Inngangur bókarinnar Mín eigin lög

Vinnubrögðin á Alþingi eru oft gagnrýnd, af ýmsum ástæðum og af misalvarlegu tilefni. Til að gera sér betur grein fyrir því hvað hæft er í slíkri gagnrýnii má líta til stað­reynd­rar þekkingar, því ýmsir fræði­menn hafa skrifað um þetta efni.

Framan af öldinni rannsakaði dr. Gunnar Helgi Kristinsson eink­um störf Alþingis. Síðan tók höf­undur þessarar bókar við; enda öllum hnútum kunnugur um verklag Al­þing­is eftir tiltölulega langan starfsaldur sem yfirmaður tölvumála þess. Aðrir hafa rannsakað Alþingi í minna mæli, en margir helstu fræði­­­menn í stjórn­­málafræði og í lögfræði hafa þó ritað um störf Al­þing­is.

Í þessum rannsóknum hefur komið í ljós að stefnu­mótun við undirbúning lagafrumvarpa geti verið og sé á stundum ábóta­vant, ekki síst í samanburði við hin norrænu þjóðþingin (Gunnar Helgi Kristinsson, 2013). Sjálfur benti ég á (2016) að málþóf og veikt skipulag í þingstörfum gæti haft áhrif á gæði lagasetningar, með þeim afleiðingum meðal annars að Alþingi þarf oft að breyta nýsettum lögum, sem virðist óþekkt í nágranna­ríkj­un­um. Í bók minni Um Alþingi. Hver kennir kennaranum? (2019) gerði ég meðal annars að umtalsefni kröfur stjórnarskrár um þrjár meðferðir lagafrum­varpa. Einnig ræddi ég um það hvort þingnefnd gæti verið flutnings­aðili lagafrumvarpa. Auk þessa var í bókinni gerð grein fyrir nýrri þekkingu sem lesa mátti úr gögnum í gagnagrunnum Alþingis.

Hér verður einkum fjallað um fyrirmælin sem stjórnarskrá gefur Alþingi um gæði lagasetningar. Þau leggja útlínur ófrávíkjanlegs ramma um máls­með­ferð frumvarpa. Þessi rammi var mótaður og skráður í dönsku stjórnarskrána við mynd­un lýð­ræðisstjórnarfars í Danmörku og í hina íslensku þegar Alþingi fékk löggjafarvald. Ákvæð­­in sem skoðuð eru hafa ekki breyst efnislega frá upphafi. Vinnu­brögð bæði Alþingis og danska þingsins hafa hins vegar þróast nokkuð með breyt­­ing­um á þingsköpum.

Lýðræðislegum stjórn­ar­skrám er ætlað að tak­marka möguleika pólitísks valds til að sitja yfir hlut almennings, og sérstaklega þó þeim sem standar veikt. Í hinni vestur- og norðurevrópsku stjórn­­ar­skrá Íslands er valddreifing eða valdtemprun megin­­­­­þátta ríkis­kerfisins eitt helsta aðal­atriði stjórnskip­un­ar­inn­ar. Það markmið beinist einnig að löggjafar­vald­inu. Önnur megin­mark­mið stjórnarskrár eru að skapa stöðugleika við stjórn ríkisins og samræmi, til dæmis í samskiptum aðila. Upphafleg fyrirmæli geta hins vegar dofnað í hinu stofnanalega minni.

Í stjórnarskránni er með beinum hætti gerð gæðakrafa um laga­gerð. Mælt er fyrir um þrjár meðferðir (sem á íslensku þingmáli eru kallaðar umræður) sérhvers lagafrumvarps áður en það verður að lögum, og er það gert í 44. grein stjórnar­skrárinnar í núverandi gerð (lög nr. 33/1944). Í þessari bók er fjallað um þessa gæða­kröfu og þau málefni sem henni tengjast helst. Um þessi atriði gilda eftirfarandi ákvæði:

  • Ekkert lagafrumvarp má samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi (44. gr.).
  • Rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana hafa alþingismenn og ráðherrar (38. gr.).
  • Eigi getur Alþingi gert samþykkt um mál nema meira en helmingur þingmanna sé á fundi og taki þátt í atkvæðagreiðslu (53. gr.).

