Nýtt almannatryggingakerfi (28.09.2019)

Texti greinar sem birtist í Kjarnanum.

—–

Fjórða iðn­bylt­ingin er að frelsa fólk frá vinnu og erf­iði. Ef allir hafa í fram­tíð­inni sam­fellda atvinnu á vinnu­mark­aði alla ævina (við það sama) mun þjóð­fé­lagið mögu­lega hafa minna til skipt­anna en ann­ars væri. Sköpun auð­æfa felst í nýsköpun og nýrri þekk­ingu, end­ur­menntun og sveigj­an­leika á vinnu­mark­aði, að ónefndum listum – þar sem ný hugsun og sköpun er fram­kvæmd með sjálf­virkni, í sýnd­ar­veru­leika og með sjálf­boða­liða­starfi – en ekki með launa­vinnu einni og sér. Í þeirri sköpun eyðir tæknin fleiri störfum en hún mynd­ar, þótt hún myndi ný störf í tækni­geir­anum og jafn­vel fyrir mennta­menn almennt. Í stað eða sam­hliða kröfu um atvinnu kemur krafa um vel­ferð fyrir alla á síbreyti­legum vinnu­mark­aði. Almanna­trygg­inga­kerfið þarf að laga sig að nýjum veru­leika.

Atvinnu­leysi blasir við tug­þús­undum Íslend­inga með til­heyr­andi fátækt­ar­gildru. Ekki eru miklar líkur á að allir fái atvinnu aft­ur. Fyrst og fremst er það vegna auk­inna áhrifa fjórðu iðn­bylt­ing­ar­inn­ar: að sjálf­virkni­væð­ing hefur stór­auk­ist í veiru­far­aldr­inum – hún verður ekki tekin til baka, hún er hluti af langvar­andi og yfir­stand­andi þró­un. Nokkur hluti nýsköp­unar snýst um að leysa manns­hönd­ina af hólmi, segja má að hvert nýtt tækni­starf taki lítið brot af öðru starfi. Það þarf einnig að fækka fólki í mörgum stórum geirum með end­ur­skipu­lagn­ingu – af mörgum ástæð­um, en m.a. vegna þess að kerfi, ferlar og vinnu­brögð eru óskil­virk og starfs­fólk hefur ekki end­ur­menntað sig – til að þeir taki minna til sín og þjóni bet­ur.


Sá sem vill aukna mennt­un, nýsköpun og aukna tækni­væð­ingu – sem er lyk­ill­inn að auk­inni þjóð­ar­fram­leiðslu og auk­inni vel­sæld allra – hann hlýtur líka að vilja að óarð­bær og úrelt störf hverfi; fækka störf­um. Það verður ekki bæði sleppt og hald­ið.


En hvað er starf? Kannski þarf að skil­greina hug­tök upp á nýtt. Tala má um að störf á vinnu­mark­aði séu launa­vinna, en störf utan vinnu­mark­aðar má kalla fram­lag. Fram­lög geta verið við list­sköp­un, fræði­mennsku, frí­stunda­gróð­ur­setn­ingu, björg­un­ar­störf, barnapöss­un, heim­il­is­hald, í íþrótt­um, í stjórn­málum og í hverju því gagn­legu starfi sem fólk tekur að sér. Hér er ekki síst átt við sjálf­boða­vinnu. Reikna má með að fram­lög af þessu tagi séu arð­bær fyrir þjóð­fé­lag­ið, enda þótt þau séu ekki launa­vinna.

Við erum að tala um tvö kerfi með and­stæðar for­send­ur: (i) á vinnu­mark­aði skapar vinnan verð­mætin og vel­ferð heim­il­anna, en (ii) utan vinnu­mark­aðar kemur vel­ferðin á und­an; hún skapar síðan verð­mæti af ýmsum toga með ýmsum nýjum fram­lögum líf­eyr­is­þeg­anna.
Ævi­tíma­bilin
Flest félags­leg kerfi, kjara­samn­ingar og laga­regl­ur, miða við að ævinni sé skipt í þrjú tíma­bil, auk æsku: fyrst til mennt­un­ar, síðan til vinnu á vinnu­mark­aði í um 40 ár og loks ævi­kvöldi utan vinnu­mark­að­ar. Engin laun eru í boði utan vinnu­mark­að­ar, en nokkur stuðn­ings­kerfi og lán (náms­lán).

Nú þegar er þessi tíma­bila­skipt­ing orðin óraun­hæf. Ljóst er að menntun og símenntun er ævi­langt verk­efni og lyk­il­inn að vel­gengni á vinnu­mark­aði er að hafa nýja þekk­ingu – ekki endi­lega að hafa háskóla­próf – heldur að hafa nýja þekk­ingu og færni sem nútíma vinnu­brögð krefj­ast. Þannig munu margir eiga fleiri en einn starfs­feril þegar sú starf­semi sem þeir fyrst mennt­uðu sig til breyt­ist eða úreld­ist.

Sam­hliða þess­ari tíma­bila­skipt­ingu, sem er þó enn mik­il­væg regla í sam­fé­lag­inu, þarf að miða við aðrar for­sendur gagn­vart almanna­trygg­ingum – sem er milli þeirra sem eru á vinnu­mark­aði og eru utan hans.

Ekki þurfa endi­lega að gilda önnur kerfi fyrir þá sem fara af vinnu­mark­aði vegna hás ald­urs en fyrir aðra sem falla af vinnu­mark­aði til styttri eða lengri tíma fyrr á ævinni. Það má nota sama félags­lega örygg­is­net­ið.

Sem stendur eru 100-120 þús. manns utan vinnu­mark­aðar og 160-180 þús. manns á vinnu­mark­aði: eldri borg­ar­ar, 40 þús.; öryrkjar, 15 þús.; náms­menn 18 ára og eldri, 36 þús.; atvinnu­laus­ir, 20 þús.; sjálf­stætt starf­andi, óþekkt tala og skjól­stæð­ingar sveit­ar­fé­laga, 6 þús. (byggt á gögnum Hag­stof­unnar og Vinnu­mála­stofn­un­ar).

Utan vinnu­mark­aðar eða innan

Stjórn­málin hafa sýnt kjörum þess fólks sem er utan vinnu­mark­aðar ótrú­legt fálæti. Verka­lýðs­hreyf­ing­in, Alþýðu­flokk­ur­inn og aðrir vinstri flokkar höfðu áhuga á kjörum þess­ara hópa fyrr á árum (og raunar hafði Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn verka­lýðs­arm) og almanna­trygg­inga­kerfi var komið á í full­burða mynd 1946 (fyr­ir­renn­ari þess var frá 1936). 

Mik­il­vægt að er nýtt almanna­trygg­inga­kerfi taki til allra þeirra hópa sem standa utan hins hefð­bundna vinnu­mark­að­ar. Þá á ég við (i) eldri borg­ara, (ii) öryrkja, (iii) náms­menn, (iv) atvinnu­lausa, (v) sjálf­stætt starf­andi fólk án fastra tekna (t.d. lista­menn, fræði­menn) og (iv) aðra, þar með talin oln­boga­börn sam­fé­lags­ins, sem nú eru að mestu leyti á fram­færi sveit­ar­fé­laga. Öll núver­andi kerfi fyrir þessa hópa hverfi – og ekki síður þær viða­miklu opin­beru stofn­anir sem hafa blásið út í kringum þá.

Mynd 1: Hringrás atvinnumarkaðarins: Almannatryggingar taki til fólks sem er í rauðu boxunum:

Á mynd eitt kemur fram að þeir sem verða utan vinnu­mark­aðar geta kom­ist beint á hann aft­ur, annað hvort með eigin dugn­aði og frum­kvæði, kannski með skap­andi hugsun – eða með því að end­ur­mennta sig. Það er mik­il­vægt að menn geti flust milli hlut­verka í vinnu­mark­aðs­mód­eli fram­tíðar og að hvatar beini fólki í réttar átt­ir. Átt er við að atvinnu­laus­ir, öryrkjar og aðrir án fastra atvinnu­tekna, en með lítið eða ekk­ert skerta starfs­getu – geti farið í nám, einkum tækni­nám – sem kemur þeim aftur á vinnu­markað og í þá stöðu að auka þjóð­ar­fram­leiðslu – og fá góð laun.

Stærsti hvat­inn þarf að vera að kom­ast á vinnu­markað aft­ur: störf þurfa að vera það verð­mæt að þau standi undir bættum laun­um. Upp­hæðir í krónum skipta miklu máli alls staðar í þessu mód­eli og hvernig hver hópur getur bætt stöðu sína.

Nýtt almanna­trygg­inga­kerfi (fram­tíð­in)

Hér er gerð til­laga um að eitt kerfi almanna­trygg­inga verði við lýði í stað nokk­urra – fyrir alla áður­nefnda hópa fólks utan vinnu­mark­að­ar. Meg­in­ein­kenni kerf­is­ins er að það verði fjór­skipt.

  1. Grunn­fram­færsla. Koma þarf á almanna­trygg­inga­kerfi með nor­rænu sniði þar sem allir fá jafnt. Slíkt kerfi var hér á landi árin 1946-1974 og aftur 1991-1997 og á árinu 1967 (árið sem líf­eyr­is­sjóða­lögin voru sett) greiddi það út á núver­andi verð­lagi 130-150 þús. kr. mán­að­ar­lega. Það er þessi trygg­ing sem eldri borg­arar telja sig nú eiga inni hjá rík­inu og að þeir hafi borgað skatta og iðgjöld í líf­eyr­is­sjóði á þeim for­sendum að slíkt almanna­trygg­inga­kerfi yrði áfram við lýði. Almanna­trygg­inga­kerfi í þess­ari mynd var end­an­lega lagt niður í árs­lok 2016 með nýjum lög­um, þegar grunn­líf­eyrir var lagður af. Almanna­trygg­inga­kerfi er nú líka nefnt grunn­fram­færsla. Slíkt kerfi getur annað hvort greitt líf­eyri til allra sem standa utan vinnu­mark­aðar og væri það nor­ræna/­evr­ópska mód­elið eða öllum full­orðnum íbúum lands­ins sem kalla má borg­ara­laun.
  2. Kerfi félags­legrar aðstoðar sem er líkt núver­andi almanna­trygg­inga­kerfi, þar sem þeir sem eru í erf­iða­stri aðstöðu fái meira en hinir – og er þá átt við til við­bótar við grunn­fram­færslu. Það nái aldrei til ann­arra en þeirra sem eru utan vinnu­mark­að­ar. Að lág­marki hafi eng­inn minna en sem nemur fram­færslu­kostn­aði og slíkt kerfi þarf auk þess að taka mið af ein­stak­lings­bundnum aðstæð­um. Kerfi félags­legrar aðstoðar ber alltaf með sér skerð­ingar og háa jað­ar­skatta, eins og önnur vel­ferð­ar­kerfi rík­is­ins, t.d. vaxta­bætur og barna­bæt­ur.
  3. Aðgangur að sjóðum verka­lýðs­fé­lag­anna sem kalla má „nýja trygg­inga­kerf­ið“. Þá er átt við að allir utan vinnu­mark­aðar hafi aðgang að sjúkra­sjóð­um, sjóðum sem varða félags­starf­semi, orlofs­sjóðum og virkni­þjón­ustu sem verka­lýðs­hreyf­ingin hefur byggt upp og nú er aðeins fyrir félags­menn henn­ar. Þetta nýja trygg­inga­kerfi á að vera hjá rík­inu og ná til allra jafnt, en það er kostað af atvinnu­rek­endum með um 4% gjaldi á heild­ar­laun launa­manna – sem er tví­mæla­laust skatt­ur, enda eru almanna­trygg­ingar og sjúkra­trygg­ingar verk­efni rík­is­ins.
  4. Aðlaga þarf líf­eyr­is­sjóða­kerfið að nútím­anum, það er bundið í klafa gömlu tíma­bila­skipt­ing­ar­innar – og verður að vera það áfram gagn­vart þeim þeim sem eru að kom­ast á eða eru komnir á líf­eyri. En kerf­inu þyrfti að breyta til að það nái til allra sem eru utan vinnu­mark­að­ar, en það nær nú aðeins til til eldri borg­ara og afar lít­ils hóps öryrkja, en að mestu leyti nær það ekki til öryrkja og ekki að neinu leyti til atvinnu­lausra, náms­manna eða skjól­stæð­inga sveit­ar­fé­lag­anna. 70-90 þús. manns af þeim sem eru utan vinnu­mark­aðar fá ekki krónu frá líf­eyr­is­sjóð­un­um.


Í líf­eyr­is­sjóða­kerf­inu er ruglað saman eigin sparn­aði launa­fólks og almennu trygg­inga­kerfi – í sjóðum með óskýru eign­ar­haldi. Til að laga þetta þarf að tví­skipta kerf­inu í sér­eigna­kerfi og skatta til vel­ferð­ar. Laun­þegar greiða allt að 4% í sér­eigna­sparnað og vinnu­veit­endur allt að 2% á móti. Það þarf að vera frelsi um hvar sá skyldu­sparn­aður er vistaður því hann er ótví­rætt eign launa­manns­ins. Raunar orkar slíkur skyldu­sparn­aður veru­lega tví­mælis yfir­leitt, því hann er gróf for­sjár­hyggja. Ekki síst eru greiðslur vinnu­veit­enda í sér­eigna­sjóði und­ar­leg­ar, það er ekki endi­lega þeirra hlut­verk að spara fyrir laun­þega sína. Virð­ist eðli­legra að greiða 6% hærri laun og láta laun­þeg­anum sparn­að­inn eft­ir.

Skatta til vel­ferðar greiða síðan bæði laun­þegar og atvinnu­rek­endur og er þá átt við greiðslur þeirra í sam­eign­ar­sjóð­ina. Fram­lag atvinnu­rek­enda er 8% af heild­ar­launum og fram­lag laun­þega 4%. Þessi fram­lög eru til verk­efna sem ríkið sinnir sam­kvæmt hefðum á Vest­ur­löndum og eru ótví­rætt skattar á þessa tvo hópa.


Það þarf einnig að jafna útgreiðslur frá því sem nú er. Sú íslenska hugsun að þeir sem hafa há laun á vinnu­mark­aði fái meira úr opin­berum sjóðum en aðrir eftir starfs­lok, þegar þeir verða atvinnu­lausir eða fara í fæð­ing­ar­or­lof – er óeðli­leg. Það er senni­lega bæði ólög­legt sam­kvæmt stjórn­ar­skrá og stjórn­sýslu­reglum að opin­berir aðilar mis­muni skjól­stæð­ingum sín­um.


Opin­berar bætur þurfa að vera jafn­ar, nema sterk rétt­mæt sjón­ar­mið standi til ann­ars – og þeim sjón­ar­miðum er mætt nú með kerfi félags­legrar aðstoðar og mögu­lega verður þeim mætt í fram­tíð­inni með kerf­is­lægum hvötum – en mis­mikil laun fyrr í líf­inu eru tæp­ast rétt­mæt sjón­ar­mið til að mis­muna í opin­berri þjón­ustu. Mis­mik­ill ein­stak­lings­sparn­aður og mishá laun munu hins vegar alltaf valda mis­mun­un.

Hlut­verk rík­is­ins rækt af atvinnu­rek­endum og verka­lýðs­fé­lögum

Það ber ekki vott um heil­brigða póli­tík eða að sam­fé­lagið styðj­ist við vest­ræn hlut­verk aðila –  að verka­lýðs­hreyf­ingin og atvinnu­rek­endur semji um vel­ferð­ar­mál í stórum stíl og þá bara fyrir félags­menn verka­lýðs­fé­lag­anna. Hér er átt við sjóði verka­lýðs­fé­lag­anna og líf­eyr­is­sjóða­kerf­ið. Með þessum kerfum taka þeir aðilar að sér hlut­verk rík­is­ins, bæði skatt­heimtu og dreif­ingu félags­legra bóta – til ákveð­ins hóps þjóð­fé­lags­þegna og skilja aðra eft­ir, raunar eru þeir skildir eftir sem mest þurfa á stuðn­ingi að halda.

Svo langt hafa þessir aðilar gengið í að styrkja bara félags­menn sína á vinnu­mark­aði, að við gerð lífs­kjara­samn­ing­anna datt engum í hug að hugsa um hóp­inn sem býr við mestu fátækt­ina, þ.e. fólk utan vinnu­mark­að­ar. Þannig að nafnið á samn­ing­unum er að nokkru leyti háð.


Á tímum nýfrjáls­hyggju og algerrar nið­ur­læg­ingar sós­íal­ískrar hugs­unar hjá jafn­að­ar­mönnum hefur íslenska verka­lýðs­hreyf­ingin misst sam­bandið við stjórn­málin – því stjórn­málin hafa um ára­tuga­skeið hafnað því að byggja upp nútíma­legt almanna­trygg­inga­kerfi fyrir alla. Því hefur hreyf­ingin tekið sér rík­is­vald með atvinnu­rek­endum – og byggt slíkt kerfi upp engu að síð­ur.

Atvinnu­rek­end­ur, sem eru oft tals­menn nýfrjáls­hyggju, hafa sam­þykkt að tryggja nútíma­legan félags­legan stuðn­ing fyrir starfs­fólk sitt og hafa þeir þannig sýnt skiln­ing á mik­il­vægi góðra kjara. Þeir greiða nú 12% af heild­ar­launum allra í land­inu til sam­eig­in­legra sjóða í þessu sam­bandi. Það eru sam­kvæmt gögnum Hag­stof­unnar 136 millj­arðar á ári. Þar af fara 45 millj­arðar í sjóði verka­lýðs­fé­lag­anna, hitt til líf­eyr­is­sjóð­anna. Laun­þegar greiða 46 millj­arða í sam­eig­in­lega líf­eyr­is­sjóði: alls veltir þetta vel­ferð­ar­kerfi 182 millj­örðum árlega.


Þetta eru í raun fyr­ir­tækja­skattar og tekju­skattar ein­stak­linga sem eng­inn nema ríkið getur krafist, ef litið er til þeirra verk­efna sem þeir eru not­aðir í. Þessu til við­bótar greiða laun­þegar allt að 46 millj­arða í sér­eigna­sjóði og atvinnu­rek­endur allt að 23 á móti – og er það skyldu­sparn­aður upp á allt að 69 millj­arða árlega.

Staða verka­lýðs­fé­laga

Verka­lýðs­hreyf­ingin hér á landi hefur mjög sér­staka stöðu. Fáir á vinnu­mark­aði standa utan verka­lýðs­fé­laga og með­al­laun eru almennt all­há. Það er hugs­an­legt að mikil félags­að­ild styrki kröfu­gerð verka­lýðs­fé­lag­anna. Í þessu sam­bandi má einnig hafa í huga að gott almanna­trygg­inga­kerfi fram­tíðar hlýtur að ýta kaup­gjaldi á vinnu­mark­aði upp og neyða atvinnu­lífið til að mynda arð­bær­ari störf en ella væri.

Nútím­inn ber með sér að fólk á vinnu­mark­aði vinnur í auknum mæli í verk­töku og á það sér­stak­lega við um tækni­geir­ann. Verka­lýðs­hreyf­ingin þarf veita þessum hópi fyr­ir­svar. Hún þarf einnig að hugsa um aðra hópa sem eru utan vinnu­mark­aðar um styttri eða lengri tíma – líka náms­menn. Þær föstu við­mið­anir sem verka­lýðs­hreyf­ingin hefur um launa­vinnu, sjálf­stæðan rekstur starfs­fólks á vinnu­mark­aði, tíma­bila­skipt­ingu á vinnu­mark­aði, hreyf­an­leika á og af vinnu­mark­aði – eru úrelt­ar. Og hefð­bundin verka­lýðs­fé­lög veikj­ast í okkar heims­hluta. 

Verka­lýðs­hreyf­ingin þarf að skoða vel – í ljósi þess að um 40% af full­orðnum eru utan vinnu­mark­aðar og hlut­fallið mun senni­lega hækka – að ganga í for­svar fyrir þá hópa, en nú gegnir eng­inn því hlut­verki. Fram­tíð verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar gæti byggst á því að hún aðlag­ist þjóð­fé­lags­breyt­ing­um.

Ný aðstaða almenn­ings

Með auknum sveigj­an­leika á vinnu­mark­aði gætu aðstæður almenn­ings bæði batnað og versn­að. Þessi grein er skrifuð til að stuðla að því að þær batni. Aðal­at­riði máls­ins er örugg fram­færsla utan sem innan vinnu­mark­aðar og öryggi í lok starfsævi. Þá þarf við­horfs­breyt­ingu þannig að tryggt sé að fjöl­breytt ævi­starf eyði­leggi ekki sjálfs­mynd hvers og eins. Talið er að margir sam­sami sig starfi sínu og gæti auk­inn sveigj­an­leiki orðið þeim erf­ið­ur.

Eng­inn vafi er á því að nýtt almanna­trygg­inga­kerfi með tryggri fram­færslu muni stór­auka lista­líf í land­inu og gefa fleirum en áður kost á að vinna við list. Skjól­stæð­ingar nýs almanna­trygg­inga­kerfis ættu að geta sinnt áhuga­málum sínum og ástríðu fyrir hinum ýmsu við­fangs­efnum með allt öðrum og betri hætti en áður. Má í því efni nefna fræða­störf og fjölda ann­arra starfa sem unnin eru af sjálf­stæðum verk­tökum eða í sjálf­boða­liða­starfi, oft­ast launa­laust. Reikna má með að streita og atvinnu­sjúk­dómar minnki ef farið er af og á vinnu­markað og lífs­gæði auk­ist.

