Texti greinar sem birtist í Kjarnanum.
—–
Fyrir nokkrum dögum birtist í Kjarnanum grein eftir Jennýju Ruth Hrafnsdóttur verkfræðing og vil ég bregðast við henni. Það er vegna þess að skoðanir og framtíðarsýn í greininni eru útbreiddar í tæknisamfélaginu – og af því að ég var í því samfélagi um áratuga skeið og hef margoft séð væntingar um að tækninýjungar breyti heiminum – sem þær svo gera ekki, að minnsta kosti ekki á þann hátt sem ráð var fyrir gert.
Það er í rauninni svo að ferðamáti samtímans er „eftirspurnardrifinn“ eins og Jenný Ruth kýs að kalla aðstæður framtíðar. Það er því ekkert nýtt. Engin ferð er farin nema þörf beri til. Ef sjálfkeyrandi bílar koma til sögunnar munu þeir ekki minnka þá eftirspurn, jafnvel auka hana. Þeir munu þó einkum auka umferð af því að sá akstur bíla sem bætist við þegar þeir eru tómir er viðbótarumferð. Þetta er raunar „no-brainer“. Það er raunverulega svo að öll þau bílastæði sem nú eru til staðar draga úr umferð og sjá til þess að engin óþarfa umferð eigi sér stað. Þessu eru sölumenn jákvæðra áhrifa sjálfkeyrandi bílsins farnir að játa og kom nýlega fram að í Seattle er gert ráð fyrir 20-30% aukningu umferðar með tilkomu sjálfkeyrandi bíla. Sjálfkeyrandi bílar gætu myndað nýjan topp í tilbeiðslu mannkynsins á bílum, sem kannski kemur á óvart.
Annað atriði sem Jenný Ruth reiknar ekki með er það gríðarlega landrýni sem umferðin tekur. Nú er talið að um 50% af borgarlandi Reykjavíkur fari undir umferðarmannvirki og tengd svæði. Hér er um að ræða gríðarleg verðmæti sem er sóað á altari einkabílsins. Óhjákvæmilega verður haldið áfram á þessari braut eftir því sem bílaumferð eykst, jafnvel þótt almenningssamgöngur byggist upp. Þær þurfa að taka hlutfallslega mikið meira af umferð þegar sjálfkeyrandi bílar koma til en nú er – en aðeins þannig er hægt að minnka landrými fyrir umferð.
Jenný Ruth nefnir ýmis dæmi um tilraunir sem verið er að gera hér og þar í heiminum og staldra ég einkum við eina þeirra sem er dæmið frá Manhattan. Þar hefur verið hannað módel sem hermir eftir umferð um borgina og getur fækkað bílum með „samnýtingu bílferða“. Samnýting bílferða er eina sjónarmið þeirra sem telja að sjálfkeyrandi bílar muni breyta ferðavenjum sem gæti raunverulega gert það. En verra er að samnýting bílferða hefur:
(i) Ekkert með sjálfkeyrandi bíla að gera, það er breyting sem hægt er að gera í dag ef áhugi er á. Enginn slíkur áhugi er fyrir hendi – hvorki hjá þeim sem taka leigubíla og því síður hjá þeim sem nota einkabíl. Ég hvet Jennýju Ruth og aðra hugsjónamenn að prófa að skipuleggja samnýtingu bílferða til og frá Grafarvoginum og minnka þannig umferð á annatímum.
(ii) Annað atriði er að samnýting þarf að vera nokkuð mikil áður en hún dregur úr umferð þegar bílar verða sjálfkeyrandi. Um leið og bíll fer að keyra farþegalaus um göturnar skapar hann aukna umferð eins og áður segir. Ef öll umferð færi fram á samnýttum sjálfkeyrandi bílum – nú eru 1,1 farþegi í bíl – þurfa allt að 2,2 að vera að jafnaði í bíl til þess að jafn mikil umferð sé og er nú. Þá er átt við að bílarnir keyri tómir til baka til að sækja nýja farþega sem sinna erindum á öðrum tíma en hinir fyrri.
Þá nefnir Jenný Ruth ekki annað sem sölumenn nýrra hugmynda um sjálfkeyrandi bíla nefna oft, það er samnýting bíla, sem þýðir að einstaklingar eiga ekki bíla, heldur félög og þeir eru samnýttir af mörgum – ruglum þessu ekki saman við samnýtingu bílferða. Það getur verið þjóðfélagslega hagkvæmt að bílar séu betur nýttir en nú er og að þeim fækki eða fjölgi alla vega ekki – en minnkar sennilega ekki umferð. Nema annað komi til og þá ég við að sameiginlegir bílar auki eftirspurn eftir almenningssamgöngum. Samnýting bíla getur minnkað þörf fyrir bílastæði. Þessi framtíðarsýn dregur ekki úr þörf fyrir almenningssamgöngur – verði hún að veruleika.
Að lokum vil ég hvetja Reykjavíkurborg og sveitarfélögin fimm í nágrenni hennar til að flýta uppbyggingu almenningssamgangna. Mikil og uppsöfnuð þörf er fyrir hendi og fer einungis vaxandi.