Hér við bætist sú meginregla stjórnarskrár að valdið eigi uppruna sinn hjá fólkinu – það komi ekki frá guðlegum mætti eða þjóðhöfðingjanum ‒ sem er sjálfur grundvöllur lýðræðisins. Frjálsar kosningar hvíla á þessum 200-250 ára gamla skilningi. Í bókinni verður talað um að valdið komi frá fólkinu ‒ almenningi og fulltrúum hans (til dæmis félaga- og hagsmuna­sam­tök­um), sem vísar til grunnhugsmíðar­innar, en nákvæm­ara væri kannski að segja að valdið komi frá kjósendum. Allur gangur hefur verið á því þessar aldir hverjir hafa haft kosningarrétt, oft aðeins lítill hluti almennings. Nýbúar og unglingar hafa hann til dæmis ekki nú á Íslandi, og aðrir skertan rétt.

Eins og þessi ofanrituð fjögur atriði bera með sér er fókus bókarinnar til­tölu­­lega þröng­ur. Ekki er rætt almennt um vinnubrögð á Alþingi, heldur aðeins um þá ferla sem snúa að lagagerð.

Fyrsta stjórnarskráin í Danmörku, frá 1849, skiptir meginmáli fyrir störf Alþingis, sem sjálft lagði í stjórnskipunartillögum sínum frá 1867 alla áherslu á að taka hið danska þingkerfi upp óbreytt, sem gekk eftir í stjórnarskránni 1874. Ákvæðið um þrjár meðferðir hefur staðið efnislega óbreytt í stjórn­ar­skrá Íslands frá upphaflegu stjórnarskránni frá 1874, þótt orðalags­breyt­ingar hafi verið gerðar. Þetta ákvæði var í hinni upphaflegu stjórn­ar­skrá Danmerkur 1849 og hefur einnig staðið efnislega óbreytt í dönsku stjórnarskránni síðan.

Rannsakað er hvort núverandi framkvæmd stjórnarskrárákvæðanna hjá Alþingi, einkum ákvæðisins um þrjár meðferðir, eigi sér traustar stoðir í þeim litlu útskýringum sem veittar voru við samþykkt þessara ákvæða í upphafi, og hvað þau þýða í reynd nú á tímum; hvaða kröfur gerir stjórnarskráin til lagasetningar? Var gerð grein fyrir túlkun þessara ákvæða í greinargerð með upphaf­legu stjórnar­skrár­frum­vörpunum, í nefnd­ar­álit­um eða í ræðum þing­manna? Þessi rann­sókn er meðal annars heimildavinna og af henni eru dreg­nar ákveð­nar ályktanir og sett fram ýmis sjónarmið.

Það eru hins vegar dómstólar sem fella hina endanlegu dóma um það hvort framkvæmd lagagerðar stenst kröfur stjórnarskrár um málsmeðferð. Felli þeir slíka dóma geta þingin í framhaldinu breytt eigin lög­um og reglum. Í Dan­mörku dæmdi Hæstiréttur um starfs­hætti þingsins á árinu 1966, en íslenskir dómstólar hafa ekki tekist á við slík mál. Þeir hafa hins vegar oft tekist á við það hvort lög standist stjórnar­skrár­ákvæði efnislega, hafi stjórnarskrárfestu, eins og það er kallað.

Spurningin um hvað felst í ákvæðinu um þrjár meðferðir er aðalefni bókar­innar, og er því haldið fram að hún snúist um gæðamál löggjafarstarfa. Umfjöllunin tekur bæði til beinna fyrirmæla ákvæðisins og ekki síður til hinna óbeinu. Þá er átt við: (i) umræður á þingfundi; (ii) hvernig taka má ákvörðun (atkvæða­greiðsla) eða láta frumvörp daga uppi; (iii) vinnu nefndar við frumvörp; (iv) tímafresti í málsmeðferðinni; og (v) samráð við almenning. Rætt er um gæði lagasetningar og þess freistað að mæla ákveðin atriði sem þau varða.

