Facebook-færsla.
Kannski ættu menn að velta fyrir sér hvað herir og áhersla á varnarmál í okkar heimshluta þýðir. Sumir stökkva fram og spyrja: leysa herir eitthvað – og gefa lesendum mynd af hermönnum með brugðna branda – eða spyrja: erum við að fara út á vígvelli? En því er þá til að svara að herir nágrannaþjóðanna hafa ekki farið út á vígvelli í sínu heimalandi í 80 ár. Hvað í ósköpunum eru þeir þá að gera? Út á hvað ganga varnarmál samtímans? Það vildi ég gjarnan vita.
Nú er það svo að við erum með herstöð á Íslandi og bandaríska og evrópska hermenn sem sinna eftirlitsstörfum hvað varðar lofthelgi og á hafinu norður af okkur – hvað erum við þá að tala um – eitthvað annað eftirlit, kannski? Getum við nokkuð talað málefnalega um þetta, höfum við nokkrar forsendur aðrar en klisjur kalda stríðsins?
Frá mínum bæjardyrum séð – og fleiri bæjardyrum, því margir hafa haft samband við mig vegna varnarmála hvað varðar upplýsingatækni – höfum við Íslendingar stungið höfðinu í sandinn í varnarmálum. (Fyrir örfáum dögum keyptu stjórnmálamenn sér áskrift að gervihnattasambandi og hældu sér mikið fyrir. Ljóst hefur verið árum saman að Stjórnarráðið, Alþingi, stjórnarstofnanir og jafnvel allur almenningur mun ekki geta lifað eðlilegu lífi ef ljósleiðararnir verða klipptir).
Við höfum útvistað varnarmálunum til NATÓ – þau hafa verið heit kartafla á Alþingi – og ekki byggt upp innviði til stefnumótunar í varnarmálum, hvað þá stofnanir sem gætu annast slík verkefni. Hvar er varnarmálanefnd Alþingis og hvar er varnarmálaráðuneytið – og af hverju er þjóðaröryggisráð, sem virðist eini vísirinn að varnarviðbrögðum – gersamlega úti á túni?
Ef hópurinn á Hakinu á Þingvöllum verður skotinn á morgun, eða ráðist á hann með hnífi – myndi varnarmálaráðherrann frétta af því í fjölmiðlum? Nei, af því að embættið er ekki til.
Hvað var skotvopn að gera nýlega upp á þaki skóla sem dóttursonur minn sækir. Viljum við bara bregðast við eftir á eða láta hvaðeina yfir okkur ganga?
Hvaða eftirlits- og upplýsingastofnanir fylgjast með hættulegu fólki? Þarf að verja innviði og fólk, þarf að takast á við skemmdarverk, ekki aðeins eftir á, heldur líka með eftirliti, þarf að greina fyrirhugaðar hefndaraðgerðir og hryðjuverk, vita af fólki sem gæti ráðist að fjölmenni til að drepa sem flesta – svo ég sleppi nú upplýsingahernaði og hatursáróðri.
Svarið gæti verið: við viljum bara frið. En þurfum við þá ekki að flytja til Mars? En ef við viljum bara afvegaleiða umræðuna þá getum við ekki talað um málið. Ef við erum brandarakallar og förum að tala um amfetamínframleiðslu – þá erum við vísvitandi skemmdarverkamenn – eða hvað?
Gæti það verið sama fólkið og krefst varnarleysis – t.d. með þeirri heimskulegu mótsögn að varnarleysi sé góð vörn – og mun fordæma stjórnvöld fyrir aðgerðarleysi ef stórfellt ofbeldisverk á sér stað?