(Sagan birtist í vorhefti Tímarits Máls og menningar 2024.)
I
Þetta var um miðjan júlí og það hellirigndi í hlýindum og logni. Ég mætti allt of snemma til athafnarinnar eins og mér hættir til; mér finnst betra að bíða en að lenda í stressi á síðustu stundu ‒ og var einn í kirkjunni. Mikið geta kirkjur á Íslandi annars verið tómlegar, sérstaklega steinkirkjur, og Fossvogskirkja er ekki undantekning í því efni þótt stílhrein sé. Það er helst ef þær eru mjög vel teiknaðar og byggingin sjálf er listaverk að gesti finnst hann ekki í kölkuðum sláturhússal. Ég felldi regnhlífina og gekk að kistunni sem stóð á svartri rennibraut.
Aðdragandinn hafði verið stuttur. Faðir minn datt og fékk slæmt höfuðhögg, nýkominn á hjúkrunarheimilið og fjórum dögum síðar var hann allur; hann komst að sögn ekki til meðvitundar en var af og til með hljóðum vegna kvala í höfðinu og fékk þá verkjastillandi. Hann var á tíræðisaldri og sumum fannst nóg komið, en ég vissi að hann var ekki í þeim hópi. Þetta kom illa við mig, sérstaklega að þurfa að undirbúa jarðarför með systkinum mínum, sem mig grunaði að myndi reyna á. Fljótlega var ákveðið að þetta yrði bálför. Systkinin komu öll til höfuðborgarinnar og það voru haldnir nokkrir fundir og mörg símtöl fóru fram.
Allt gekk vel í fyrstu. Allir haga sér vel þegar dauðinn bankar upp á. Smám saman fór fólk þó að sýna hvert það var, tala opinskárra og rifja upp gamlar misgjörðir og fjölskylduágreining. Ég hélt mér meira og meira til hlés. Það var liðin rúm hálf öld síðan upphafstilefni fjölskylduerjanna átti sér stað, og ég var viðstaddur endapunktinn á langri atburðarás. Það var þegar faðir minn neitaði að taka við búi af móðurafa á móðurarfleiðinni. Þetta var árið 1968 á jóladagskvöldi í sveitinni.
Móðir mín var lengi að fyrirgefa honum, gerði það kannski aldrei alveg, og við systkinin drógumst í dilka eftir því hvort við fylgdum föður okkar að máli eða móður. Ég fylgdi móður minni, og þótt mér væri ljóst að það síðasta sem faðir minn gæti gert væri að búa, sjómaðurinn, þá var ég á sextánda ári og gæti fljótlega tekið við og til þess stóð hugur minn. Ég var skírður eftir afa mínum og rætt hafði verið um að nafni hans í hópi afkomenda fengi jörðina.
Ég held að systkini mín hafi aldrei vitað af þessu tilefni eða hvernig ég tengdist því, jafnvel ekki skilið til fulls um hvað misklíð foreldra minna snerist, en faðir minn vissi hvað klukkan sló og gerði hvaðeina sem hann gat til að hindra samgang minn við móður mína þannig að ekki kæmi til samblásturs gegn honum. Fjölskylduerjur snúast annars ekki um tilefni þegar frá líður, heldur lúta þær eigin lögmálum.
Í framhaldi af þessum jólaatburði hófst löng atburðarás með ýmsum hnippingum framan af, en meiri gerningum þegar á leið og ný og hvatvísari kynslóð systkina minna óx úr grasi – og enn virtist hægt að blása í þessar glæður.
Segja má að tvennt hafi valdið því að upp úr sauð núna. Annars vegar spurningin um hvar jarða ætti föður okkar og hins vegar hvaða tónlist ætti að flytja við athöfnina. Ég taldi rétt að jarðsyngja hann fyrir norðan í sóknarkirkju sveitarinnar og jarðsetja hann við hlið mömmu, við höfðalagið á móðurömmu og móðurafa og syngja sálma við athöfnina, en faðir okkar var trúaður.