Útskúfun þeirra sem eru utan vinnu­mark­aðar

Það er nið­ur­lægj­andi fyrir þjóð­fé­lag okkar að fólk sem fer af vinnu­mark­aði og lækkar gríð­ar­lega í launum (aldr­aðir lækka um helm­ing í launum skv. skatt­skýrsl­um, öryrkjar og atvinnu­lausir og aðrir um hærra hlut­fall að jafn­aði) missir rétt­indi sín í sjóðum verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar og missir þannig af því þró­aða vel­ferð­ar­kerfi sem byggst hefur upp á tímum nýfrjáls­hyggj­unn­ar. Eins og fram hefur komið nýtur þessi hópur ekki greiðslna úr líf­eyr­is­sjóð­um, nema eldri borg­ar­ar. Hið nýja trygg­inga­kerfi veitir því ekki skjól.

Þetta hefur þau áhrif að þeir sem hafa það betra í sam­fé­lag­inu og eru í vel­laun­uðum störfum sjá ekki fátækt­ina og mæta sjaldan eða aldrei hinum fátæku. Þar sem fátækir lifa á bótum sem eru nokkuð fyrir neðan fram­færslu­mörk og þar sem sjóðir verka­lýðs­fé­lag­anna eru þeim lok­aðir – sjást þeir ekki í leik­fimi, í jóga, í félags­starfi, í virkni­þjálf­um, hjá sál­fræð­ingum eða öðrum aðilum sem styðja við líf og heilsu almenn­ings – og eru þannig utan hins ríka íslenska þjóð­fé­lags.


Fátækt nær til 75-95 þús. manna hópssem er ósýni­legur þeim sem eru betur meg­andi. Hann er hins vegar að finna hjá hjálp­ar­stofn­unum og þar sem mat­væla­dreif­ing fer fram – og undr­ast þeir betur meg­andi það, við­ur­kenna jafn­vel ekki að slík fátækt sé til og tor­tryggja sjálft hjálp­ar­starf­ið. Und­an­tekn­ingin frá þess­ari fátækt fólks utan vinnu­mark­aðar er nokkur hópur eldri borg­ara (20-25 þús. manns) sem á eignir eða mikil líf­eyr­is­rétt­indi.

Vissu­lega er fátækt hjá fleirum en þeim sem eru utan vinnu­mark­aðar og er þá átt við lág­launa­fólk, ekki síst kon­ur, aðflutt vinnu­afl, en um það er ekki þessi grein. Þeir hópar eru líka nokkuð ósýni­leg­ir. Ef þessir hópar missa vinn­una verða þeir verst settir allra í þjóð­fé­lag­in­u. 

Hvernig á að fjár­magna fram­færslu og jöfn­uð?

Ljóst er að þróun í atvinnu­háttum hefur skapað fyr­ir­tækjum gríð­ar­legan auð. Fækkun starfa sparar í vinnu­launum og sam­þjöppun og önnur hag­ræð­ing orsakar sífellt stærri og auð­ugri atvinnu­fyr­ir­tæki (auð­hringi með fákeppn­i). Hið almenna svar hag­fræð­inga sam­tím­ans, t.d. Piketty í bók­inni Capi­tal and Idea­logy, 2019, er að þessi fyr­ir­tæki eigi að skila sam­fé­lögum sínum til baka þeim auð­æfum sem tækni­þró­unin og fákeppnin hefur gefið þeim.

Þá er eðli­legt að taka upp hátekju­skatt að nor­rænni fyr­ir­mynd, það rétt­lætir að allir fái jafnt úr sam­eig­in­legum sjóðum – en þá greiða þeir tekju­hæstu drjúgan hluta slíks rík­is­styrks til baka.

Hagræða þarf í helstu kerfum inn­an­lands. Sá sem þetta skrifar þekkir best til stjórn­sýsl­unnar og skal hér tvennt nefnt: Sú geir­negl­ing starfa og starfs­lýs­inga sem tíðkast hjá hinu opin­bera er ekki í þágu almanna­hags­muna – og því hrað­ari sem þróun atvinnu­hátta er því meiri er óhag­kvæmni opin­berra starfa og verri þjón­usta. Full­yrða má að ótil­tek­inn hluti opin­berra starfs­manna geti ekki tek­ist á við nútíma­leg vinnu­brögð – og ótrú­lega oft skilji þeir ekki þau störf sem yngri kyn­slóðin vinn­ur.

Þá vantar tölvu­væð­ingu á öllum helstu verk­efnum æðstu stjórn­sýslu, eins og þjóð­skjala­vörður hefur nýlega bent á, og taka má fram að nýtt almanna­trygg­inga­kerfi ætti í aðal­at­riðum að vera fram­kvæmt af flóknu og þró­uðu tölvu­kerfi – og leggja mætti niður Mennta­sjóð, Vinnu­mála­stofn­un, sjóði fyrir fræði­menn, lista­menn og fleiri sjálf­stætt starf­andi starfs­stétt­ir, alla upp­bygg­ingu verka­lýðs­fé­lag­anna í sjóð­um, vel­ferð­ar­kerfi sveit­ar­fé­laga og ger­breyta og hag­ræða Trygg­inga­stofn­un. Við þetta spar­ast tugir eða hund­ruð millj­arða árlega.

Mik­il­vægt er fyrir þjóðir að auð­lindir séu ekki gefnar auð­hring­um, eins og gerst hefur í þriðja heim­in­um. Bar­átta í þeim heims­hluta stendur nú milli þess að almenn­ingur eigi auð­lindir og rík­is­vald eigi að dreifa arði af þeim – eða að þær séu gefnar auð­hring­um, sem svífast einskis til að ná þessum eignum af almenn­ingi – og þessi bar­átta er líka háð hér. Við höfum í stórum dráttum tvær auð­lind­ir: sjáv­ar­út­vegsauð­lind­ina, en arð­ur­inn af henni er gef­inn íslenskum stór­fyr­ir­tækjum (og er mjög til umræðu í íslenskri póli­tík), sem bæði fjár­festa inn­an­lands og færa auð til skatta­skjóla og raf­magnið, sem að miklu leyti er gefið alþjóð­legum auð­hringum sem láta arð­inn koma fram í skatta­skjólum (það hefur fengið litla mál­efna­lega umræðu hér á land­i). Vissu­lega eru þó mik­il­vægar útflutn­ings­tekjur af þess­ari starf­semi hvoru tveggja, en arð­ur­inn rennur ekki til eig­end­anna, þjóð­ar­inn­ar. Þá eru önnur verð­mæti á landi og sjó og íslensk nátt­úra er almennt auð­lind fram­tíðar að svo miklu leyti sem hag­nýt­ing hennar stang­ast ekki á við nátt­úru­vernd­ar­sjón­ar­mið og ætti að skila þjóð­inni öllum afrakstri af henni.

Fjár­mögnun nýs almanna­trygg­inga­kerfis hvílir því á kerf­is­breyt­ingum og nýrri hugsun um dreif­ingu verð­mæta:

  1. að skattar á stór­fyr­ir­tæki hækki,
  2. að hátekju­skattur verði tek­inn upp,
  3. að kjara­samn­ings­bundnar greiðslur atvinnu­rek­enda í sjóði renni til rík­is­ins,
  4. með end­ur­hönnun verk­ferla og sjálf­virkni­væð­ingu í stjórn­sýslu og í öðrum stórum kerf­um,
  5. að arð­ur­inn af sjáv­ar­út­vegsauð­lind­inni renni til þjóð­ar­innar með upp­boði á kvóta og
  6. að arð­ur­inn af raf­magn­inu renni til þjóð­ar­inn­ar. Til þess verður að tengja raf­orku­kerfið við alþjóð­legar veitur þannig að auð­hring­arnir um iðju­verin geti ekki haldið íslenskum stjórn­völdum í greip sinni.

Þjóð­ar­auður á að aukast smám saman og ríkt sam­fé­lag á að geta gert vel við alla þjóð­fé­lags­þegna sína, hvaða hlut­verki sem þeir gegna. Þjóð­ar­tekjur aukast einkum með tvennum hætti: með auk­inni mennt­un, ekki síst tækni­menntun og með nýsköp­un, sem teng­ist menntun sterkum bönd­um. Hins vegar eykur aukin verka­skipt­ing milli ríkja kaup­mátt, hún er líka er kölluð alþjóð­leg við­skipti (af sögu­legum ástæðum aðhyll­ast sumir vinstri menn sjálfs­þurft­ar­bú­skap – sem stór­felld alþjóð­leg reynsla er af hjá sós­íal­ískum ríkjum að veldur fátækt).

Atvinnu­bóta­vinna

Tölu­verð umræða er á Vest­ur­löndum um atvinnu­bóta­vinnu, stundum undir for­orð­inu að mynda ný störf – en minna er rætt um að fólk utan vinnu­mark­aðar þurfi vel­ferð eina og sér. Atvinnu­bóta­vinna er þó mjög vara­söm. Slík vinna þarf að vera í þjóð­ar­hag og er til­tölu­lega erfitt að finna slík verk­efni.

Betra er að hafa fólk á líf­eyri þannig að það geri á eigin for­sendum það sem það kann vel og hefur ánægju af – en að neyða fólk til að vinna til­gangs­lítil störf til að sjá sér far­borða. Þá verða minni verð­mæti til.


Atvinnu­bóta­vinna getur haft ruðn­ings­á­hrif á önnur störf og þannig aukið atvinnu­leysi, hún getur skapað óeðli­lega myndun verð­lags og breytt kostn­að­ar­vit­und til hins verra, hún getur hindrað nýsköpun og upp­komu sprota­fyr­ir­tækja – og hún er óeðli­legt fram­boð á almanna­fé.

Í þessu efni er ekki hægt að líta í bak­sýn­is­speg­il­inn því brott­hvarf starfa hingað til stafar oft­ast af því að störfin urðu óarð­bær og það er dýr­ara að taka þau upp aftur en halda áfram nútíma­væð­ingu starfa. Hér er t.d. átt við störf í mjólk­ur­búð­um, við hand­færa­veiðar eða við hand­mjólkun kúa, svo aug­ljós dæmi séu tekin af störfum sem myndu spilla þjóð­ar­hag. Því þarf að hugsa frum­lega ef opin­berir aðilar eiga að kosta atvinnu­bóta­vinnu.

Hins vegar má – eins og áður er nefnt – hugsa sér að sjálf­boða­liða­störf verði algeng í fram­tíð­inni og þau skipu­lögð þannig að þau styðji þjóð­ar­hag og auki vel­ferð og hér er því spáð að slík störf eigi eftir að skila miklum afrakstri af end­ur­nýjun almanna­trygg­inga.

Loka­orð

Breytt sam­fé­lag með fjórðu iðn­bylt­ing­unni – það að tæknin leysir mann­inn undan vinnu og þræl­dómi og að mann­kynið verður herra alheims­ins – kallar á breyttar for­sendur í dreif­ingu verð­mæta í þjóð­fé­lag­inu. Á meðan vinna var for­senda vel­ferðar og að hafa vinnu var krafa sam­fé­lags­ins sner­ist allt um að hækka kaup­gjald. Nú verður krafan að snú­ast um vel­ferð allra, hvort sem þeir eru á vinnu­mark­aði eða ekki. Þetta krefst ger­breyt­ingar á hug­myndum um hefð­bundna tíma­bila­skipt­ingu ævinnar og að þeir sem eru utan vinnu­mark­aðar fái aðeins ölm­usu og standi utan félags­mála­kerfa og búi við fátækt – í því skyni að þvinga þá til að fara á vinnu­markað – og að þeir séu ósýni­legir hinum betur meg­andi. Það verða mest verð­mæti til í þjóð­fé­lag­inu, mest til skipt­anna, með því að hreyf­ing sé á vinnu­mark­aði. Þannig er hag­kvæmt fyrir þjóð­fé­lagið að hluti full­orð­ins fólks sé utan vinnu­mark­aðar á ein­hverjum tíma­bilum ævinn­ar. Það getur líka verið ákjós­an­legt fyrir almenn­ing, en aðeins ef hann býr við fjár­hags­legt öryggi. Stjórn­mál­in, verka­lýðs­hreyf­ingin og atvinnu­rek­endur geta ekki lengur látið eins og heppi­legt sé að nálægt 40% full­orð­ins fólks búi við ölm­usu­kerfi – og að það sé þjóð­fé­lag­inu best. 

Sveigj­an­leiki þarf að vera lyk­il­at­riði – en ekki að allar aðstæður á vinnu­mark­aði og utan hans séu negldar niður í eitt skipti fyrir öll. Taka þarf upp marga kjara­samn­inga og starfs­samn­inga í þessu ljósi, ekki síst fyrir opin­ber störf – og síð­ast en ekki síst almanna­trygg­inga­kerf­ið.