Umskipti

Á meðan Jórunn Hálfdanardóttir þvær stofugluggana utan frá svölunum er hún hugsi. Eins og hún oftast er þegar hún vinnur með höndunum verk sem ekki krefjast mikillar einbeitingar. Bláu augun horfa á rúðurnar undan ógreiddu rauðu hárinu, svuntan flaksast, illa tekin saman, en hugurinn er víðsfjarri. Hún getur ekki verið viss um tiltekið atriði í lífi sínu. Nýjar og nýjar aðstæður koma fram. Maður getur aldrei verið viss. Ekki alveg öruggur. Enda þótt margir fullyrði sitthvað um líf sitt og sitji endalaust við sinn keip, þá ættu þeir ekki endilega að gera það.

Hugur Jórunnar leitar aftur í tímann, það eru full tvö ár síðan þetta gerðist. Umskiptin, þau gerðust leiftursnöggt. En samt ekki í neinu fáti. Hún tók ákvörðun á staðnum og lét slag standa.

Núna er dóttirin, Signý Rut, í leikskólanum. Hún er svo saklaust og yndislegt barn, eiginlega er ekki hægt að hugsa sér betra barn. Trúnaðartraustið í fasi hennar vitnar um að hún hefur aldrei verið svikin. Hún býr líka á góðu heimili, svo mikið veit Jórunn – í því efni er hún auðvitað ekki hlutlaus – og eins og öll sjómannsbörn hefur barnið föður sinn í sérstöku dálæti. Hann Jóhannes okkar, þessi sköllótti rumur, sem nú er nýfarinn út með togarann, eftir að hafa átt mánuð heima. Hann yrði mánuð úti og þessir mánuðir sem hann veiddi þorsk – en af honum kom hann ríkulega með heim – komu alltaf sem blessun. Það er gott að hafa hann á sjónum. Þar getur hann líka notið þess að þvo sér ekki eða raka sig ekki – lestir sem ekki eru liðnir á heimili Jórunnar.

Seinni hluta þess tíma sem hann Jóhannes er í landi telur hún dagana þangað til hann fer. Henni finnst þessi durgslega nánd óþægileg. Ekki það að hann sé ekki almennilegur, en hann kemur svolítið fram við hana eins og hún sé barn. Og hann er alltaf að fá sér kex og sultu, henni finnst hann blása út. En hvað um það, henni hættir við að taka praktískar ákvarðanir frekar en ástríðuákvarðanir og hann var nýorðinn skipstjóri á frystitogara þegar hún hitti hann og henni leiddist í bakaríinu. Ef hún yrði konan hans þyrfti hún ekki að vinna og það gekk eftir.

Umskiptin fóru fram á rigningardegi fyrir tveimur árum. Í Borgartúninu, fyrir framan hárgreiðslustofuna. Jórunn var alveg svefnlaus, Jóhannes hafði verið þrjár vikur í landi og hann svaf eins og steinn allar nætur, en hún gekk um gólf með dótturina öskrandi. Og ekki sinnti hann henni á daginn heldur, sagðist ekki kunna að fara með börn. Réttilega. Hann keyrði kannski austur á Selfoss á mótorhjólinu, hvað sem hann var að gera þar.

Signý Rut – dóttirin hét auðvitað alltaf Signý Rut – grét allar nætur mánuðum saman, allt frá því hún kom heim af fæðingardeildinni. Ekki það að hún þegði heldur á daginn. Hún hafði ekki fyrr fest blund en hún rauk upp með andfælum hágrátandi. Alltaf þessi sári, háværi og nístandi grátur. Jórunn var úrræðalaus með að þagga niður í barninu. Smám saman fann hún að hún stæði þetta ekki lengur af sér. Ekki það að hana langaði til að skrúfa niður í barninu í eitt skipti fyrir öll, heldur meira að hún vildi skila því. Til uppruna þess, til lífsins. Gæti ekki einhver annar tekið það að sér? Alla vega þyrfti hún að koma því út af heimilinu. Þetta barn var ekki það sem hún hafði vonast eftir að fá. Eftir á að hyggja var álagið meira en leggjandi var á nokkra manneskju. Hún velti því núna fyrir sér hvort hún hefði ekki átt að fá aðstoð inn á heimilið, en það hafði henni ekki hugkvæmst meðan þetta stóð yfir.

Að koma henni út af heimilinu, henni Signýju Rut, það var hins vegar ekki neitt sem maður gerir. Börn eru ekki borin út. Og var aldrei gert nema með nýfædd börn sem höfðu veikan lífsneista, ekki nokkurra mánaða gömul börn. Þau myndu öskra dögum saman þangað til einhver fyndi þau og skilað þeim – ja, alla vega ekki í kirkjugarðinn – og að öskra dögum saman, í því efni var Signý Rut enginn nýgræðingur. Jórunn var alveg úrræðalaus.

Og ekki bara úrræðalaus, heldur líka svo dösuð og þreytt að hún gat ekki hugsað skýrt. Kannski hugsaði hún aldrei skýrt þegar Jóhannes var í landi. Hún varð bara örvinglaðri og örvinglaðri dag frá degi.

Jórunn hafði ekki sagt nokkrum manni frá umskiptunum nema Sigurbjörgu vinkonu sinni og alveg nýlega. Já, fyrir um viku. Þetta hafði dottið upp úr henni, eiginlega óviljandi. Og hún sá eftir því. Sigurbjörg, sem kölluð var Sibbis – kannski af því að manna hennar hafði lengi búið í Frakklandi – lét ekki á neinu bera. Það eru ef til vill verstu viðbrögðin, hefði hún ekki átt að verða hneyksluð og sýna það bæði í orðum og látæði? Þýddi fálæti Sibbis að hún bægði þessu frá sér í bili en hugsaði sitt, kannski væri hún undirförul, kannski segði hún öðrum frá þessu? Nú mundi Jórunn eftir því að Sibbis var ekki aðeins vinur vina sinna, heldur líka óþægilega smámunasöm. Jórunni fannst hins vegar mikilvægt að draga stórar línur í lífinu.

Þær hittust fyrir viku heima hjá Sibbis. Útidyrnar hennar voru svo stórar að hún virkaði minni en hún raunverulega var þegar hún opnaði hurðina. Hún var á rauða kjólnum sem hún hafði breytt sniðinu á þannig að athyglin beindist síður að kviðnum á henni. Svo hafði hún tekið af honum ermarnar.

-Skiptir þú bara um barn í rigningunni, spurði hún. Svo fékk hún sér annan sopa af kaffinu og strauk hárið aftur, rétt eins og Jórunn hefði skipt um kápu.

-Skipti og skipti. Maður skiptir á svo mörgu sem maður fær upp í hendurnar, svaraði Jórunn og hagræddi sér á stólnum. Nú sá hún umskiptin fyrir sér þótt tvö ár væru síðan.

Þetta hafði bara gerst. Hún gekk fram hjá turninum í dynjandi rigningu, Höfðaturninum, og meðfram borgarskrifstofunum í Borgartúninu – og eins og allir vita er ekki hægt að bera regnhlíf þegar maður ekur barnavagni. Og hún hafði fundið regnvatnið ekki aðeins gera sig gegndrepa, heldur fór það að renna af hárinu niður bakið á henni. Grænn bómullarfrakkinn sem fór svo vel við hárið féll ekki nógu vel að í hálsinn. Þótt hann hefði kostað sitt. Kannski fjórðung úr hásetahlut. Hávaxin kona verður auðvitað blautari en lágvaxin. Hún var við það sjálf að fara að öskra. En þá sá hún vagninn fram undan sér fyrir utan hárgreiðslustofuna. Brúnan Silver Cross vagn, nokkurn veginn nýjan, þrjú hundruð þúsund króna vagn, og hún stoppaði upp við hann og leit undir skyggnið. Þar lá sofandi barn á svipuðum aldri og Signý Rut og ósköp hliðstætt barn. Alls ekki svo ólíkt barn og í eins galla. Hún fékk eiginlega ekki hugmyndina, heldur framkvæmdist hugmyndin áður en hún var hugsuð. Jórunn víxlaði á Signýju Rut sinni og barninu í dýra barnavagninum. Sennilega gerði það útslagið að þær voru í eins galla. Svo gekk hún hratt út að húshorninu og beygði upp Þórunnartúnið. Hjartslátturinn dunaði og regnið buldi. Nú heyrði hún Signýju Rut fyrri fara að gráta. Af því að nú var hún í vagni sem hreyfðist ekki lengur. Ekki bara gráta heldur öskra. En nýja barnið steinsvaf.