En aðrir höfðu á því stórar skoðanir að hann ætti að hvíla fyrir sunnan, enda hefði honum verið illa við sveitina og því yrði ekki við komið að jarðsyngja hann í hinni afskekktu æskubyggð hans – og að syngja ætti við athöfnina sjómannalög frá því hann var ungur, enda væri ekki um sorgaratburð að ræða þegar maður á tíræðisaldri félli frá. Ég dró að sjálfsögðu í land, en varla nógu fljótt, því ég fékk holskeflu yfir mig um andúð mína á bræðrum mínum sem voru hallir undir dægurlög og höfðu einu sinni stofnað hljómsveit – og gott ef annar þeirra taldi sig ekki Elvis Presley endurborinn og hinn Elton John. En auðvitað vildi ég hlýða á leiðinlega tónlist sögðu þeir, til að sýna að ég væri yfir aðra hafinn.
II
Allt í einu langaði mig til að sjá föður minn í síðasta skipti. Ég hafði að vísu verið við kistulagninguna, kvatt hann og verið sáttur. En ég var einn og gæti látið þetta eftir mér. Kistan var skrúfuð aftur með vængjuðum róm með krómáferð, sem ekki voru fastari en svo að ég gat losað þær án verkfæra og skrúfgangurinn var stuttur. Eftir smástund færði ég lokið til þannig að ég sæi niður að höfðalaginu. Hvít sæng lá á yfirborðinu. Ég tók hana til hliðar. Þá blasti við koddi. Ég lyfti koddanum, og undir honum var annar koddi. Þá skásetti ég lokið enn meira og lét það renna niður af kistunni og koma standandi á gólfið. Það var þungt. Ég dró sængina alveg til hliðar og þá blasti við timburbunki, 1,5×4 plankar, nálægt því að vera hálfur annar metri að lengd. Ég rótaði aðeins í timbrinu. Þetta voru þó nokkrar spýtur og það var ekkert undir þeim.
Mér var verulega brugðið, leit flóttalega í kringum mig, breiddi sængina aftur yfir, lyfti lokinu á með erfiðismunum og skrúfaði rærnar fastar. Síðan fékk ég bakþanka, opnaði kistuna aftur og tók mynd með dagsetningu og tíma af innihaldinu, lokaði henni aftur og gekk hröðum skrefum út. Það hafði enginn séð mig. Reykjandi útfararstjórinn hafði að vísu komið í millitíðinni, hann stóð undir skyggninu og virtist varla vaknaður. Þetta mátti samt ekki tæpara standa.
Nú þurfti að taka skjóta ákvörðun. Átti ég að stöðva athöfnina, sýna öllum plankana, þessa ágætu furu, sennilega frá Finnlandi eða Rússlandi, og hindra að henni yrði brennt með öllu tilheyrandi, sett í krukku og askan af henni grafin í fjölskyldugrafreit eins af systkinum föður míns neðar í hlíðinni?
Ég hef aldrei verið fljótur að taka ákvarðanir og því síður fljótur að hugsa. Eiginlega finnst mér best að hugsa öll mál að minnsta kosti yfir nótt og draga ákvörðunina, jafnvel þangað til ekki þarf að taka hana yfirhöfuð. Það er ekki bara að ég sé stundvís og komi allt of snemma á fundi og stefnumót, heldur þarf ég góðan fyrirvara að öllu.
Ég vil hafa fyrirvara, skoða í tölvuna, leita á netinu, undirbúa mig, velta því fyrir mér hvað ég segi, og hvað líklegt er að hinir segi, og koma betur undirbúinn til fundar en aðrir. Þannig getur maður best haldið aftur af fljótræði og hugsunarleysi. Ef út í það er farið hefur það hentað mér vel að vera opinber starfsmaður. Þeir mega ekki taka ákvörðun í fljótræði.
III
Fyrsta hugsun mín var að segja frá því hvernig komið var. Ég gæti opnað kistuna og tekið sængina frá þannig að allir sæju það í sjónhendingu. Ég myndi standa við höfðalagið, kalla á þá sem birtust í dyrunum og biðja þá að skoða ofan í kistuna. Sá fyrsti myndi sjálfsagt hika, hefði ekki ætlað sér að skoða líkið, allt slíkt var afstaðið, en kæmi svo með semingi, sæi timbrið og gengi vantrúaður í kringum kistuna.
