrænu þingin.

Aðstaða almennings í lýðræðinu gerbreyttist með útgáfu lagasafnsins á netinu – og ekki síst vegna þeirrar stöku fagmennsku sem er við vinnslu þess hjá Alþingi – og hefur farið síbatnandi. Ég get eiginlega ekki hugsað mér aðstöðu almennings í ríkjum þar sem breytingalög eru ekki felld inn í heildarlög. Þá þarf sérfræðinga til að finna gildandi lög á tilteknu sviði. Sjálf leiðbeiningaskylda stjórnvalda framkvæmist allt öðru vísi hér á landi en í öðrum ríkjum vegna aðgengisins að lagasafninu.

Söguna af lagasafninu á vef Alþingis þarf að segja. En bakgrunnsmyndin er að á árinu 1929 setti Alþingi fyrst lög um prentaða útgáfu lagasafns – en þá var talið að almenningi væri gert erfitt fyrir að finna gildandi lög – og kom fyrsta lagasafnið út 1931. Síðan kom það oftast út á um 10 ára fresti, fresturinn varð lengstur milli útgáfanna 1954 og 1973. Síðasta prentaða lagasafnið kom út 2007, eftir það er safnið einvörðungu gefið út á vef. Jónas frá Hriflu er talinn helsti upphafsmaður að útgáfu prentaðs lagasafns. Núgildandi lög um lagasafn eru frá 2012.

Ég er með þröngt sjónarhorn á sögu lagasafns á vef Alþingis – var yfirmaður tölvu- og upplýsingamála á skrifstofu Alþingis þegar þetta gerðist – og hafði frumkvæði að útgáfu þess á vef Alþingis og sagði fyrir um tæknilegar lausnir. En það sem fram fór bak við luktar dyr dómsmálaráðuneytisins og í hinum alkunnu reykherbergjum Alþingis – er mér að flestu leyti hulið.

En bak við okkur í tölvudeildinni, mig og Þorvald Gunnlaugsson tölvunarfræðing – sem opnuðum safnið út á vefinn 1994 – stóðu Friðrik Ólafsson og Sigurður Líndal, auk Helga Bernódussonar. Án þeirra stuðnings í bakherbergjunum hefðum við verið gerðir afturreka með útgáfuna.

Komum aftur að prentun lagasafnsins 1995 sem var upphafið að öllu þessu. Á nokkrum misserum þar áður höfðu orðið miklar tæknibreytingar við útgáfu Alþingistíðinda, sem þá þegar voru fullunnin til prentunar fyrir Gutenberg-prentsmiðjuna. Því var afráðið að tæknileg vinnsla lagasafns – til undirbúnings að prentútgáfunni 1995 – skyldi fara fram hjá útgáfudeild skrifstofu Alþingis og fluttist þannig vinnslan frá SKÝRR til Alþingis. Ekki gladdi það alla.

En þegar til Alþingis var komið skellti tölvudeildin klassískum útgáfulausnum á lagasafnið, sem allt var flutt úr WordPerfect í áðurnefnda tækni. Jafnóðum og það var tilbúið kom það út á vef Alþingis – án vitneskju dómsmálaráðuneytisins, en á þessum árum var Stjórnarráðið ekki tölvuvætt (það var langt á eftir öðrum). Í fyllingu tímans var bókin svo send til Gutenberg í PostScript formi.

Í þessu öllu fólst ósigur nýfrjálshyggjunnar sem var í algleymingi, en dómsmálaráðuneytið hafði samið við einkafyrirtæki um að selja aðgang að lagasafninu á netinu. Á þessum árum börðust hugsjónamenn um allan heim fyrir opnum aðgangi að opinberum upplýsingum á netinu – gegn nýfrjálshyggjunni, sem vildi selja aðgang að stafrænu opinberu efni – sem við sögðum að almenningur væri þegar búinn að borga fyrir. Ráðuneytið þurfti að falla frá samningnum við einkafyrirtækið. Menn voru annað hvort ánægðir með allar málalyktir eða minna ánægðir.

Stjórnmálamenn vissu lítið af því sem fram fór, en þó man ég að við fengum stuðning frá Merði Árnasyni, sem sagði að lagasafnið væri „helsta höfundarverk Alþingis.“

—–

En herðum okkur aðeins tæknilega. Í lagasafni Alþingis eru breytingalög ekki aðeins felld inn í gildandi heildarlög (öll lög sem standa sjálfstætt eru skilgreind sem heildarlög) heldur eru ný lög felld inn nokkurn veginn jafnóðum og þau eru sett og þau sem ógilt eru jafnframt felld út. Ákvæði breytingalaga eru sett inn í heildarlög í hornklofa sem hefur tilvísun í breytingalögin, tilvísun sem jafnframt er lifandi tengill í breytingalögin. Hornklofarnir sýna vel hvernig lög hafa þróast. Þar sem lög kveða á um að reglugerðir skuli settar eru tilvísanir og tenglar í reglugerðirnar. Þá er tengill í þingmálið að baki hverra laga.

Nú eigum við rúsínuna í pylsuendanum eftir því lagasafnið er unnið í SGML-skipanamálinu (Standard Generalized Markup Language (ISO 8879:1986)), sem var gert af IBM árið 1964. Tungumál vefsins (html) er smækkuð útgáfa af SGML þannig að lagasafnið er þýtt niður í vefmálið til birtingar. Lagasafnið er – mér vitanlega – unnið í XML-ritli. Hönnun innra skipanasetts í SGML var unnin af Jörgen Pind sem á þeim tíma vann hjá Orðabók HÍ og var öllum Íslendingum kunnastur Latex-prentkerfinu – og lagasafnið er alltaf tilbúið til prentunar með Latex. Ef þyrfti að gefa það út sem bók. Notendur geta tekið lög til sín í tvídálka umbroti eða í ritvinnslukerfi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation