Texti greinar í Morgunblaðinu.
—–
Komandi kosningar þurfa að snúast um þá hæfni og persónuleika sem við viljum að forseti búi yfir.
Hvernig forseta viljum við hafa næstu fjögur árin? Viljum við að hann sé ópólitískur, eins og Kristján Eldjárn, kunni frönsku, eins og Vigdís, sé staðfastur gagnvart pólitíska valdinu, eins og Ólafur Ragnar, og viti meira en aðrir um stjórnskipunina og hlutverk forsetans, eins og Guðni Th.? Eða viljum við bara að forsetinn hafi persónutöfra og birtu í nærveru sinni svipað og Vigdís þegar hann hittir okkur og aðra?
Önnur lota er fram undan
Hvaða spurninga sem við spyrjum um forsetann, hvaða óskir sem við látum í ljós, þá er svarið gjarnan Helga Þórisdóttir. Hún hefur ekki unnið persónulegu vinsældakosninguna í fyrstu lotu í nýhafinni kosningabaráttu, en í þeirri næstu verður kannski talað um málefni, persónueinkenni, getu, starfsreynslu og kunnáttu; frambjóðendur bornir saman við hugmyndir okkar um góðan forseta og merkt í boxin.
Helga yrði sómi okkar út á við. Hún þurfti ung að læra að tjá sig á ensku og dönsku. Þá lærði hún frönsku og spænsku og hefur búið í rómönskumælandi ríkjum Evrópu, auk Danmerkur og Skotlands. Hún segist sjálf tala ensku, frönsku og dönsku.
Fyrir mér er mikilvægt að forsetinn sé ópólitískur og líklegur til staðfestu gagnvart bæði vinstri og hægri ríkisstjórn. Helga hefur sem forstjóri Persónuverndar sýnt meiri staðfestu gagnvart háum sem lágum ágangsmönnum mannréttinda en flestir aðrir ríkisforstjórar. Þá á hún einstakan starfsferil, sem spannar frá því að vera nefndarritari á Alþingi og semja lagatexta fyrir alþingismenn í mismunandi flokkum, starfa hjá EFTA að viðskiptamálum á Evrópska efnahagssvæðinu, vinna í Stjórnarráðinu og að lokum sem ríkisforstjóri. Sé íslenska stjórnkerfið flókið og óskiljanlegt flestum – eru líkur á að Helga geti leitt okkur um völundarhús þess. Á það getur reynt í starfi forseta.
Fyrir mér er Helga hluti af bylgju hugsjóna- og baráttufólks fyrir því að upplýsingatæknin geri heiminn betri, en þrengi ekki að persónulegu rými okkar. Evrópsk persónuverndarlöggjöf, ásamt margháttuðum viðskiptareglum, er helsta svar mannkynsins við upplýsinga- og tækniþróuninni og hafa amerísku hugbúnaðarrisarnir orðið að hlíta þeim reglum. Eiginlega er þessi evrópski þrýstingur á tölvuþróunina það eina sem heimurinn gerir í málinu. Helga hefur staðið í stafni baráttunnar hér á landi.
Í heimi persónuverndarmálanna og upplýsingatækninnar hefur Helga fengið innsýn og áhuga á nýsköpun. Breytingarnar með nýrri tækni opna gríðarlega möguleika til að gera heiminn betri og laga hlutskipti flestra. Við getum óttast breytingar, kannski er maðurinn fæddur til að lifa í kyrrstæðum heimi, eins og hann gerði um árþúsundir, sumir eiga erfitt með öppin – og þróunin gengur sennilega of hratt þannig að fólk getur ekki lifað ævina á enda við sömu þjónustuform. Þá vil ég hafa forseta sem skilur bæði hvar skórinn kreppir og hvert stefnir; sem getur sannfært okkur um að við göngum til góðs og er líklegur til að leiða okkur í farsælar áttir ef á þarf að halda.
Hvað er fram undan?
Með tímanum hefur forsetaembættið nálgast líf almennings og ég sé fyrir mér að Helga geti orðið glæsilegur forseti, fremst meðal jafningja. Við þurfum vitran þjóðhöfðingja sem skilur hvað er að gerast í heiminum og satt að segja er ekki friðvænlegra í umhverfi okkar en svo að forsetans gætu beðið erfiðari verkefni en við áttum okkur á. Þegar hann brosir glaðlega við okkur, allt leikur í lyndi og lífið er fallegt – þurfum við líka að geta treyst á að hann eigi mikið eftir til að sinna alvarlegri verkefnum.