‒ Jú, þetta er óvenjuleg uppákoma, ekki getum við haldið bálför yfir þessu.
En þá væri komið að systkinum mínum. Þau yrðu erfiðust og sennilega stutt í tortryggnina. Ég yrði að reikna með því. Þau yrðu í fyrstu slegin og segðu ekki margt. Þegar þau væru öll komin í kapelluna myndu þau sennilega þrengja að mér og krefja mig skýringa. Það hæfist með því að eldri systirin, hún var fljótari en hin, færi að ræskja sig og skáskjóta augunum – þá byrjaði ballið. Hún liti tortryggnisaugum í átt til hinna systkinanna meðan hún hallaði sér upp að mér og segði lágt, en þó nógu hátt til að hin heyrðu það:
‒ Hvað hefurðu gert við líkið?
Kannski mundi hún ætla sér að vera fyndin á minn kostnað og fá prik hjá systkinunum fyrir vikið. En þegar orðin væru farin frá henni og stæðu augnablik kyrr í rýminu yrði henni ljóst að þau voru kannski ekki spaug. Var mér ekki til alls trúandi? Og þótt hin systkinin yrðu mislengi að melta orðin tækju þau þessu ekki heldur sem gamni.
Þannig mætti í fyllingu tímans sjá svipinn harðna á yngri bróðurnum sem taldi sig varðhund systur sinnar, og bros kæmi á þann eldri, það yrði fyrsta bros rykaðs manns á þessum erfiða morgni; loksins var eitthvað gaman að öllu þessu andlátsstússi, en yngri systirin kveikti ekki strax.
Það hefur alltaf verið mér byrði gagnvart systkinum mínum, og valdið andstöðu þeirra gagnvart mér, að ég fór menntaveginn – í því efni renna saman fyrirlitning föður míns á menntamönnum og andstaða hans og tilraunir til að hindra að ég færi þessa leið, og hitt, að ekkert þeirra varð lengri menntunar aðnjótandi. Ég hef sennilega fengið tækifæri sem ekki stóð þeim til boða.
Þetta hefur í rauninni leitt til útilokunar af þeirra hálfu. Smám saman hefur myndast andrúmsloft tortryggni í minn garð. Er hann ekki að blekkja okkur? – og ekki síst; er hann ekki að blekkja mig! Í rauninni virðast þau líta svo á að ég standi þeim langtum framar að atgervi og völdum með þeim hætti að ég fjarstýri öðru fólki með klókindum, búi til atburði og setji upp sviðsmyndir sem koma þeim illa, eða til að sanna mitt mál.
Vissulega hef ég oft reynt að koma þeim á rétt spor í lífinu eða reisa þau við – og hef með rökum reynt að girða fyrir vitleysisverk, hindra atburði sem niðurlægðu fjölskylduna, koma í veg fyrir beinan róg um móður okkar og beina systkinum mínum á annan hátt á farsælar brautir í lífinu, en þetta var einkum þegar við vorum yngri. Yfirleitt hafði ég ekki erindi sem erfiði.
En auðvitað hafði ég stundum séð afleiðingar ákveðinna ákvarðana fyrir þegar þær blöstu nokkurn veginn við og þá gat þessi hugmynd komið upp að ég hefði orðið valdur að þeim. Þegar frá leið gilti í rauninni einu hvað ég sagði eða aðhafðist þeim til stuðnings, því var mætt með tortryggni.
Eldri systirin myndi leiða sóknina þegar hún yrði búin að leggja málið fyrir sig. Hún færi sér hægt, yrði út undir sig, talaði lágt, en yrði nokkuð niðri fyrir.
‒ Hefurðu stolið líkinu og farið með það norður? Ætlarðu að jarðsyngja það án okkar vitundar? Með sálmasöng?
Ég myndi kannski segja að ef svo væri hefði ég ekki opnað kistuna. Það að brenna timbrið væri þá lykilatriði í blekkingunni og gæfi mér og mínu plotti frítt spil. En ég kæmist ekki að og það skipti ekki máli. Þessar samræður lytu ekki lögmálum rökhyggju.
Nú bæri að yngri bróðurinn sem alltaf var foringi þegar illindi komu upp. Ofbeldi hafði verið tungumál hans frá æsku, og sennilega eina úrræði hans til að sannfæra aðra. Hans tjáning yrði skyndileg árás. Hann myndi hrinda mér, taka mig síðan hálstaki, en ekki snúa mig alveg niður. Heldur gengi hann um kapellugólfið með mig undir hendinni, eins og hann átti vanda til og hrópaði:
‒ Segðu mér hvað þú hefur gert við líkið af pabba mínum, ófétið þitt. Geðveiki brjálæðingurinn þinn, enn einu sinni stingurðu rýtingi í bakið á mér. Þetta skaltu fá borgað!
Þegar hér yrði komið sögu myndu fleiri vera mættir, ekki margir, því faðir minn þekkti fáa fyrir sunnan, en nokkra sem höfðu svikið uppruna sinn með því að flytja á mölina. Og það yrði uppnám í salnum, skelfing meðal flestra, undrun meðal annarra og eldri taugabiluð frænka færi að gráta. Afskiptasamir karlar, sem höfðu áður fyrr haft gaman af slagsmálum á sveitaböllum, rykju upp til að losa bróður minn af mér.
En þá bæri annað við. Yngri systirin segði hátt og skýrt:
‒ Hvar er pabbi?
Þetta var auðvitað kjarni málsins. Reyndar hafði eldri systirin vikið að þessu atriði með því að telja líkið á norðurleið, en ekki á þennan afdráttarlausa og skýra hátt. Yngri systirin var oftast lengi að melta hlutina, en fór aldrei langt frá kjarna hvers máls. Hún var á ákveðinn hátt grundvallarmanneskja. Á morgun þegar hún hefði hugsað sig betur um myndi hún skrifa á Facebook á sinn kjarnyrta hátt: „Lík pabba míns er týnt. Bróðir minn stal því og setti spýtur í staðinn. Hann er djöfull í mannsmynd“. Og hún fengi mörg og greinargóð svör.
Spurningin um hvar líkið væri niður komið myndi skera loftið eins og hnífur. Spurning sem ég sæti uppi með og yrði ekki svarað á kapellugólfinu. Líkið hafði farið frá hjúkrunarheimilinu í líkhúsið í Fossvogi, þaðan í kapelluna við kistulagninguna, síðan til baka í líkhúsið og að lokum kom það aftur í kirkjuna. Kistunni hafði verið ekið milli húsanna, líkhúsið var sambyggt kapellunni. Ljóst var að líkið hafði horfið á þessum tveimur dögum og það hafði horfið úr líkhúsinu, annaðhvort út um líkhúsdyrnar eða um kapelluna.
Því næst myndi allur hópurinn mæta á skrifstofu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma ásamt útfararstjóranum. Til að hitta framkvæmdarstjórann. Ég myndi kynna mig og segði svo:
‒ Ég hef ástæðu til að ætla að glatast hafi lík hjá ykkur á umliðinni hálfri viku.
Það kæmi væntanlega hik á framkvæmdastjórann, nema þetta kæmi af og til upp á og honum væri vel kunnugt um alla málavöxtu, en svo kæmi svarið:
‒ Nei, það passar ekki. Við höfum mjög gott eftirlitskerfi, ekki síst til að tryggja að rétt lík sé í hverri kistu og rétt kista berist á réttan stað. Ég get ekki ímyndað mér hvernig svona lagað ætti að geta gerst.
‒ Þetta vissi ég allan tímann, segði yngri bróðurinn, hér hefur annað og alvarlegra gerst.
Við myndum ræða þetta lítilsháttar áfram og að lokum gæfi embættismaður kirkjugarðanna sig þegar ég sýndi honum myndina. Áður hafði hann, í nauðvörn, verið búinn að bjóða mér tengla á vefsíður fyrir fólk sem á í erfiðleikum með raunveruleikann. Í ljós kæmi að ekki voru eftirlitsmyndavélar í kapellunni eða líkhúsinu, þetta voru gömul hús og stofnunin hafði verið í fjársvelti í tíu ár.
Og nú hefði framkvæmdarstjórinn breytt um fas. Hann væri kominn í fjársveltisgír opinberra starfsmanna. Háværar deilur stæðu um hvort einkavæða ætti þjónustuna með tilheyrandi hækkun gjaldskrár. En allavega væri brýn þörf á endurnýjun líkhússins og bálstofunnar. Eftir þennan útúrdúr myndi hann svo hafa náð vopnum sínum og sjálfstraustið kæmi aðvífandi þegar hann segði:
‒ Myndin er sennilega fótósjoppuð.
En þá væri komið að eldri bróðurnum. Hann hefði lyfst allur og segði glaðhlakkalega og mætti sjá að hann skemmti sér vel og væri við það að gleyma timburmönnunum:
‒ Við erum hér með líkstuld. Enginn vafi er á því hver ætlar að nota líkið sér til framdráttar og til að ná sér niður á okkur hinum. Hvað vitum við um hættulegan huga?
Þar með væri málið komið í nýjan farveg. Yngri bróðirinn hrópaði upp yfir sig.
‒ Sakamál, sakamál! Hringið á lögregluna. Hringið á lögregluna! Ég skal halda honum föstum á meðan.
Svo rakti hann reynslu sína. Svona mál vörðuðu við hegningarlög og þyrftu að kærast innan sex mánaða. Hann vissi af afburðagóðum lögfræðingi, að vísu nokkuð dýrum, en hér dygðu engin vettlingatök. Þessi lögfræðingur hefði verið staðinn að ritstuldi, en eins og allir vissu þyrftu lögfræðingar að hafa verið báðum megin við borðið til að verða afburða góðir, rétt eins og enginn yrði góður bílstjóri nema hann hefði áður valdið árekstri.
Daginn eftir, jafnvel sama dag, myndu bestu blaðamenn landsins birta stórar fyrirsagnir á netmiðlum sínum: „Líki stolið. Hámenntaður líkþjófur plottar með látinn föður“. Síðan yrði viðtal við yngri bróðurinn þar sem hann segði frá fjölskylduharmleiknum, sem væri sá að ég sæti á svikráðum við hann og hin systkinin og hefði stolið líki föður okkar til að jarðsyngja það fyrir norðan, í kirkju sveitasóknarinnar þar sem ég ólst upp, en ekki í sóknarkirkjugarðinum þar sem faðirinn var fæddur – og það yrði sálmasöngur. Allt þetta væri ólöglegt og ég ætti eftir að sitja inni og borga systkinunum háar skaðabætur. Loksins, loksins, kæmi hann fram hefndum. Blaðamaðurinn myndi hvá:
‒ Sálmasöngur?
‒ Já, einmitt, segði bróðir minn, pabbi hefði viljað sjómannalög, en líkþjófurinn vill sálma. Þunga sálma, heimspekilega og drungalega, sem enginn skilur. Pabbi yrði auk þess grafinn meðal fólks sem honum líkaði ekki við.
Þegar frá liði myndu blaðamennirnir fá bakþanka, hringja í mig og spyrja hvort ég vildi ekki bregðast við orðum bróður míns. En ég hefði þá þegar fengið margar hótanir, þar af nokkrar líflátshótanir, og varla mætti æra óstöðugan.
Nema hvað. Ég myndi eiga erfitt með að finna lausn á líkhvarfinu. Ég myndi veigra mér við að tala við varahlutadeild Landspítalans, þótt hún sé á höttunum eftir nothæfum líkamspörtum, eða við kjötiðnaðarstöðvar sem mögulega gætu drýgt skinkuna; hvorugur aðilinn myndi nokkru sinni viðurkenna leynisamning við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma þótt ábatasamur væri fyrir báða aðila, og ekki síst lífsnauðsynlegur fyrir Kirkjugarðana. En þiggjendur líkamsleifanna yrðu sviknir af rýrum karli á tíræðisaldri.
Líkurnar á því að faðir minn hefði sett þetta á svið voru litlar. Hann hafði að vísu neyðst til að fara á hjúkrunarheimilið og undi sér þar illa, og kannski langaði hann til að losna við afskiptasemi yngri bróður míns, sem lét hann ekki í friði og stýrði lífi hans með harðri hendi ‒ að höfðu samráði við eldri systurina, eins og hann réttlætti afskiptin við mig, en hann vissi að ég treysti ekki dómgreind hans og tilvísun í systurina gaf orðum hans og verkum aukna vigt.
Pabbi minn setti ekki margar atburðarásir á svið um ævina, og alls ekki flóknar – en ekki má útiloka að hann hafi langað til að verða sjódauður, gamli sjómaðurinn. Og vissulega hafði hann ekki hug á að hvíla við hlið móður minnar í sveitinni, rétt er það. Ég ætla samt að loka núna á ímyndunaraflið þótt það sé hið eðlilega svar við gátum.
Enginn maður af götunni getur upplýst dularfull mál, það gerist aðeins í skáldsögum. Persónuvernd og önnur mannréttindi hafa þrengt alla rannsóknarmöguleika almennings og nútímatækni hefur úrelt hinar eldri munnlegu rannsóknaraðferðir, sem kenna má við kjaftasöguna, en á sama tíma hefur tæknin gefið lögreglu nýja og öfluga möguleika, hún á leiksviðið þegar kemur að rannsóknum. Það myndi þó sennilega ekki reyna á hana í þessu máli.
IV
En svo var það hinn valkosturinn – að láta eins og ekkert væri og láta bálförina fara fram þegjandi og hljóðalaust. Enginn myndi opna kistuna og ekki liðu nema þrjú korter uns hún yrði að engu. Logarnir breyttu henni í lofttegundir og fínt ryk. Þar með væru sönnunargögnin horfin og ekki yrði staðfest hvað brann. Nema hvað ég hefði eina ljósmynd.
Ég myndi auðvitað líka þjást ef þessi leið yrði farin. Þjást alla ævina vegna hvarfs líksins sem sennilega yrði eilíf ráðgáta, og að sjálfsögðu við bálförina og erfidrykkjuna, en það hafði ég þó undirbúið fyrir komuna hingað – var raunar til þess kominn; þjást undir tónlistinni, undir allri athöfninni og ekki síst við erfið. Var það samt ekki betri valkosturinn, allavega sá sem tæki fyrr af? Auðvitað er ekki gott að þurfa að hitta ættingja sína, en hjá því yrði varla komist og aðrir myndu mögulega njóta sín í erfinu. Ég færi fljótt heim, strax og þeir fyrstu byrjuðu að tínast út, þá ætti ekki að vera hægt að ásaka mig um ræktarleysi. Þessar þjáningar myndu borga sig að lokum. Leið þagnarinnar hefði fæst eftirmál.
Það er merkilegt samband milli heiðarleika og þagnar, samband sem ég hef oft velt fyrir mér. Raunar líka milli lygi og þagnar, en lygin er í sjálfu sér ekki mín deild. Ekki frekar en föðurfrænku minnar sem varð vanheil. Ég vildi fá föður minn til að segja hvað hefði amað að henni og átti von á læknisfræðilegu hugtaki þegar hann sagði eftir langa umhugsun og mikla eftirgangsmuni.
‒ Hún varð of hreinskilin.
Svo ræddi hann málið ekki frekar. Ég taldi mig skilja við hvað hann átti. Þótt ég hafi með hækkandi aldri náð valdi á hreinskilninni var ég lengi þjakaður af heiðarleikanum, að ég nú ekki tali um af sannleikanum, og skapaði mér víða óvild og útilokun vegna þess. Hver vill heyra sannleikann ef út í það er farið? Á tiltölulega langri ævi hefur mér loksins skilist að samræðulist snýst í rauninni um að segja það sem viðmælandinn vill heyra. Það er hið gefandi samtal.
Í mínu tilviki hefur þögnin því sífellt oftar orðið fyrir valinu. Sem yngri maður brann ég fyrir hugsjónum réttlætis og heiðarleika. Ég geri það kannski enn, en meira út af fyrir mig. Ég hef tekið eftir því hvað þeim vegnar mikið betur í lífinu sem segja ekkert. Það má að vísu spyrja sig hvort þeir séu þess megnugir að vinna gegn óréttlæti og ójöfnuði, en þeir eru allavega að bjarga sjálfum sér. Og þá kemur að spurningunni sem svarað er í flugvélum. Þarf maður ekki að bjarga sjálfum sér áður en maður bjargar barninu?
Hversu þungt það myndi hvíla á mér að vita að lík föður míns var horfið vissi ég ekki á þessari stundu. Kannski sigi það í með tímanum.
Það að segja ekki neitt var strangt til tekið ekki að segja satt og heiðarlega frá, því síður var það að vera hreinskilinn, en ekki var þá heldur sagt ósatt. Að þegja er þriðja víddin, það að gera mann hlutlausan í lífinu, kannski næst því að segja pass. Og það var vissulega leið út úr þessu máli, sem þyrfti nánari skoðunar við. Kannski væri hún mest í mínum anda.
V
Þar sem ég beið og velti málinu fyrir mér, á tröppunum, undir skyggninu, sá ég eldri systurina koma. Hún var sem sagt næstfyrst á staðinn, stundvís eins og ég, en þó ekki alveg eins stundvís. Rigningin og bleytan gáfu trjám, stígum og leiðum glansandi áferð og mögnuðu litina upp. Mikið var þetta fallegur dagur og vel valinn til að syrgja og rifja upp góðar minningar. Logn og rigning, svart malbik, grænt gras og regnhlífar! Ætti maður að fara að fórna honum á altari hreinskilni?
Ég hafði ekki lengri tíma til ákvarðanatöku. Ef ég hefði verið yngri hefði ég leitt systur mína að kistunni og sýnt henni hvernig var. Og tekið afleiðingunum með hvítþveginni samvisku. En nú var ég eldri og hafði marga hildina háð í fjölskylduerjum, og löngun mín til að lifa kyrrlátu lífi án mikilla fjölskyldusamskipta hafði vaxið. Hvað hefði pabbi annars viljað? Kannski bara að systkinin lifðu í sátt.
Systir mín var brosleit og við heilsuðumst, gengum síðan inn og tókum á leiðinni við útfararskránni úr höndum útfararstjórans, sem hafði stillt sér upp í innri dyrunum. Við settumst á fremsta bekk, hún nær ganginum, og í langdregnu framhaldinu tíndust gestirnir í kirkjuna. Svo hófst tónlistarflutningurinn. Sipp og hoj ómaði meðan við biðum eftir að athöfnin hæfist, söngvarinn var rámur og illa fyrir kallaður, frægur flagari í dægurlagasöngvarastétt. Ég þoli ekki dægurlagatónlist og leið illa. „Nýja í næstu höfn“ átti kannski ekki alveg við hinn siðprúða föður okkar. Hugleiðingar um æðri tilgang lífsins kæmu varla upp í hugann í þessari athöfn og þvæld barstemning tókst á við helgi umhverfisins.
Hin systkinin komu í fyrirsjáanlegri tímaröð, eldri bróðirinn síðastur, og þau settust á fremsta bekkinn hjá okkur. Þau höfðu haft sitt fram og allur krytur var greinilega gleymdur. Frá altarinu mátti sjá fallega uppstillingu á fremsta bekk, myndarlegan og vel búinn systkinahóp fylgja föður sínum síðustu skrefin. Birta eindrægninnar lýsti allt upp.
Brátt hæfist athöfnin og í framhaldinu yrði kistunni rennt inn í eldinn. Ég velti því fyrir mér hvort ég myndi þekkja hvítgula logana af furunni frá dekkri logunum af harðviðarkistunni.