Hér fer á eftir texti bréfs sem er kæra um brot á siðareglum fyrir alþingismenn. Forsætisnefnd getur og á að senda hana til siðanefndar Alþingis til rannsóknar og álitsgjafar. Siðanefndin er forsætisnefnd til ráðgjafar um túlkun reglnanna. Það er síðan forsætisnefnd sem úrskurðar í málinu. Bréfið var stílað á forseta Alþingis, Birgi Ármannsson – og afrit til annarra forsætisnefndarmanna. Á eftir bréfinu fer fylgisskjal með rökstuðningi.
———-
Reykjavík, 13. ágúst 2024.
Forsætisnefnd Alþingis, b.t. forseta Alþingis, Birgis Ármannssonar.
Afrit: Andrés Ingi Jónsson, Ásmundur Friðriksson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Jódís Skúladóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Oddný G. Harðardóttir.
Með bréfi þessu óska ég undirritaður eftir að Alþingi taki til athugunar hvort Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður og formaður atvinnuveganefndar þingsins, hafi með þátttöku sinni í þinglegri meðferð búvörulaganna í vor leið (505. mál á 154. löggjafarþingi, sem varð að lögum nr. 30/2024) gerst brotlegur við Siðareglur fyrir alþingismenn.
Spurt er hvort Þórarinn Ingi hafi gerst brotlegur með því að taka þátt í meðferð breytingalaganna á búvörulögunum í nefnd, í tveimur seinni umræðunum og við atkvæðagreiðslu. Hér er átt við það efnisatriði laganna að afurðastöðvar í landbúnaði verði undanþegnar reglum samkeppnislaga. Minnt skal á að þátttaka Þórarins Inga í meðferðinni var umfangsmikil, hann stóð sem formaður atvinnuveganefndar fyrir breytingartillögu nefndarinnar við aðra umræðu og var framsögumaður hennar. Þátttaka hans var markviss og meðvituð og hann knúði öðrum fremur breytingartillöguna í gegn.
Vísar bréfritari í þessu sambandi til heimildar almennings, samkvæmt nefndum Siðareglum (6. gr. og 1. mgr. 17. gr.), til að senda Alþingi svona erindi.
Reglurnar
Tilgangur Siðareglna fyrir alþingismenn er einkum að „efla … ábyrgðarskyldu [þjóðkjörinna fulltrúa], svo og tiltrú og traust almennings á Alþingi“ eins og segir í 1. gr. þeirra. Erindi bréfritara tekur einkum til eftirfarinna reglna: 1., 5. (stafl. a,b,c,e,f,g og h), 7., 9., 10., 12. og 17. gr. (6. mgr.).
Við setningu siðareglnanna árið 2016 lágu fyrir tilmæli Greco (samtaka á vegum Evrópuráðsins, sem fjalla um spillingarvarnir) í fjórða mati þeirra frá 2013 og ítrekun frá 2015. Greco leggur áherslu á eftirfarandi yfirskipuð atriði í matsskýrslunni frá 2013, sjá bls. 4:
- Spillingarvarnir.
- Að fyrirbyggja hagsmunaárekstra.
- Siðferðisviðmið tímans (e. deontological matters).
- Að styrkja tiltrú almennings á löggjafanum.
Siðareglur um þingmenn mæta í höfuðatriðum tilmælum Greco. Þó kveða þær ekki á um viðurlög eða afleiðingar ef brotið er gegn þeim.
Heimfærsla
Í stuttu máli snúast ávirðingar Þórarins Inga um að hann hafi staðið frammi fyrir umboðsvanda, freistnivanda – og ekki síst hagsmunaárekstrum, þar sem hans eigin hagsmunir, eignarhlutur hans í afurðastöð, og hagsmunir atvinnugreinar sem hann styður og telur sig kannski að einhverju leyti vera fulltrúi fyrir, stangast á við almannahagsmuni, en almannahagsmunir felast ómótmælanlega í samkeppni í matvælaframleiðslu og að hindra að af einokun geti orðið. Þessir hagsmunir Þórarins Inga verða ekki ráðnir af hagsmunaskráningu hans á Alþingi. Í henni kemur fram að hann á í tilteknu félagi, en ekki að það félag á í afurðastöð. Hann einn eða örfáir vissu af hagsmunaárekstrunum. Engu að síður upplýsti hann ekki um þá, sem honum bar – sýndi ekki frumkvæði og fordæmi í því efni, sem honum bar líka – og leitaði að því er virðist ekki til forsætisnefndar þingsins um ráðgjöf um viðbrögð. Sem hann hafði heimild til að gera. Hann vék ekki sæti við meðferð málsins og kallaði ekki inn varamann.
Telja verður að háttalag hans ógni tiltrú almennings og trausti á Alþingi, enda er það í andstöðu við siðferðisviðmið almennings í nútímanum að alþingismaður noti stöðu sína sér til framdráttar. Frá víðara sjónarhorni má líta svo á að Þórarinn Ingi hafi ekki axlað ábyrgð sína sem þingmaður og niðurlægt þingræðið.
Samantekt
Ef Siðareglurnar hafa einhverja merkingu verður óhjákvæmilega að framkvæma þær og túlka samkvæmt orðanna hljóðan og með hliðsjón af þeim markmiðum sem lágu til grundvallar setningar þeirra. Þær voru varla settar til að „tikka í boxið“ gagnvart Greco. Þær voru settar til að viðhalda virðingu Alþingis og trausti til þess – sem telja má að sé megintilgangurinn. Reglurnar eru, þrátt fyrir allt, óhjákvæmilegar í nútímanum, og raunar einhvers konar tímanna tákn. Störf þingmanna eru á margan hátt undirorpin mati kjósenda sem er sífellt og samfellt í nútímanum og störf þingmanna fara fram nánast í raunveruleikasjónvarpi. Því er líka eðlilegt að birta þetta erindi opinberlega.
Ef til vill má rökstyðja að reglurnar séu erfiðar í framkvæmd, réttarfarsleg staða þeirra sé óljós, afleiðingar af beitingu eða sniðgöngu þeirra undirorpnar tilviljunum og ekki óvilhallir úrskurðaraðilar, sem eru samherjar eða andstæðingar á þingi.
Bréfritari vill minna á að umboðsvandi, freistnivandi og hagsmunaárekstrar hafa á seinustu áratugum fangað athygli fræðimanna, fréttamanna, stjórnmálamanna, starfsmanna stjórnsýslu, dómstóla og flest allrar atvinnustarfsemi – og er tekist á við þennan vanda í hæfisreglum og siðareglum, sem öll betri starfsemi hefur sett sér.
Niðurlag
Ágæti forseti Alþingis, ágæta forsætisnefnd. Fullt tilefni er til að rannsaka aðkomu Þórarins Inga að þinglegri meðferð búvörulagabreytingarinnar og taka afstöðu til hennar á grundvelli Siðareglna fyrir alþingismenn. Í fylgiskjali með þessu bréfi er rökstutt að hann hafi með þátttöku sinni ógnað eða sniðgengið margar reglnanna.
Það er ósk bréfritara að forsætisnefnd hefjist hið fyrsta handa við rannsókn málsins.
Dr. Haukur Arnþórsson (sign)
———-
Fylgiskjal – nánari rökstuðningur
Í þessu fylgiskjali eru ábendingar um athugunarefni settar fram í stafliðum a-q og eru málsatvik heimfærð upp á athugunarefnin í framhaldi af hverjum og einum þeirra.
Leiðandi sjónarmið
Þau yfirskipuðu sjónarmið sem liggja til grundvallar Siðareglunum koma einkum fram í markmiðssetningu Siðareglnanna og í meginviðmiðum Greco. Hér verður sérstaklega dregin athygli að þremur þessara sjónarmiða; að siðferðisviðmiðum tímans, að tiltrú og trausti á Alþingi og að ábyrgð alþingismanna.