Bókin er í tveimur hlutum. Hinn fyrri heitir Sagan. Í honum er rakin saga ákvæðanna og sett fram nýtt sjónarmið, að eiginlegt stjórnlagaþing hafi verið haldið á Alþingi 1867 eftir að konungur – eða danska stjórnin – lagði fram fyrsta frumvarpið til íslenskrar stjórnar­skrár. Áður var allajafna talið að Alþingi og Íslendingar hefðu lítið komið að setningu stjórnarskrárinnar 1874, en í rannsókn þessari skýrist að þeir mótuðu ákvæði hennar að eigin vilja – að ósk konungs ‒ á þinginu 1867. Íslendingar fengu ekki innlendan ráðherra en að öðru leyti varð konungur við tillögum Alþingis eins og þær voru orðaðar í ályktunarskjali frá þinginu 1873; hann varð við varatillögu Alþingis. Í henni hafði Alþingi dregið til baka kröfuna um íslenskan ráðherra.

Alþingi vildi að stjórnarskráin yrði nánast eftirrit af dönsku stjórnarskránni. Það átti að tryggja að gæði málsmeðferðar frumvarpa yrðu ekki minni á Alþingi en í danska þinginu, en danska stjórnin efaðist á þessum tíma um getu Alþingis til vandaðrar lagasetningar. Þessu mætti Alþingi með nánast orðrétt sömu stjórnarskránni og Danir, þar á meðal með stofnun tveggja deilda þings, að danskri fyrirmynd, sem tryggði að umræður yrðu ekki færri en sex og atkvæðagreiðslur um breytingartillögur ekki færri en fjórar. Þá var þingmönnum fjölgað úr 27 í 36. Ekki verður annað séð en að fyrrnefnd stjórnar­skrár­ákvæði séu öll ná­kvæm­­lega eins í stjórnarskrám beggja ríkjanna og hafi verið það allan tímann.

Síðari hluti bókarinnar heitir Nútíminn. Í honum er gæðakrafan um þrjár umræður skýrð og í kafla um mælingar þing­starfa brugð­ið upp raunmyndum af starfsháttum þinganna á Íslandi og í Danmörku; Alþing­is og Folke­tinget. Í um­ræðukafla er fram­­kvæmd gæðakröfunnar á Alþingi borin að ljósi for­sendna ákvæð­is­­ins og stjórnskipunarinnar. Í lokin er spurt hver dæmir um það hvort lagasetning hafi farið fram samkvæmt stjórn­ar­­skrárákvæðum.

Bæði Alþingi og Folketinget fylgja meginramma gæðakröfunnar vel eftir í störfum sínum. Á hinn bóginn hafa ákveðin atriði í framkvæmdinni smám saman fjarlægst upphafleg fyrirmæli stjórnarskrárgjafans.

Atkvæðagreiðslur eru samkvæmt stjórnarskrá eina form ákvörðunar­töku sem Alþingi getur notað í meðferðarferli frumvarpa. Engu að síður er frumvörpum hafnað, oftast meirihluta frumvarpa, með því að þau dagar uppi. Þar með þarf að endurflytja þau á öðru þingi. Þegjandi og hljóðalaust eru þau í rauninni felld. Ákvörðun um framgang þeirra virðist tekin í nefndum eða hjá forseta, án þess að þessar stofnanir þingsins hafi heimild til að taka slíka ákvörðun.

Þá er fjallað um þau vinnubrögð þegar nefndir Alþingis semja frumvörp. Þau eru jafnan að fjölda til vel yfir 10% af settum lögum á hverju þingi, en voru nú síðast tæp 13%. Þessi frumvörp ganga sjaldnast til nefndar, fara aldrei í samráð við almenning, fá litla eða enga umræðu á þingfundi og eru stutt fyrir þinginu. Þau fá eðlilega enga faglega vinnslu hjá framkvæmdarvaldinu. Sniðgöngu form- og innihaldskrafna við meðferð nefndarfrumvarpa virðist mega skýra með því að þau séu birtingarmynd samstöðu þingmanna. Þannig virðist þingið telja að það geti samþykkt lög ef það mætir sameiginlegum vilja þingmanna en án þess að kröfum stjórnarskrár sé mætt – og án þess að nokkrum komi það við.

Athyglinni er einnig beint að tímafrestum milli meðferða, bæði að lengd þeirra og að því hvort, og þá hversu oft, þeir eru sniðgengnir.

Fjallað er um eigindarkröfuna, þá kröfu að frumvarp þurfi að vera um sama málefni allar þrjár meðferðirnar ‒ og efnislega um sömu lausnina og fram er sett í frumvarpinu. Eigindarkrafa hefur ekki verið skilgreind fyrir Alþingi og hana er ekki að finna í þingsköpum eða í öðrum reglum þingsins, en stjórnskipunarfræðingar fyrri tíma hafa í bókum sínum sagt fyrir um að frumvarpi megi ekki gerbreyta. Því virðist Alþingi geta samþykkt einstakar lagagreinar eða kafla án þess að tryggt sé að þessar viðbætur fái þrjár aðskildar meðferðir. Þá gæti frjálsræði í þessu efni opnað fyrir misvísandi breytingartillögur og misvísandi ákvæði. Fjallað er um misvísandi ákvæði frá Alþingi í bókinni.

Folketinget danska skerpti á efni eigindarkröfunnar í nýrri handbók um þingstörf vorið 2023. Eru reglur hennar bæði skýrari og afdráttarlausari en í síðustu handbók þingsins frá 2015, og fleiri að auki.

Framkvæmd þinganna fer ekki aðeins eftir stjórnarskrárákvæðum. Á Alþingi fer hún einnig eftir þingsköpum; reglum um starfsemi þingsins, sem eru lög hér á landi, þingskapalög, en í danska þinginu fer framkvæmdin eftir for­retnings­orden (sem hér verða kölluð dönsku þingsköpin), en hún er ákvörðun þingsins (d. bestemmelse), en ekki lög. Sá mismunur skiptir máli.

Er það von höfundar að þessi bók leiði til málefnalegrar athugunar á lagasetningu Alþingis og að fræðimenn og áhugasamur almenningur taki hana til gaumgæfilegrar skoðunar og umræðu.

Inngangur bókarinnar Um Alþingi: Hver kennir kennaranum

Þessi bók er um Alþingi og alþingismenn. Alþingi er tákn sjálfstæðis þjóðarinnar og ákvarðanir þess varða nánast alla Íslendinga. Miklar andstæður móta ímynd stofnunarinnar; annars vegar er hún æðsta valdastofnun ríkisins og nýtur virðingar eins og allt vald gerir og hins vegar er hún umfjöllunarefni daglegrar stjórnmálabaráttu og sýnist sitt hverjum um meðferð valdsins.

Alþingi er á ákveðinn hátt kennarinn í íslensku samfélagi. Það mótar ekki aðeins reglur um alla starfsemi þess heldur er það leiðandi í umræðu og helsta stjórnunarafl ríkisins. Þá er Alþingi hluti af ríkisvaldinu, en ákvarðanir þess byggjast meðal annars á því að halda uppi sannleikanum í samfélaginu.

Bókin er ádrepa um Alþingi. Hún gerir ekki tilkall til að vera kennslubók fyrir kennarann, en tekur til skoðunar nokkur mál sem brenna á samtíðinni. Bókin byggist á gögnum úr gagnagrunnum Alþingis frá 1991–2018, þann tíma sem þingið hefur starfað í einni deild, en einnig á minni rannsóknum og samanburði við Folketinget (danska þjóðþingið). Ekki hefur verið unnið úr þessum gögnum áður með sama hætti og hér er gert.

Sjónum er beint að Alþingi sjálfu og félagsvísindalegum viðfangsefnum sem stjórnmálin glíma við og þessi gögn varpa ljósi á, og eru þau sett í fræðilegt og alþjóðlegt samhengi.

Þessi bók er í stórum dráttum um fernt: (i) Um framkvæmd stjórnskipunarlaga sem kveða á um starfsemi Alþingis og fleira sem varðar Alþingi, (ii) um samfélagsleg einkenni þingmanna og þingmannahópa, og (iii) um jafnrétti á Alþingi, sem alþjóðlegt ákall er um. Gagnagrunnarnir geyma um þau mál ýmsar upplýsingar sem koma til skoðunar nú í miðri #MeToo-byltingunni. Þá er fjallað (iv) um völd, valdaaðstöðu og rentusókn (nánar er fjallað um hugtakið rentusókn í fjórða kafla) gagnvart Alþingi, sem er eitt af einkennum nútíma lýðræðis.

Í fyrsta kafla er rætt um framrás tímans og breytinganna sem hefur ekki haft þau áhrif á Alþingi sem eðlilegt væri. Nýir tímar og nýr skilningur í lagaframkvæmd mótar afstöðu fræðimanna, dómstóla, stjórnsýslu og stjórnmálastarfs í okkar heimshluta. Í reynd kemur endurnýjuð túlkun á ákvæðum alþjóðasamninga, stjórnarskráa og laga og á meginreglum í opinberu starfi í stað þess að endurskrifa þessar reglur.

