Ysta hægrið í Kísildalnum

Facebook-færsla.

Ég hef gaman af Curtis Yarvin. Hann er – eins og flestir vita nú orðið – hugmyndafræðingur tengdur Kísildalnum og nýjastur í röð hugsuða sem þar lifa, starfa og græða (sumir stórfelldlega) á nýjum hugmyndum – hugsuða sem velta fyrir sér áhrifum upplýsingatækni á lýðræði og stjórnkerfi þess. Og velta ekki bara fyrir sér, heldur vilja breyta heiminum. Það sem er skemmtilegt við hann er að hann bindur ekki trúnað við nein pólitísk öfl, þótt hann og hans fólk hafi stutt Trump í kosningabaráttunni. Raunar á gagnrýninn hátt, því hann og Kísildalurinn vilja að Trump-stjórnin geri ákveðnar breytingar á bandarísku samfélagi, gerbreyti því raunar (felli lýðræðið) – og sjá nú að varla verður af því. Það styttist í algeran aðskilnað MAGA og Kísildalsmanna, enda vilja þeir fyrrnefndu að klukkan gangi til baka – eru hræddir við breytingarnar sem upplýsingatæknin, alþjóðavæðingin og líftæknin valda og mun valda, meðan hinir síðarnefndu vilja ganga lengra í breytingum, breytingum sem byggja á efnahagslegum forsendum – sem alltaf eru aukin völd upplýsingatæknirisanna (GAMMA – Google, Amazon, Meta, MicroSoft, Apple), aukin alþjóðavæðing (heimsyfirráð stærstu aðilanna á markaði) og alræðisfyrirkomulag (gagbylting). Án þess að spurninga um afdrif almennings sé spurt.

Gagnbyltingin og hugmyndir Kísildalsmanna byggja á þrennu: (i) að auður vex hraðast í alræðisríkjum (t.d. Singapore, Hong Kong og Kína) – og lýðræðið varð nú einu sinni ofan á eftir seinni heimsstyrjöldina vegna þess að það gaf bestu efnahagslegu niðurstöðuna, þess vegna eiga efnahagsleg rök að stjórna núna. Þessi hugmynd, að efnahagsleg rök séu grundvöllur stjórnskipulags, er meiri ógn við lýðræðið en stjórnmálamennirnir Orbán eða Trump, því erfitt er að verja lýðræðið einvörðungu á hugmyndafræðilegum rökum. (ii) Þá gengur best að stjórna þar sem almenningur skiptir sér ekki af stjórnmálum og (iii) ríkjum ætti að stjórna eins og stórfyrirtækjum (enda velta mörg alþjóðleg fyrirtæki meiru en ríki). Í rauninni má segja að alræði byggt á kapítalisma gefi besta raun – efnahagslega. Alla vega svo lengi sem menntuð elíta leiðir.

Þessi Curtis Yarvin hallast svolítið að gamalli hugmyndafræði hægri aflanna sem kennd er við Ayn Rand, rússneskan innflytjanda til Bandaríkjanna, höfund skáldsagna og hugmyndafræði objectivismans – hún sló í gegn 1943 með þriðju bók sinni, The Fountainhead. Randisminn snýst m.a. um trú á mismun milli manna og yfirburðahyggju. Að öðru leyti er Yarvin gagnbyltingarsinni, andsnúinn lýðræðisskipulaginu og í nýrri grein á vefnum Gray Mirror kvartar hann yfir því að Kísildalsmenn hafi enga sameiginlega framtíðarsýn. Þá kvartar hann yfir meðferð Trump á Musk. Musk er á margan hátt leiðtogi Kísildalsins, þótt þar blómstri margar skoðanir. Andstæðurnar milli framtíðarsýnar upplýsingatækninnar og afturhvarfs MAGA til fortíðar magnast.