-Hefur þér ekki dottið í hug að hafa upp á móðurinni, spurði Sibbis og horfði á borðstofuvegginn þar sem hékk mynd eftir Dieter Roth. Hún var aftur í vandræðum með hártoppinn. Fríð kona en ef til vill svolítið fáfengileg. Svo teygði hún sig í annað súkkulaðikex, sem hún strangt tekið þurfti ekki á að halda.

Þetta var ekki það svar sem Jórunn hafði vænst. Vinkonur eru til þess að styðja mann. Alltaf studdi hún Sibbis, hvað sem hún sagði og gerði, og það var nú ýmislegt.

-Nei, mér hefur ekki dottið það í hug. Aldrei. Hún er með sitt barn, sitt nýja barn, svaraði Jórunn. Svo fékk hún sér sopa af kaffinu. Það var sterkt og ekki laust við remmu.

Henni hafði samt – þegar hún nú rifjaði umskiptin upp – dottið í hug að skipta til baka. En hún hafði ekki getað sagt móðurinni frá skiptunum. Ekki vegna þess að það ylli auðvitað bara misskilningi, heldur vegna aðstæðnanna.

Jórunn var komin upp í Bríetartún, til móts við Ríkisendurskoðun, þegar hún fann að hún hafði gert eitthvað rangt. Þá langaði hana til að snúa við og víxla aftur. Hún fann að henni yrði erfitt að lifa við samviskubitið. Því sneri hún við, fór niður Þórunnartúnið, það var eins og rigningin hefði hert sig, og hún beygði fyrir borgartúnshornið. En þegar hún nálgaðist nýja brúna Silver Cross vagninn kom ung kona út frá hárgreiðslustofunni og tók Signýju Rut fyrri upp úr fína vagninum – hún stóð auðvitað á öskrinu – og fór að bía henni. Jórunn kunni ekki við annað en að drífa sig af stað. Eins úrvinda og blaut og hún var og ekki í standi til að ávarpa ókunnuga. Varla er heldur eðlilegt að standa upp við annarra manna vagna og glápa á annarra manna börn. Konan á hárgreiðslustofunni fór svo inn og Jórunni heyrðist barnið þagna. En það hlaut að vera misheyrn, þetta barn sem konan á hárgreiðslustofunni hafði í fangi sínu þagnaði ekki oft.

Jórunni var létt, hún hafði reynt að gera það rétta en ekki tekist það. Nú gæti hún ekki víxlað börnunum aftur. Hún sæti uppi með nýja barnið og hver veit nema þetta hefðu verið góð skipti og að hamingjan hefði litið til hennar. Og hver veit nema Signý Rut fyrri sé einmitt það sem konan á hárgreiðslustofunni verðskuldaði. Kannski fengi hún hana til að þagna. Það er alltaf fræðilegur möguleiki.

Nú sneri Jórunn sér að Sibbis.

-Ég reyndi að skila nýja barninu en það var ekki hægt, sagði hún. -Konan fór með Signýju Rut fyrri inn og ég gat ekki elt hana og sagt henni hvað gerðist. Ég var líka illa á mig komin.

Svo leit Jórunn upp á vegginn og skoðaði Dieter Roth verkið. Ekki ólaglegt abstraktverk. Kannski of mikill rauður litur. Hún lét líka eins og þær væru að tala um kápuskipti, lét á engu bera.