Hér er fjallað um það hvernig Alþingi framkvæmir stjórnarskrárákvæðið um að frumvarp þurfi þrjár umræður, um aðskilnað valdþátta og um nefndarflutning mála. Ákvæðið um að þrjár umræður þurfi í hvorri þingdeild er frá 1874 og kom fyrst fram í stjórnarskrá Danmerkur á árinu 1849. Á Alþingi og í Folketinget er nú hliðstætt ákvæði fyrir einnar deildar kerfi. Það er túlkað þannig í danska þinginu að í stað umræðna í tveimur deildum hafi komið aðrir öflugir varnaglar til að tryggja vandaða lagasetningu og eru þeir, auk annarra atriða sem hér er fjallað um, að öll mál fái vandaða umfjöllun nefnda og að samráð sé haft við almenning. Á Alþingi er hvorugt skylt samkvæmt þingsköpum og sú þrönga túlkun ríkir að mál þurfi aðeins þrjár umræður í þingsal. Málsmeðferðinni virðist því oft ábótavant.

Þá heimila þingsköp Alþingis nefndarflutning á málum, sem brýtur í bága við stjórnarskrárákvæði, hlutverk aðila, danska og raunar norræna framkvæmd og meginreglur um málsmeðferð þar sem opinber aðili getur ekki tekið mál til meðferðar eða ákvörðunar sem hann hefur áður tjáð sig um.

Að öðru leyti er í fyrsta kafla rætt um endurbætur á störfum þingsins, sem leiddar eru af Stjórnarráðinu, um stöðu minnihlutans, um breytingar sem yrðu ef danska þinglíkanið yrði tekið upp og er þá átt við upptöku málskotsréttar minnihlutans gegn því að málþóf hyrfi, og um lýðræðishættur, ekki síst hættuna af kosningakerfinu.

Í öðrum kafla eru gögn úr þingmannaskrá og Alþingismannatali tekin til greiningar; ættartengsl, þjóðfélagsstaða, menntun og þingreynsla. Þau eru notuð til að skoða úr hvaða félagslega umhverfi alþingismenn koma og hvað einkennir stjórnmálaelítuna (nánar er fjallað um hugtakið elíta í öðrum kafla) að öðru leyti. Fram kemur að stjórnmálaelítan kemur að verulegu leyti frá hærri lögum samfélagsins en við því vara einmitt margir fræðimenn. Fullyrða má að aðstaða almennings til þess að komast áfram í stjórnmálum sé mjög misgóð. Enda þótt stjórnmálaelítan endurnýist hratt, sem í sjálfu sér er einkenni opinnar elítu, þá er hún á hinn bóginn félagslega einsleitur hópur, og er það einkenni lokaðrar elítu.

Sú ályktun er dregin að hópvitund þingmanna kunni að vera nokkuð mikil og samfélagssýn þeirra einsleit. Einnig benda gögn til þess að elítur hér á landi séu nokkuð samloðandi og jafnvel þannig að hópvitund nái milli elítuhópa. Samloðandi elítur opna möguleika á samblæstri og ráðabruggi sem getur lýst sér á marga vegu, en ekki síst í myndun aðgangs að aðstöðu sem ríkisvaldið veitir eða með því að hindra slíkan aðgang.

Þá eru kynnt til sögunnar þrjú hugtök sem öll varða íslenska stjórnmálaelítu. Þau eru (i) hefðbundinn elítismi, sem á við um stöðu yfirstéttar og ættarveldis (nánar er fjallað um hugtakið ættarveldi í öðrum kafla) sem ríkti einkum á 19. öld en dró úr á þeirri 20., (ii) samkeppniselítismi, sem varð allsráðandi í stjórnmálabaráttu millistríðsáranna og einkenndist af baráttu milli stjórnmálaflokkanna sem reyndu að tryggja völd sín á sem flestum sviðum þjóðfélagsins þannig að einstaklingar úr hópi almennings gátu þurft að vera flokksbundnir til að fá opinbera fyrirgreiðslu – rökstyðja má að slíku ástandi fylgi lítil lýðréttindi, og (iii) fagleg fjölhyggja.