Margt skemmtilegt er í þessu. Ég minnist á tvennt. Annars vegar er Curtis Yarvin engum háður – sem skemmtir mér vel, hann er ekki eins og hinn almenni fylgismaður vinstri og hægri á Vesturlöndum sem styður hugmyndir síns flokks hversu fáránlegar sem þær eru og jafnvel þótt þær byggi á lygi (þetta á bæði við um fræðimenn og fjölmiðla). Fáir hér á landi gagnrýna bæði til vinstri og hægri. Hins vegar hefur hann horft á gamla drauma tölvumanna og Kísildalsins um áhrif upplýsingatækninnar á lýðræðið breytast í martraðir – og nú vill hann eyða þeim. Hvað á ég við?

Jú, draumurinn um takkalýðræði hefur orðið að engu, enda netlýðræði ómögulegt af mörgum ástæðum, ekki síst öryggisins vegna og af lýðræðisástæðum. Þá hafa stjórnmálaleg áhrif félagsmiðla orðið skelfileg. Þau byrjuðu með skautuninni (bandaríska teboðinu) og arabíska vorinu, sem leiddi hörmungar og stríð yfir heilar þjóðir (en Vesturlönd stóðu af sér), en hafa síðan sýnt andlit sitt því félagsmiðlarnir gefa öllum rödd, líka þeim sem ekki höfðu það í ritstýrðum miðlum (undirstéttunum og þeim fjölda – helmingi mannkyns – sem er undir meðalgreind) og þeir gefa stórveldum og efnahagslegu valdi af hvaða tagi sem er tækifæri á að stjórna vilja þessa misleita almennings. Það hafa Vesturlönd ekki staðið af sér, sjá Brexit og uppgang þjóðernishyggju/rasisma.

Flestir stjórnmálamenn og t.d. stjórnmálagreinendur – sem ekki þekkja áhrif og hugmyndir upplýsingatækninnar, vanmeta eða skilja alls ekki áhrif hennar, sem takmarkar þá og gerir þá marklitla eða marklausa – gerir þeim t.d. ómögulegt að skilja og sjá áhrif rússnesks nethernaðar á pólitíska upplausn Vesturlanda. Við höfum nýlega séð helsta og frægasta stjórnmálaskýranda Íslands ræða um Orbán og Trump sem mestu ógnir við lýðræðið – meðan þeir eru meira afleiðingar en orsakir. Hann skilur ekki áhrif upplýsingatækninnar, skautunina, rússneska nethernaðinn, áhrif lakari hluta íbúa á umræðu (meðan fræðimenn leggja ekki í að taka þátt í opinberri umræðu því hún er svo sóðaleg). En Yarvin þekkir áhrif upplýsingatækninnar á lýðræðið og svar hans er: Látum almenning ekki koma nálægt stjórnmálum! Og óneitanlega skapar það frið í samfélögum, festu og stöðugleika – og kannski ekki önnur leið til þess á dögum félagsmiðlanna.

Curtis Yarvin skrifar fyrir fylgismenn sína og útskýrir ekki allt sem hann segir. Innlegg hans á þessu ári verða ekki skilin til fulls, nema maður þekki forsögu málsins. Þar á meðal er sú hugmynd hans að Trump-stjórnin eigi að fella stjórnskipulagið. Frægasta hugtak hans er „the Cathedral“ – þá vísar hann til háskólanna og fjölmiðla og segir þá hafa sama hlutverk í nútímanum og kirkjan og stofnanir hennar áður. Þá lítur hann á hið opinbera og stjórnkerfið allt sem eina heild – hann er ekki innvígður í þrískiptingu valdsins eða sjálfstæði stofnana og einstakra eininga í ríkinu – í því efni hefur hann samt ekki alveg rangt fyrir sér.

Látum þetta nægja, meðfylgjandi í fyrsta kommenti er tengill í nýjasta innlegg hans. Nú er hann tvílráður – sér að Trump mun ekki fara að tillögum hans.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation