Umferðin eykst með sjálfkeyrandi bílum (18.04.2019)

Texti greinar sem birtist í Kjarnanum.

—–

Fyrir nokkrum dögum birt­ist í Kjarn­anum grein eftir Jennýju Ruth Hrafns­dóttur verk­fræð­ing og vil ég bregð­ast við henni. Það er vegna þess að skoð­anir og fram­tíð­ar­sýn í grein­inni eru útbreiddar í tækni­sam­fé­lag­inu – og af því að ég var í því sam­fé­lagi um ára­tuga skeið og hef margoft séð vænt­ingar um að tækninýj­ungar breyti heim­inum – sem þær svo gera ekki, að minnsta kosti ekki á þann hátt sem ráð var fyrir gert.

Það er í raun­inni svo að ferða­máti sam­tím­ans er „eft­ir­spurn­ar­drif­inn“ eins og Jenný Ruth kýs að kalla aðstæður fram­tíð­ar. Það er því ekk­ert nýtt. Engin ferð er farin nema þörf beri til. Ef sjálf­keyr­andi bílar koma til sög­unnar munu þeir ekki minnka þá eft­ir­spurn, jafn­vel auka hana. Þeir munu þó einkum auka umferð af því að sá akstur bíla sem bæt­ist við þegar þeir eru tómir er við­bót­ar­um­ferð. Þetta er raunar „no-brainer“. Það er raun­veru­lega svo að öll þau bíla­stæði sem nú eru til staðar draga úr umferð og sjá til þess að engin óþarfa umferð eigi sér stað. Þessu eru sölu­menn jákvæðra áhrifa sjálf­keyr­andi bíls­ins farnir að játa og kom nýlega fram að í Seattle er gert ráð fyrir 20-30% aukn­ingu umferðar með til­komu sjálf­keyr­andi bíla. Sjálf­keyr­andi bílar gætu myndað nýjan topp í til­beiðslu mann­kyns­ins á bíl­um, sem kannski kemur á óvart.

Annað atriði sem Jenný Ruth reiknar ekki með er það gríð­ar­lega land­rýni sem umferðin tek­ur. Nú er talið að um 50% af borg­ar­landi Reykja­víkur fari undir umferð­ar­mann­virki og tengd svæði. Hér er um að ræða gríð­ar­leg verð­mæti sem er sóað á alt­ari einka­bíls­ins. Óhjá­kvæmi­lega verður haldið áfram á þess­ari braut eftir því sem bíla­um­ferð eykst, jafn­vel þótt almenn­ings­sam­göngur bygg­ist upp. Þær þurfa að taka hlut­falls­lega mikið meira af umferð þegar sjálf­keyr­andi bílar koma til en nú er – en aðeins þannig er hægt að minnka land­rými fyrir umferð.

Jenný Ruth nefnir ýmis dæmi um til­raunir sem verið er að gera hér og þar í heim­inum og staldra ég einkum við eina þeirra sem er dæmið frá Man­hatt­an. Þar hefur verið hannað módel sem hermir eftir umferð um borg­ina og getur fækkað bílum með „samnýt­ingu bíl­ferða“. Samnýt­ing bíl­ferða er eina sjón­ar­mið þeirra sem telja að sjálf­keyr­andi bílar muni breyta ferða­venjum sem gæti raun­veru­lega gert það. En verra er að samnýt­ing bíl­ferða hef­ur:

(i) Ekk­ert með sjálf­keyr­andi bíla að gera, það er breyt­ing sem hægt er að gera í dag ef áhugi er á. Eng­inn slíkur áhugi er fyrir hendi – hvorki hjá þeim sem taka leigu­bíla og því síður hjá þeim sem nota einka­bíl. Ég hvet Jennýju Ruth og aðra hug­sjóna­menn að prófa að skipu­leggja samnýt­ingu bíl­ferða til og frá Graf­ar­vog­inum og minnka þannig umferð á anna­tím­um.

(ii) Annað atriði er að samnýt­ing þarf að vera nokkuð mikil áður en hún dregur úr umferð þegar bílar verða sjálf­keyr­andi. Um leið og bíll fer að keyra far­þega­laus um göt­urnar skapar hann aukna umferð eins og áður seg­ir. Ef öll umferð færi fram á samnýttum sjálf­keyr­andi bílum – nú eru 1,1 far­þegi í bíl – þurfa allt að 2,2 að vera að jafn­aði í bíl til þess að jafn mikil umferð sé og er nú. Þá er átt við að bíl­arnir keyri tómir til baka til að sækja nýja far­þega sem sinna erindum á öðrum tíma en hinir fyrri.

Þá nefnir Jenný Ruth ekki annað sem sölu­menn nýrra hug­mynda um sjálf­keyr­andi bíla nefna oft, það er samnýt­ing bíla, sem þýðir að ein­stak­lingar eiga ekki bíla, heldur félög og þeir eru samnýttir af mörgum – ruglum þessu ekki saman við samnýt­ingu bíl­ferða. Það getur verið þjóð­fé­lags­lega hag­kvæmt að bílar séu betur nýttir en nú er og að þeim fækki eða fjölgi alla vega ekki – en minnkar senni­lega ekki umferð. Nema annað komi til og þá ég við að sam­eig­in­legir bílar auki eft­ir­spurn eftir almenn­ings­sam­göng­um. Samnýt­ing bíla getur minnkað þörf fyrir bíla­stæði. Þessi fram­tíð­ar­sýn dregur ekki úr þörf fyrir almenn­ings­sam­göngur – verði hún að veru­leika.

Að lokum vil ég hvetja Reykja­vík­ur­borg og sveit­ar­fé­lögin fimm í nágrenni hennar til að flýta upp­bygg­ingu almenn­ings­sam­gangna. Mikil og upp­söfnuð þörf er fyrir hendi og fer ein­ungis vax­andi.