- a. Siðferðisviðmið tímans – sem líka má kalla skyldusiðferði hvers tímabils – viðmið almennings á hverjum tíma um siðferðilegar skyldur í samfélagslegum samskiptum, liggja til grundvallar setningu reglnanna sjálfra. Siðferðisviðmið tímans snúast um þær réttmætu væntingar sem almenningur gerir á hverjum tíma til yfirvalda. Þannig er ekki endilega eðlilegt að réttlæta háttalag með eldri fordæmum. Svo mikla áherslu leggur Greco á þetta sjónarmið að það hvetur til sniðgöngu eldri reglna sem ekki mæta því. Siðferðisviðmið almennings snúa meðal annars að Alþingi. Þar koma til álita kröfur sem íslenska samfélagið gerir, kröfur sem norrænu samfélögin gera til sinna þingmanna og Evrópuþingið til þingmanna í álfunni.
Heimfærsla fyrir a-lið:
Leiða má að því sterk rök að almenningur krefjist þess að þingmenn hlíti sömu reglum og almennt eru virtar í nágrannaríkjunum. Þetta hefur að minnsta kosti átt við frá fjármálahruninu, enda búum við í allt öðru samfélagi nú en fyrir hrun hvað kröfur almennings í þessum efnum varðar – eins og glöggt má sjá á félagsmiðlum og í fjölmiðlum.
Þannig má heita ljóst að siðferðisviðmið tímans hafa breyst hér á landi – landið er á nokkurn hátt komið inn í nútímann. Ef eldri viðmiðum er beitt – þeim sem þóttu góð og gild í útrásinni, hvað þá á síðari hluta síðustu aldar – má reikna með óánægju og óþoli almennings gagnvart beitingunni. Spyrja má sig hvaða afleiðingar það hefði, þær eru að mestu ófyrirséðar; þær gætu verið allt frá því að vera engar til þess að ríkisstjórn falli. Í þessu sambandi má líta á ýmis tíðindi í stjórnmálum og viðskiptum á síðustu árum.
Rökstyðja má að siðferðisvitund almennings sé misboðið með þátttöku Þórarins Inga í meðferð búvörulagabreytingarinnar, vegna þeirra atriða sem nefnd eru hér í framhaldinu.
- b. Tiltrú og traust á Alþingi, sem er annað helsta markmið reglnanna, má rökstyðja að sé í jákvæðu orsakasamhengi við það hvort siðferðisviðmiðum tímans sé mætt; ef þeim er mætt á traustið að aukast. Og öfugt, því rökstyðja má að tiltrú og traust á Alþingi dali ef siðferðisviðmiðum almennings er ekki mætt. Þingmönnum ber í þessu skyni að sýna Alþingi viðeigandi virðingu með því að vanda hátterni sitt við þingstörf.
Hvaða siðareglur fjalla um þetta?
Samkvæmt 1. gr. Siðareglnanna er „tilgangur [þeirra] að efla … tiltrú og traust almennings á Alþingi.“ Þá segir í c-staflið 5. gr. að þingmenn skuli „ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni.“ Í 7. gr. er síðan hnykkt á þessu með orðunum: „Þingmenn skulu í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu“.
Heimfærsla fyrir b-lið:
Rökstyðja má að Þórarinn Ingi hafi ekki aukið tiltrú og traust almennings á störfum Alþingis – öðru nær – og hann hafi skaðað ímynd þess og kastað rýrð á það. Hann sýndi Alþingi, stöðu þess og starfsreglum ekki virðingu.
- c. Ábyrgð. Það er hluti af ábyrgðarskyldum þingmanna að viðhalda og efla tiltrú þjóðarinnar á sjálfu þingræðinu og á uppbyggingu og hlutverki stjórnskipunarinnar og ríkisins.
Hvaða siðareglur fjalla um þetta?
Hér má minna á þá „ábyrgðarskyldu“ sem 1. gr. Siðareglnanna kveður á um með orðunum „tilgangur þeirra er að efla … ábyrgðarskyldu [alþingismanna]“. Þá er í a-staflið 5. gr. gerð krafa um að þingmenn „[ræki] störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika“. Enn bætir í með e-staflið 5. gr. þar sem segir að þingmenn skuli „nýta þá aðstöðu sem þeim er veitt við störf sín með ábyrgum hætti“.
Heimfærsla fyrir c-lið:
Ábyrgðarskylda alþingismanna og Alþingis varðar ekki síst tiltrú og traust. Þingmenn geta því ekki gert það sem þeim sýnist – þótt frelsi þeirra frá reglusetningu við lagagerð sé meira en gengur og gerist við störf hjá framkvæmdar- og dómsvaldinu.
Auðvitað getur pólitískur vilji, bæði þingmannsins og helstu fylgismanna hans, afvegaleitt hann. En samskipti þingmannsins við stærri hóp almennings ættu þó að sýna honum hvar siðferðisviðmið í þjóðfélaginu liggja. Hin beina tjáning almennings á sér stað á netinu, og fjölmiðlafólk endurvarpar viðmið hans.
Er Alþingi nútímaleg stofnun sem starfar í samhljómi við siðferðisviðmið almennings á hverjum tíma? Sem er annt um tiltrú hans og traust? Erindi þetta snýst ekki síst um það.
Rökstyðja má að Þórarinn Ingi hafi ekki axlað þá ábyrgð sem honum er lögð á herðar sem alþingismanni og ekki rækt störf sín af heilindum og heiðarleika. Í stað þess að nýta aðstöðu sína með ábyrgum hætti virðist hann hafa misnotað hana.
Umboðsmenn eða fulltrúar
Þingmenn eru umboðsmenn þjóðarinnar, sem skýrist meðal annars af því að stjórnarskráin segir þá aðeins bundna af sannfæringu sinni og „eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum“ (48. gr.). Þeir eru óháðir hagsmunum einstakra kjósenda eða atvinnugreina. Að öðrum kosti væru þeir fulltrúar, sem er hinn valkosturinn – þá væru þeir háðir hagsmunum umbjóðenda sinna. Þeir ganga ekki erinda neinna og hafa fullt umboð kjósenda til sjálfstæðra ákvarðana – sem þeir eiga að taka. Ákvarðanir sem leiðir af kjördæmapoti og hagsmunavörslu fyrir einstaka atvinnugreinar koma því ekki til greina.
Slíkt gengur gegn nefndu stjórnarskrárákvæði og samræmist ekki siðferðisviðmiðum almennings og kröfum nútímans – en um þær eru Siðareglur fyrir alþingismenn til marks.
Ef þingmaður er á einhvern hátt tengdur ákveðnum aðila eða aðilum sem hafa beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta varðandi tiltekna lagagerð, þá getur myndast umboðsvandi. Hann er því meiri sem umboðsmaðurinn er tengdari viðkomandi aðila. Þingmaður sem er kominn í slíka stöðu getur meira að segja átt yfir höfði sér að missa stuðningsmenn ef hann gengur ekki hagsmuna þeirra og/eða missa eða veikja stöðu sína í kjördæminu eða flokknum. Þá þarf hann að bregðast við og takast á við umboðsvandann.
Almannahagsmunir í málinu
Rökstyðja má að í almannaþágu sé – og bak við það standa bæði fræðileg rök og reynslurök – að samkeppnislög gildi um starfsemi afurðastöðva eins og um aðra framleiðslu matvæla. Sem er regla í öðrum norrænum ríkjum og í ESB, samkvæmt þinggögnum málsins.
Minnt skal á að atvinnuvegaráðherra sagði í ræðu sinni við fyrstu umræðu búvörulagabreytinganna að með frumvarpinu ætti að færa aðstöðu bænda til þess sem væri í nágrannaríkjunum – að veita þeim tækifæri til að mynda einhvers konar starfsstéttarfélög. Rökstyðja má að sá upphaflegi tilgangur styðji almannahag. Með breytingunni sem málið tók við aðra umræðu – að fella úr gildi samkeppnislög fyrir afurðastöðvar og opna fyrir einokun fyrir starfsemi þeirra – var þessu undið við og annars vegar gengið gegn almannahag og hins vegar einnig horfið frá þessari alþjóðlegu viðmiðun.
- d. Umboðsvandi ber með sér hagsmunaárekstur milli almannahagsmuna og sérhagsmuna.
Hvaða siðareglur fjalla um þetta?