Við erum á leiðinni frá því ástandi sem fyrrnefndu hugtökin lýsa, þótt sú ferð virðist sækjast hægar en álitið hefur verið, og áfangastaðurinn er fagleg fjölhyggja, sem þýðir á mannamáli að hver og einn einstaklingur nái árangri á grundvelli eigin verðleika og að ólíkir verðleikar séu metnir til ólíkra starfa og af ólíkum geirum samfélagsins.

Í þriðja kafla er fjallað um jafnréttismál. Barátta kvenna fyrir fullum mannréttindum hefur nú staðið nokkurn veginn óslitið í hálfa aðra öld. Því eru hér gerðar eins ýtarlegar greiningar á stöðu kvenna á Alþingi og gögnin sem unnið er með gefa möguleika á og miðað við kröfur tveggja alþjóðasamninga, annars vegar Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hins vegar Istanbúl-samnings Evrópuráðsins. Báðir þessir samningar hafa verið staðfestir af Íslands hálfu.

Í ljós kemur að þótt hlutfall kvenna á Alþingi sé með því hæsta sem gerist vantar mikið á að jafnri stöðu sé náð. Eldra feðraveldi ríkir að mestu, ekki síst meðal þingmanna úr landsbyggðarkjördæmunum. Konur á þingi vinna meira en karlar og eru oft beðnar um að vinna önnur verk en þeir, og frumvörp þeirra verða síður að lögum. Þær eru því iðjusamar en hafa minni áhrif en þeim ber. Konur á Alþingi eru yngri en karlar, þær eru neðar á framboðslistum og hafa minni þingreynslu. Á þessu er þó verulegur munur milli flokka. Glerþakið gagnvart peningum og völdum í atvinnulífinu virðist halda því konur starfa mest að mjúkum málum. Þá eiga konur erfiðara með að taka þátt í stjórnmálabaráttu og þurfa að hafa meiri verðleika en karlar til að komast að.

Fram kemur að kynferðislegt áreiti og ofbeldi gagnvart konum á þingi er fyrir þeim lifandi veruleiki. Þær mæta ofbeldismenningu sem er samgróin hlutverkaskiptingu kynjanna í svipuðum hlutföllum og evrópskar þingkonur almennt. Hún er þó enn verri hér hvað varðar líkamlegt og efnahagslegt ofbeldi.

Fjórði kafli fjallar um völd, valdaaðstöðu og rentusókn gagnvart Alþingi. Fram kemur að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sátu í ríkisstjórnum á tímabilinu verulega umfram það sem atkvæðamagn þeirra sagði til um. Aðrir flokkar fjórflokksins hafa haft tiltölulega lítil völd en flokkar utan hans þó sýnu minnst. Störf flokkanna á Alþingi bera öll einkenni mismunandi valdaaðstöðu þeirra.

Þá er rætt um stjórnmálaágalla, ekki síst rentusókn, og hvernig þeir birtast í gögnunum. Megineinkennin eru áhersla þingmanna á eigin hagsmuni, bæði vegna sjálfra sín og ekki síður vegna kjördæmanna í því skyni að fá endurkjör. Kosningahegðun kjósenda er breytileg og berast nýjar hugmyndir síður til landsbyggðarinnar en til höfuðborgarsvæðisins, auk þess sem flokkstryggð er þar mikil og vægi atkvæða mikið. Rentusókn landbúnaðar og sjávarútvegs gagnvart Alþingi, sem leidd er af landsbyggðarþingmönnum, stingur í augun og virðist samofin stjórnmálum landsbyggðarinnar og órjúfanlegur hluti af starfshefðum Alþingis.

Í þessari bók kemur fram að þörf er fyrir greinandi og gagnrýna hugsun á mörgum sviðum til að færa stjórnmálastarf, stjórnmálahefðir og starfshætti á Alþingi í nútímahorf þannig að það verði til fyrirmyndar.

Það er von höfundar að þessi bók leiði til bættra stjórnarhátta, valdi breytingum á félagslegri samsetningu þingmanna, auki jafnrétti á Alþingi, dragi úr rentusókn og stuðli að breytingum á kosningakerfinu. Markmið bókarinnar er að benda á að hægt er að takast á við þessi verkefni samkvæmt nýjum viðmiðum.