-Maður getur ekki sagt frá svona löguðu, bætti hún við.

Svo varð þögn.

-Nema bestu vinkonu sinni og bara löngu seinna, þegar rykið hefur sest, bætti hún enn frekar við.

Sibbis bauð henni sérrí, sem hún afþakkaði, en henni þótti vænt um boðið. Loksins hafði Sibbis áttað sig á því að um mikinn atburð var að ræða, atburð sem halda þurfti upp á.

Nú er vika liðin frá þessu samtali. Jórunn gengur inn í stofuna sína og horfir út um gluggana. Þeir eru hreinir, ekki blett að sjá. Af hverju er hún að rifja þetta upp. Jú, Sibbis hefur ekki hringt síðan samtalið átti sér stað. Og henni hafði auðvitað brugðið í gær þegar lögregluþjónninn sendi henni tölvupóst. Þá varð hún tortryggin. Hafði Sibbis klagað hana, hún hringdi að minnsta kosti ekki.

Nú sér hún eftir að hafa sagt Sibbis leyndarmálið sitt. Hún mun ekki ræða málið frekar við hana, raunar ekki nokkurn mann yfirleitt. Kannski hefur hún glatað góðri vinkonu.

Auðvitað er hún stundum óróleg. Kannski eru eftirlitsmyndavélar við borgarskrifstofurnar, kannski bankar einhver upp á og skilar Signýju Rut fyrri og krefst hinnar síðari. Sem er yndisleg, sefur á nóttunni eins og Jóhannes og er hvers manns hugljúfi.

Jórunn beit í kanelsnúðinn, sem Sibbis var svo stolt af að baka.

-Ég hef aldrei vitað betra barn en hana Signýju Rut mína, sagði hún.

-Einmitt, það er gott að heyra, var svarið.

Þetta man hún af samtali þeirra. Nú rifjar Jórunn meira upp í huganum, rétt á meðan hún hellir óhreinu sápuvatninu niður í vaskinn. Hárið fellur fram yfir andlitið og svuntan hangir laus, bindingin hefur loksins gefið sig. Hún hefði sig til á eftir. Hún hafði að minnsta kosti reynt að skoða hverra manna Signý Rut síðari væri. Nokkru eftir umskiptin sendi hún lífsýnaprufu af henni til MyHeritage, sem er fyrirtæki í Texas sem skoðar skyldleika fólks og setur upp ættartré, svipað og Íslendingabók – og greinir DNA ef vill. Og þremur vikum síðar fékk hún niðurstöðuna.

Signý Rut síðari kom á óvart. Hún reyndist dóttir Jóhannesar, en hann átti þarna inni prufu síðan hann var að skoða hvort hann væri rétt feðraður. Einkennileg tilviljun að þau séu feðgin, því hún hafði einmitt sagt Jóhannesi að Signý Rut síðari líktist móður hans. Það var sama kvöldið og umskiptin áttu sér stað. Hún hafði svæft nýja barnið í hjónarúminu og þegar Jóhannes fór að sofa tók hann eftir einhverju. Kannski af því hvernig litarhaft barnsins skar gagnvart koddaverinu. Þetta var ekki líkt honum, hann hefur ekki vit á börnum og er það ekki svo að margir gamaldags karlmenn gera lítinn greinarmun á börnum? Fóstrurnar þurfa að benda þeim á börnin þeirra þegar þeir sækja þau á leikskólana.

-Mikið er hún breytt, sagði hann, hún Signý Rut.

-Já, börn stækka í stökkum, svaraði Jórunn. -Hún hefur verið að breytast og þroskast síðustu daga, þú hefur bara ekki tekið eftir því fyrr en nú.

-Og hefur ekki grátið síðan í morgun. Gott ef hún er komin yfir það, svaraði hann.

Jórunn varð hissa á því að Jóhannes hefði tekið eftir þessu. Honum var ekki alls varnað.

