Vilji dönsku þjóðarinnar (21.10.2021)

Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.

—–

Í Danmörku virðist þjóðþingið standa nær almenningi en hér á landi og síður er litið á þjóðaratkvæðagreiðslur sem andstætt afl við þingið.

Ég hef upp á síðkastið átt þess kost að skoða danskt þingræði betur en áður og orðið enn hrifnari af því og vil vekja athygli á þjóðaratkvæðagreiðslunum.

Danska stjórnarskráin

Danska stjórnarskráin frá 1953 virðist sérstaklega vel heppnuð. Hún byggist á hefðum evrópskra/norrænna þingræðisstjórnarskráa m.a. um stöðu og hlutverk æðstu skipulagseininga ríkisins, um valddempun o.fl. og hafa flest bestu lýðræðisríki mannkynssögunnar byggt á þessum hefðum. Með 1953-stjórnarskránni voru innleiddar margar nýjungar í danskt lýðræði og meðal annars voru þjóðaratkvæðagreiðslur, sem teknar höfðu verið upp 1915, þróaðar áfram. Umræður um beina aðkomu þjóðarinnar að málum hafa greinilega átt sér stað í Danmörku alla síðustu öld, ekkert síður en á okkar tímum – nú, eða hér á landi. Sjá meðfylgjandi töflu yfir þær 19 þjóðaratkvæðagreiðslur sem farið hafa fram.

Þjóðaratkvæðagreiðslur

Samkvæmt dönsku stjórnarskránni eru tilefni þjóðaratkvæðagreiðslu af tvennum toga: (i) samkvæmt ákvörðun þjóðþingsins, Folketinget og (ii) samkvæmt stjórnarskrárskyldu. Það vekur athygli mína að þjóðþingið skuli bæði hafa leitt þróun stjórnarskrárkerfisins og kalli síðan sjálft eftir þjóðaratkvæðagreiðslum. Í Danmörku virðist þingið standa mun nær almenningi og almannaviljanum en hér á landi og ekki eða síður er litið á þjóðaratkvæðagreiðslur sem andstætt afl við þjóðþingið. Þingið og þjóðin eru samstæð heild eða samstæðari heild en hér, meðan mikið hefur verið reynt hér á landi að gera forsetann að umboðsmanni beins lýðræðis – til mótvægis við Alþingi – sem í grunninn sýnir veika þingræðistiltrú.

Meginreglan og eina krafan um þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni fjallar um hlutfall þeirra kjósenda á kjörskrá sem hafna lagafrumvarpi: Almenna reglan er að 30% geti hafnað lagafrumvarpi, nema þegar um stjórnarskrárbreytingar er að ræða þá þarf 40% til höfnunar.

Litlar umræður eru um stjórnarskrárbreytingar í Danmörku, en þó hefur komið fram að samþykkja mætti aðild að alþjóðasamningum með þjóðaratkvæðagreiðslum, en einfaldan meirihluta þingmanna þarf til samþykktar þeirra (þingið hefur þó heimild til að vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu með lögum og hefur nýtt hana). Alþjóðasamningar geta falið í sér meira afsal fullveldisréttinda en beinir milliríkjasamningar, en til samþykktar þeirra þarf samþykki 5/6 þingmanna, annars er skylda að halda þjóðaratkvæðagreiðslu.

Vald almennings

Með þjóðaratkvæðagreiðslum hefur danskur almenningur fengið samþykktar- og neitunarvald í sínar hendur, auk ráðgefandi valds og frumkvæðisvalds á óbeinan hátt. Með upptöku borgerforslag 2016 (þingsályktunartillaga frá íbúum) veitti danska þingið síðan íbúum sínum beinan frumkvæðisrétt, en það er ekki að lagagerð.

Frumkvæðisréttur almennings í Danmörku er í gegnum stjórnarandstöðuna, sem ber með sér snjalla þingræðislega hugsun og styður hreyfanleika stjórnmálavaldsins meðan frumkvæðisvald úti í bæ getur haft aðrar og verri afleiðingar, sjá grein mína í Mbl. 8. sept. 2015. Þriðjungur þingmanna getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, sem þýðir að umdeild frumvörp þurfa stuðning eða hlutleysi 120 þingmanna af 179 (jafngildir 43 þingmönnum hér) – sem þýðir auðvitað aukinn meirihluti í erfiðum málum. Rökstyðja má að þetta hafi mótandi áhrif á danskt þingræði.

Lokaorð

Ljóst er að þjóðaratkvæðagreiðslur eru lifandi veruleiki í dönskum stjórnmálum og ættum við að taka upp kerfi þeirra ásamt mörgum öðrum framfaraákvæðum í stjórnarskránni frá 1953 – hún væri eðlileg viðmiðun fyrir breytingar. Að halda sig við danska og evrópska/norræna stjórnarskrárkerfið, sem felur í sér margreynt innra samræmi, innra samhengi og valddempun, skapar réttaröryggi og tryggir að Ísland fari ekki einhverja „best í heimi“-leið varðandi ríkisrétt. Þá er líka eðlilegt að hafna hinni heimagerðu „nýju stjórnarskrá“.