Kynningartexti (2024)

Bókin fjallar um þau ákvæði stjórnarskrár sem segja fyrir um störf Alþingis og Folketinget (áður Rigsdagen) við setningu löggjafar. Þau ákvæði eiga að tryggja gæði lagasetningar, eru eins fyrir bæði þingin og hafa verið óbreytt frá upphafi. Fram kemur að bæði þingin fara í stórum dráttum eftir ákvæðunum, en framkvæmd Alþingis er þó í sumu tilliti veik gagnvart kröfum þeirra. Bókin skipt­ist í tvo hluta: Sagan og nútíminn.

Í kaflanum „nútíminn“ – byrjum á honum – er fjallað um framkvæmd Alþing­is og Folke­tinget á nefndum ákvæð­um stjórnarskránna, með áherslu á Alþingi. Rann­­sök­uð eru ákveðin atriði í framkvæmd þinganna og velt fyrir sér hvort þau hafi áhrif á gæði lagasetningar. Síðan koma fram fjórar athugasemdir um störf Alþingis og eru þær einar nefndar hér:

Í fyrsta lagi kemur fram að ákvæðið um að ekkert frumvarp megi verða að lögum án þess að það hafi verið tekið til þriggja meðferða felur í sér gagnályktun. Hún er sú að frumvörp sem ekki verða að lögum eiga ekki endilega að ganga til þriggja meðferða. Það á að hafna þeim á fyrri stigum eða í lokin. Gagnályktunin sjálf – auk vilja fulltrúa í stjórn­laga­nefndinni dönsku – gerir kröfur um að atkvæða­greiðsla fari fram. Ekki er eðlilegt – jafnvel ekki heimilt – að láta frumvörp daga uppi, sem felur í sér að þau eru í raun felld því að þau falla niður við þinglok. Sá sem fellir þau er þá forseti sem tekur þau ekki á dagskrá eða nefndir sem ekki senda þau frá sér. Hvorugur aðilinn hefur slíkar valdheimildir samkvæmt stjórn­ar­skrá, enda búa þeir við ákveðja jafnræðisreglu milli frumvarpa. Ákvarðanir um mál tekur þingheimur með atkvæðagreiðslu.

Í bókinni kemur fram að frumvörp sem nefndir flytja fá mikið lakari málsmeðferð en frumvörp ríkisstjórnar. Svo virðist sem litið sé á það sem formsatriði að þau gangi í gegnum þingið. Þau fara sjaldnast í samráð, koma helst ekki til umfjöllunar nefndar (enda marklaust úr því að hún samdi frumvarpið) og umræður skapast ekki um þau í þingsal. Lögð var rík áhersla á það við setningu stjórnarskrárinnar að frumvörp ríkis­stjórnanna fengju ekki vandaðri meðferð en frumvörp sem yrðu til í þingunum. Ekki verður annað séð en að Alþingi gangi gegn þessu – og nefna má að í þjóðþingum hinna Norðurlandanna flytja nefndir ekki frumvörp.

Þá hefur Alþingi mjög stutta lágmarkstímafresti milli umræðna og snið­geng­ur þá síðan yfirleitt þegar kemur að þriðju umræðu. Það er alvarlegt í ljósi þess að þriðja umræðan var sett upp til að hægt væri að gaumgæfa frumvörp betur eftir at­kvæða­greiðsluna í annarri umferðinni. Öryggishlutverk þriðju umræð­unnar verður að engu ef hún fer fram í beinu framhaldi af þeirri annarri.

Alþingi þarf að framkvæma eigindarkröfuna af meiri kostgæfni en nú er gert. Hún fjallar um að frumvarpi megi ekki breyta svo mikið að einhver ákvæði þess hafi ekki fengið þrjár umræður. Danska þingið hefur um árabil haft tiltölulega strangar viðmiðun­ar­reglur í þessu efni og herti á þeim vorið 2023. Alþingi hefur engar skráðar reglur. Þannig er nokkur hætta á því að á Alþingi séu teknar til meðferðar og samþykktar breytingar­tillögur sem ekki hafa fengið þrjár umræður.

Í kaflanum „sögunni“ er fjallað um aðdraganda og setningu stjórnarskráa Dan­merkur og Íslands. Ákvæðin um störf þjóðþinganna eiga sér fyrirennara í reglum um héraðs­stétta­þingin í Danmörku (1835-1847) og um ráðgefandi Alþingi (1845-1873); þau þing störfuðu eftir sömu forskrift. Síðan var haldið stjórnlagaþing í Danmörku 1848-1849 og í bókinni er því haldið fram að þing Alþingis 1867 hafi í raun verið stjórnlagaþing. Rakin eru ákvæðin í frumvörpunum til stjórnarskrár sem lágu fyrir báðum þessum þingum og farið yfir ræður þingmanna. Ákvæðin um störf verðandi þjóðþinga fengu litla athygli; í báðum tilfellum voru það sjálf kerfisskiptin sem kölluðu á athygli þingmannanna. Það er annars vegar eins og samstaða hafi verið um að ákveðnar reglur frá héraðs­stéttaþingunum og ráðgefandi Alþingi héldu sér og hins vegar um tilteknar breyt­ing­ar á þeim – m.a. að frumvörp fengju þrjár um­­ræður í stað tveggja áður.

Nýnæmi kaflans felst í því að samantekt um þessi mál sérstaklega hefur ekki áður verið gerð og svo virðist sem stjórnlagaumræðan á Alþingi 1967 hafi verið lítið þekkt – en hér er hún borin fram í ljósið. Þá er það nefnt að Jón Sigurðsson, forseti, gaf í grein í Andvara 1874 misvísandi upplýsingar um stjórnarskrár­setning­una á Alþingi með því að segja að henni hafi verið þvingað upp á Íslendinga – það var sennilega pólitísk grein til heimabrúks. Sú söguskoðun hefur síðan verið ríkjandi hjá fræðimönnum. Hið rétta er að danska stjórnin gaf Alþingi sjálfdæmi um setningu stjórnarskrár innan ákveðins ramma og fór eftir vilja Alþingis. Þá er það rakið að alþingismenn vildu framar öðru að ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar um störf þjóð­þingsins yrðu orðrétt eins og í hinni dönsku – í þeim tilgangi að ná fram sömu stjórn­skipulegu stöðu Alþingis og Rigs­dagen hafði – sem þeir náðu fram. Upphaf­legt frumvarp dönsku stjórnarinnar sem lagt var fyrir Alþingi 1867 gaf Alþingi ekki fullt og óskorað löggjafarvald. Þá er hugleitt hvort danska stjórnarskráin hafi de facto verið fyrsta stjórnarskráin um íslensk málefni og gilt fyrir setningu íslensku stjórnarskrárinnar árið 1874 – en hún gilti án tvímæla ásamt þeirri íslensku um sameiginleg mál land­anna á árunum 1874-1918.