-Einmitt, sagði Jórunn og ákvað að láta hné fylgja kviði. -Mér finnst hún aldrei hafa verið líkari móður þinni en nú.

Hún brosti inn í sér.

-Já, ég sé ættarsvipinn, sagði Jóhannes og breiddi yfir sig. Svo bætti hann við.

-En hún gerði það ekki áður.

Nú stendur Jórunn hugsi við þvottahúsvaskinn. Signý Rut síðari er sem sagt dóttir Jóhannesar. Í niðurstöðum MyHeritage kom líka fram að fjöldi ættingja Jóhannesar eiga prufu hjá fyrirtækinu. Hann er rétt feðraður, og sennilega allt hans fólk.

Það var ekki fyrr en daginn eftir að niðurstöðurnar komu frá Texas sem það rann upp fyrir Jórunni að báðar Signýjar Rutarnar voru getnar þegar þau Jóhannes voru í tilhugalífinu, þegar samband þeirra gekk sundur og saman. Hún leitaði stundum til annarra manna þegar þau fóru í sundur til að hefna sín á honum, hann var alltaf að ýta henni frá sér. Svona framan af. Þegar henni var faðerni Signýjar Rutar síðari ljóst hringdi hún í Jóhannes sem þá var á sjónum. Til að ræða málið við hann, en hann svaraði ekki. Það var kannski jafn gott. Hún ætlaði sér að klekkja á honum fyrir ótryggðina.

Smám saman sá hún þó að hún gæti ekki sakað Jóhannes um framhjáhald. Því þá yrði hún að gera honum grein fyrir því hvernig hún komst yfir nýja barnið. Og hann mátti ekki vita að hún hefði skipt um barn og fengið annað barn sem hann átti í lausaleik. Hún hafði strax á tilfinningunni að honum gæti mislíkað það, þótt hann væri auðvitað ekki smámunasamur. Kannski segði hann mömmu sinni frá barnsskiptunum. Hvað slík atburðarrás kostaði Jórunni var alveg óvíst. Kannski bæði hjónabandið og nýja barnið og hún gæti endað sem einstæð móðir með hræðilegt barn og vinnandi í bakaríi.

En traust hennar til Jóhannesar rann niður taugar hennar eins og sandur í tímaglasi og því yrði ekki snúið við. Hann hafði litið í kringum sig um leið og hann gekk á eftir henni. Þegar hálf vika var liðin frá höfnun hans fór hann alltaf aftur að tjá henni ást sína af sannfæringu og senda henni blóm. Sem hann hafði ekki gert síðan þá.

Frá því niðurstöðurnar komu hafði samlíf þeirra verið henni hálfgerð kvöl. En hvað var hann annars alltaf að fara til Selfoss? Nei, hún ætlaði ekki að verða tortryggin, hún var ekki þannig týpa.

Nú sneri Jórunn sér aftur að Sibbis og horfði beint í augu hennar.

-Ég segi þér þetta auðvitað í trúnaði. Fyrst nýja mamma Signýjar Rutar fyrri hefur ekki auglýst eftir barninu sínu hefur hún ekki tekið eftir skiptunum. Enda eru stelpurnar líkar.

-Hvernig dettur þér í hug að móðir þekki ekki barnið sitt, svaraði Sibbis, örlítið of snöggt og hvasst.

-Mig minnir að auglýst hafi verið eftir ljóshærðu stúlkubarni fyrir tveimur árum og mynd fylgdi, bætti hún við.

-Heldurðu það virkilega, ætli það hafi ekki verið annað barn.

Jórunn fann að ísinn undir henni var tæpur.

Eftir svolitla þögn bætti Sibbis við og harkan hafði farið úr röddinni.

-Ég man þetta vel, hún auglýsti aftur og aftur, hún var greinilega alveg að ganga af göflunum. Hún er eiginkona hæstaréttarlögmanns. Ég sé hann fyrir mér, lítill og sköllóttur karl, hefur skipt sér af pólitík.

Það varð svolítil fljótaskrift á kveðjum vinkvennanna, jafnvel eins og þeim hefði orðið sundurorða. Sibbis sagði við útidyrnar og strauk hárið aftur.

-Væri þér sama þótt ég hringdi í konuna sem auglýsti?

-Nei, mér er ekki sama, svaraði Jórunn hratt og ákveðið. -Enginn má vita þetta. En þú ert trúnaðarvinkona mín. Ég treysti þér.

Svo gekk hún á braut.

Í tölvupósti lögreglumannsins í gær sagði að hann hefði fengið ábendingu frá konu sem saknaði barns fyrir tveimur árum um að Jórunn gæti vitað eitthvað um barnið hennar, jafnvel verið með það. Konan hafði að vísu fengið annað barn í staðinn sem hún kannaðist ekki við. Einhver hafði ljóstrað þessu upp við hana. Hann var auðvitað tregur til þess að taka málið upp vegna einnar ábendingar sem byggðist á einu samtali. Hann hafði samt farið aftur í eftirlitsmyndarvélarnar hjá Borginni og skoðað barnsskiptin, en þau náðust á mynd. Gerandinn, konan sem skipti á börnunum, var óþekkjanleg í rigningunni. Og myndavélin var langt frá. Hann sendi Jórunni mynd þar sem mátti sjá hana holdvota bogra yfir fína vagninum. Mjög ógreinileg mynd sem gat verið af hvaða konu sem er, jafnvel af karlmanni. Henni fannst samt eins og græni liturinn á kápunni sæist í svart-hvítri upptökunni, hann er svo sérstakur, en það hlaut að vera rangt.

Jórunn hafði auðvitað ekki sofið mikið í nótt fyrir áhyggjum, en vaknaði í morgun með lausn málsins. Hún fór í tölvuna og sendi lögreglumanninum niðurstöður DNA-prófsins frá Texas, sem sýndi að Signý Rut síðari var dóttir Jóhannesar. Hún sagði í bréfinu til lögreglumannsins að hún hefði ekki verið alveg viss um faðernið – vonandi héldi lögreglan trúnað um svona smá tortyggni – og sent prufur af dótturinni og föðurnum. Og niðurstaðan var meðfylgjandi. Signý Rut er dóttir föður síns. Svo mikið er víst.

Lögreglumaðurinn var við skrifborðið þegar hann fékk tölvupóstinn og svaraði um hæl. Honum leið illa eftir svefnlitla nótt og í gærkvöldi eftir að þau hjónin höfðu horft á séra Brown, hafði konan sagt honum að hann væri á of lágum launum, hann þyrfti að biðja um kauphækkun. Hann væri alveg metnaðarlaus. Svo bað hann Jórunni afsökunar á erindi sínu og sagði að margar falskar ábendingar bærust lögreglunni. Hann myndi segja konunni sem saknaði barns síns að þetta væri ein þeirra. Nú lokaði hann þessu máli endanlega.

Að þessu búnu fór Jórunn að þvo stofugluggana. Og núna, þegar hún ætlar að fara út í búð og er inn á baðherbergi að laga sig til, syngur hún reiðmenn vindana, rétt eins og Helgi Björns. Það er runnið upp fyrir henni að hún er sloppin. Málið er sennilega öruggt. Konunni sem saknaði barns síns fyrir tveimur árum dytti varla í hug að senda DNA-prufu af nýja barninu til að hafa upp á ræningjanum. Og þótt hún gerði það myndi niðurstaðan ekki benda á Jórunni sem móður, ja, meðan hún eða nánir ættingjar hennar sendu ekki inn prufur – og ekki heldur á Jóhannes, svo haganlega var öllu fyrir komið. Hún hló inni í sér. Hefndaraðgerðirnar hennar í tilhugalífinu með Jóhannesi myndu skila sér.

En þótt Jóhannes sé úti að hjóla og Jórunn sé svo örugg að hún syngi dægurlög hljóma varnaðarorð í bakþankanum. Ekki hávær, en þau fara ekki. Maður getur aldrei verið alveg viss.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation