Vísindin og stjórnarandstaðan (29.01.2022)

Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.

—–

Ef einstaka vísindagreinar gætu stjórnað heilu þjóðfélagi farsællega þyrftum við ekki lýðræði.

Fyrir viku sagði stjórnarandstöðuþingmaður í útvarpi að hann tryði á vísindin og átti með því við að sóttvarnasjónarmið ættu ein og sér að stjórna afléttingaráformum – en ekki misvitrir stjórnmálamenn, eins og hann bætti við – og bað hann síðan ríkisstjórnina þess lengstra orða að fara að ráðum sóttvarnalæknis.

Stjórnun ríkisins

Ásökunarfælni (e. blame avoidance) stýrir afstöðu ríkisstjórnarinnar í sóttvarnamálum. Fyrir tveimur árum setti hún upp sérstakt stjórnvald yfir almenningi og atvinnulífi með sterku lögregluvaldi og skýlir sér bak við það. Þetta stjórnvald stýrir með sértækum þröngum sjónarmiðum (e. highly specific point of view), svo þröngum að aðeins innvígðir eru samræðuhæfir um forsendur þess.

Þetta stjórnvald hefur á síðustu dögum haldið með lögregluvaldi um 25 þús. manns í stofufangelsi sem jafngildir 4,7 millj. manns í Bretlandi, aðgerð sem á sér sennilega enga hliðstæðu í lýðræðisríki. Það hefur tekið ferðafrelsi, samkomufrelsi og hluta atvinnuréttinda til baka og lamað eina af helstu atvinnugreinum landsmanna. Stjórnvaldið sem slíkt er ábyrgðarlaust þótt kjörin stjórnvöld séu það aldrei, en almenningur og atvinnulíf borgar.

Hvað með lýðræðið?

Með hinum þröngu fræðilegu sjónarmiðum hefur þetta stjórnvald ýtt lýðræðinu til hliðar – hefðbundið regluverk og stofnanir eru valdalausar því enginn getur andæft. Á Alþingi leggja fáir í að færa sóttvarnaaðgerðir á plan almennra sjónarmiða og gaumgæfa málið frá mörgum hliðum, nema helst einstaka stjórnarþingmenn. Hin sértæku vísindi eru eins og er yfirstæð almennum sjónarmiðum við stjórn landsins, allt á grundvelli þess að þau geta gripið inn á stuttri hættustund.

Þegar stjórnarandstaða er ekki fyrir hendi falla fjölmiðlarnir og almenningur í sömu gryfjuna og hún – og niðurstaðan er jafnvel enn meiri meðvirkni með stjórnvöldum en ríkti í aðdraganda fjármálahrunsins.

Sértæk sjónarmið eða almenn

Nú er ég einn þeirra sem trúa á vísindin og tel mikilvægt að þau styðji við stjórnvaldsákvarðanir.

En samspil almennra sjónarmiða og sértækra er þannig að landinu er stjórnað á grundvelli almennra sjónarmiða – með almennri skynsemi (e. common sense), en með tilstyrk sértækra sjónarmiða hinna ýmsu fræðigreina, kenninga og að teknu tilliti til hagsmuna – og með stuðningi fjölmargra annarra sjónarmiða sem stjórnmálamenn leiða saman.

Forsenda kosningaréttar almennings er líka að hann geti með almennri skynsemi myndað sér rökstudda skoðun á hverju máli og stjórnmálamenn eru ekki sérfræðingar heldur fulltrúar hans.

Ef einstaka vísindagreinar gætu stjórnað heilu þjóðfélagi farsællega þyrftum við ekki lýðræði. Við trúum því að stjórnmálamenn stjórni þjóðfélaginu best og höfum fyrir því sterk reynslurök.

Skyldur stjórnarandstöðunnar

Stjórnarandstöðunni er skylt að krefjast lýðræðis í þjóðfélaginu og að hið nýja stjórnvald verði lagt niður og allt sem því tilheyrir. Henni hefur allan tímann borið að gera almenn sjónarmið að grundvelli aðgerða; félagsleg, efnahagsleg og menningarleg og að leiða saman ólíkar forsendur. Núna þarf hún líka að takast á við gagnrýnið uppgjör vegna aðgerðanna. Rökstyðja má að margháttuð lögbrot hafi átt sér stað og jafnvel þarf að kalla saman Landsdóm vegna vanrækslu heilbrigðisráðherra við að setja upp sóttvarnadeild.

Stjórnarandstaðan á að verja rétt þjóðarinnar til frelsis, krefjast þess að lýðræði verði endurvakið, að mannréttindi séu virt og að fullu ferðafrelsi, samkomufrelsi og tjáningarfrelsi í fjölmiðlum verði komið á. Þá er einnig mikilvægt að rakningum og eftirlit með almenningi verði hætt og öllum gögnum sem orðið hafa til í þeirri starfsemi verði eytt. Lögreglan þarf að snúa sér að lögbrotum en hverfa frá ofríki um daglegt líf almennings.

Stjórnarandstaða sem er meðvirk stjórnvöldum er lítils virði – og ef hún trúir ekki á lýðræðið sem stjórnarform á hún ekkert erindi.