Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.
——
Starfar hér tvöfalt almannavald; annað samfélagslegt, sem þróar þjóðfélagið að norrænum fyrirmyndum, og hitt hið kyrrstæða ríkisvald?
Hér er skoðað, með réttu eða röngu, hvort í landinu starfi tvöfalt almannavald: annars vegar ríkið sem starfar eftir lögum sem stjórnmálamenn semja um sín á milli og hins vegar almannavald Samtaka atvinnuveganna og verkalýðshreyfingarinnar (Sa/vlh), sem starfar eftir samningum sem þeir aðilar gera sín í milli. Um lýðræðislegt umboð þessara valdastofnana er ekki rætt hér.
Þessi ríki hafast mjög ólíkt að; ríkið sjálft er hálfstaðnað með úr sér gengna innviði og leitast við að draga úr þátttöku sinni í samfélaginu, meðan almannavald Sa/vlh er framsækið, leitar nýrra félagslegra lausna og bætir stöðugt við sig verkefnum. Hið fyrrnefnda fylgir hægristefnu meðan hið síðarnefnda þróar norrænt jafnaðarmannaþjóðfélag. Ríkin deila þjóðinni, en góður helmingur hennar er þegnar (skjólstæðingar) beggja.
Almannavald Sa/vlh
Almannavald Sa/vlh annast einkum: eftirlaunakerfi, byggingu og leigu íbúðarhúsnæðis, félagsþjónustu með orlofskerfi og félagsmálakerfi, það rekur menntunarkerfi, heilbrigðiskerfi, sem m.a. inniheldur styrki til lækninga og öfluga endurhæfingarþjónustu, VIRK – auk minni verkefna, svo sem verðlagseftirlit. Með þessu tryggja aðilar vinnumarkaðarins að launafólk hefur að nokkru leyti sambærilegt félagslegt umhverfi og er í nágrannaríkjunum.
Lífeyrissjóðir almannavalds Sa/vlh eru langstærstu eigendur fjármagns og eigna á Íslandi; eignir þeirra samsvara 43% af heildarfjármunaeign atvinnulífsins (6,7 þús. vs 15,6 þús. milljarðar) og þær eru tæplega þrisvar sinnum meiri en eignir ríkis og sveitarfélaga samanlagt (6,7 þús. vs 2,5 þús. milljarðar) (Hagstofan, sept. 2022). Velta félagsmálakerfis Sa/vlh er orðin umtalsvert hlutfall af veltu ríkisins í málaflokknum og eignir þess í húsnæðisfélögum fara hratt vaxandi.
Samspil aðila
Með því að almannavald Sa/vlh styrkist stöðugt, ekki síst lífeyriskerfið, smáfærast eignir og verkefni til þess, bæði frá ríkinu vegna sölu ríkiseigna og stöðnunar og frá atvinnulífinu. Þannig eru bankarnir að færast úr eigu ríkisins til lífeyrissjóðanna og verða þannig áfram í samfélagslegri eigu, en arðurinn fer í eftirlaun, en ekki í ríkissjóð. Með því að lífeyrissjóðirnir eignast meira í sjávarútveginum rennur arðurinn af þjóðarauðlindinni til þess almannavalds. Ætti þá enginn að kvarta. Þá má reikna með því að lífeyrissjóðirnir eignist í vegakerfinu og heilbrigðiskerfinu, að einhverju eða öllu leyti, ef og þegar þau kerfi verða einkavædd af ríkinu.
Með eignum lífeyrissjóðanna einkennist þjóðfélag okkar af samfélagslegu eignarhaldi, sem eðlilega er stutt samfélagslegu gildismati, bæði hvað varðar siðferði og félagsleg atriði. Það dregur úr hættu á siðferðisbresti í atvinnulífinu – og skapar stöðugleika. Þá fer hlutur einkaaðila hlutfallslega minnkandi þannig að hættan af flutningi afraksturs af íslenskri atvinnustarfsemi til skattaskjóla minnkar, athæfi sem ber siðleysi vott og er oftast ólöglegt – en fer fram í skjóli hins hægrisinnaða ríkis.
Hvað er hvers?
Nú getur enginn aðili tekið sér ríkisvald í samfélaginu til hliðar við ríkið. Telja verður að mikið af starfsemi Sa/vlh sé lagalega á gráu svæði, enda er gjaldtaka Sa/vlh af fyrirtækjum og launþegum skattheimta; skattheimta af því að féð rennur til verkefna sem ríkið á að sinna og er ekki frjáls framlög eða kaup í tilteknu skyni (nema að örlitlu leyti). Skattheimtu mega ekki aðrir stunda en ríkið og verkefni sem framkvæmdarvaldið útvistar, s.s. til Sa/vlh, þurfa að bera öðruvísi að, t.d. með útboðum. Sa/vlh pantar lagasetningu um starfsemi sína og fær hana fúslega, en yfirstæðar meginreglur um hlutverk aðila kunna að vera brotnar.
Launafólk fær hluta af kjörum sínum með félagsaðild að verkalýðsfélögum sem tryggir að almannavald Sa/vlf nær til allra á vinnumarkaði. Það fyrirkomulag brýtur „de facto“, að því er virðist, gegn félagafrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar og er einkennilegt að fræðimenn, stjórnmálamenn og dómarar loki augunum fyrir þessu – án tillits til stjórnmálaskoðana þeirra.
Skjólstæðingar kerfanna
Hið kyrrstæða ríkisvald kemur smánarlega fram við þá hópa sem eru utan vinnumarkaðar og eru um 60 þús. fullorðnir á skjólstæðingalista ríkisins einvörðungu eða að verulegu leyti, og er það fátækasta fólk landsins og eru kjör hópsins ósambærileg við kjör skjólstæðinga Sa/vlh.
Þessir hópar eiga ekki réttindi í félags-, mennta- eða heilbrigðiskerfum Sa/vlh og þiggja lágan lífeyri frá ríkinu, atvinnuleysisbætur og námsstyrki, mæta lágum frítekjumörkum og skerðingum – og má telja að kostnaður ríkisins við að færa kjör þessa hóps í norrænt horf sé ekki minni en 100-200 milljarðará ári. Svona langt er ríkið orðið á eftir almannavaldi Sa/vlh.
Lokaorð
Almannavald Sa/vlh mun í næstu kjarasamningum væntanlega krefja ríkið um húsnæði, svo ungt fólk og fátækt geti lifað á höfuðborgarsvæðinu, um lægri vexti og um nothæfa vegi svo fólk komist í og úr vinnu – og styrkingu félags-, mennta- og heilbrigðiskerfa sinna, svo eitthvað sé nefnt, og því verður væntanlega sjálfu falið að koma þeim málum í lag með eigin eignarhaldi, eigin skattheimtu og eigin framkvæmd og boðin lagasetning um málið.
Hér er því velt upp að þróun tvískipts almannavalds geti verið bæði óeðlileg, ólögleg og ólýðræðisleg og bent á að stjórnmálin þurfi að endurhugsa hlutverk sitt. Þau eiga ekki að sitja í áhorfendastúkunni og krefjast kyrrstöðu, meðan aðrir þróa þjóðfélagið í takt við nútímakröfur.