Samkvæmt Siðareglunum eiga þingmenn að „taka ákvarðanir í almannaþágu“ (b-stafliður 5. gr). Þá segir í g-staflið 5. gr. að þingmenn skuli „leysa úr árekstrum sem upp kunna að koma með almannahag að leiðarljósi.“ Enn er hnykkt á þessu í 9. gr. þar sem segir að „þingmenn skulu við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna … og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar“.
Heimfærsla fyrir d-lið:
Ljóst má vera af eðli málsins að um umboðsvanda er að ræða. Hagsmunir atvinnugreina sem Þórarinn Ingi tengist sterkum böndum – hann er bæði bóndi og eigandi í afurðastöð – og vegna afstöðu sem hann hefur tjáð opinberlega – stangast á við almannahagsmuni. Þessi aðstaða er kjarni málsins og ekki síst tilefni erindisins. Hún kallaði á að Þórarinn Ingi viki sæti, ekki síst sjálfs sín vegna og þá til að komast undan þrýstingi í kjördæminu og frá atvinnugreinunum. Það gerði hann ekki.
Hagsmunaárekstrar
Áður fyrr sátu bændur stundum landbúnaðarnefndir þingsins og útgerðarmenn sjávarútvegsnefndir. Reglurnar sem þeir fjölluðu um höfðu jafnvel bein áhrif á fjárhag þeirra.
Vissulega er í alla staði eðlilegt að fólk í atvinnurekstri veljist til starfa á Alþingi. En þegar þangað er komið getur það við ákveðnar aðstæður staðið frammi fyrir freistnivanda. Hér erum við ekki að tala um umboðsvanda heldur einfaldlega þá freistingu að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á rekstrarreikning eða verðmæti eigna í atvinnufyrirtækjum sem þeir eiga í. Þetta eru líka kallaðir hagsmunaárekstrar.
Hér gæti skipt máli fyrir túlkun Siðareglnanna hvort um:
- e. beina hagsmuni er að ræða, sem til dæmis hefðu strax áhrif á tekjur og eignir á skattskýrslu.
- f. óbeina hagsmuni, sem gætu í framhaldinu bætt stöðu þingmannsins, tiltekins hóps sem hann tilheyrir eða atvinnugreinar (umboðsvandi).
Hvaða siðareglur fjalla um þetta?
Í Siðareglunum er fjallað um þetta í f-staflið 5. gr. þar sem segir að þingmenn skuli „ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra“. Þá á 9. gr. líka við hér (eins og við d-lið hér á undan), það er, að „þingmenn [skuli] … forðast árekstra milli almannahagsmuna … og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar“. Enn er þetta endurtekið í 12. gr. þar sem fram kemur að „þingmenn [skuli] ekki nota aðstöðu sína sem alþingismenn til þess að vinna að eigin hagsmunum eða hagsmunum annars aðila“.
Heimfærsla fyrir e- og f-liði:
Hlutlægt mat á hagsmunum Þórarins Inga virðist vera að hann hafi jafnvel haft beinna hagsmuna að gæta vegna eignarhlutar síns í afurðastöð, þá þannig að fyrir fram hafi verið ljóst að búvörulagabreytingin styrkti hans eignarhlut og að aðgerðir vegna breytinganna hafi verið undirbúnar fyrir lagabreytinguna. Um þetta getur bréfritari ekki fullyrt.
Hins vegar er ljóst að um óbeina hagsmuni var að ræða vegna eignarhlutarins í afurðastöðinni, það er að reikna mátti með því að breytingin skilaði Þórarni Inga fjárhagslegum ávinningi þegar til lengri tíma er litið. Matvælaframleiðsla sem kemst undan samkeppnislögum og kemst þannig í aðstöðu einokunar, er ómótmælanlega líkleg til að skila auknum hagnaði og aukast að verðmæti.
Hún myndi þá í leiðinni skila öðrum eigendum fjárhagslegum ávinningi –- svo aftur sé minnt á umboðsvanda og á ákvæðið f-staflið 5. gr. og aftur í 12. gr. Siðareglnanna um að ekki megi vinna að hagsmunum annars aðila.
Hagsmunir Þórarins Inga, eign hans í afurðastöð, er talin nema um það bil verði nýs jepplings. Fáir landar okkar munu eiga slíkt bílverð í handraðanum og ber bréfritari í þessu efni fyrir sig upplýsingar um tekjur og eignir almennings úr gögnum Hagstofunnar og Skattsins, sem allir geta kynnt sér. Reikna má með því að almenningur telji – og það mat geti verið grundvöllur siðferðiviðmiðs hans – að nefnt bílverð séu umtalsverðir hagsmunir.
Fleiri mælikvarðar
Einnig gætu komið til álita ákveðnir mælikvarðar sem notaðir eru í stjórnsýslufræði, svo sem hvort þingmálið er
- g. almennt, en hlutverk Alþingis er að setja almenn lög,
- h. sértækt. Þá á það aðeins við um einn eða fáa aðila – staða þeirra er þá styrkt eða veikt. Þá skiptir máli hvort málið er
- i. íþyngjandi fyrir almenning, eða
- j. bætir hag hans.
Mjög fá þingmál eru sértæk, en íþyngjandi eru einkum fjárlög og fjáraukalög. Ef önnur mál eru íþyngjandi eða sértæk kviknar á öllum viðvörunarljósum hvað varðar spillingu. Hlutverk Alþingis er í aðalatriðum almenn reglusetning, ekki sértæk.
Mál sem eru:
- k. bæði sértæk og íþyngjandi eru enn færri, og koma varla fyrir (þó man bréfritari eftir máli um ríkisábyrgð fyrir DeCode; hún var síðar felld niður).
Heimfærsla fyrir g- til k-liði:
Ef mælt er á þessum stjórnsýslulega mælikvarða er breytingin á búvörufrumvarpinu sértæk, eins og við komum betur að í heimfærslu l-liðar um sérákvæði og hún er íþyngjandi fyrir almenning – stendur gegn almannahagsmunum – eins og nefnt var í heimfærslu d-liðar og rökstutt í kaflanum um almannahagsmuni í málinu.
Sérákvæði (undanþágur)
Nefnum eitt í viðbót sem tengist þessu og um getur verið að ræða, það er að segja:
- l. möguleg spilling með sérákvæðum. Hér er átt við sértæk og jafnvel íþyngjandi ákvæði í annars almennri reglusetningu. Þetta gerist þegar einhverjum aðilum/hópi er sköpuð séraðstaða með lögum og reglum. Þessi spilling er stundum með beinum undanþáguheimildum en annars óbeinum og er undanþáguheimildin þá jafnan í hendi ráðherra. Dæmi um þetta er að veita undanþágur frá reglum við jarðakaup. Þá hefur ráðherra það í hendi sér að kippa hinni almennu reglusetningu úr sambandi – sem hann hefur gert.
Sérákvæði þýða á stundum, og það er jafnframt oftast forsenda þeirra – að ekki sitja allir við sama borð.
Heimfærsla fyrir l-lið:
Það að aftengja samkeppnislög fyrir afurðastöðvar gengur gegn því almenna starfsumhverfi sem framleiðslufyrirtæki starfa í, það er, að starfa undir samkeppnislögum. Því er um að ræða undanþágu með sérákvæði – að opna fyrir einokun – og einmitt það gæti gefið tilefni til skoðunar á því hvort ákvæðið beri vott um spillingu.
Hér komum við enn og aftur að almannahag. Ef fullvissa er fyrir því í okkar heimshluta að samkeppnislög um matvælaframleiðslu séu í þágu almennings, er aftenging þeirra hér á landi ekki aðeins óþörf, heldur ógn við almannahag. Hún er þá í andstöðu við markmið Alþingis um að setja réttmæt, almenn og sanngjörn lög.
Hagsmunaskráning
Til að koma í veg fyrir freistnivanda og hagsmunaárekstra
- m. skrá þingmenn opinberlega hagsmunatengsl sín. Þannig blasir það við öllum, og ekki síst þeim sjálfum, að þeir geti átt það á hættu að ganga erinda eigin hagsmuna í þingmálum.
Hvaða siðaregla fjallar um þetta?
Í g-staflið 5. gr. Siðareglnanna segir að þingmenn skuli „greina frá öllum hagsmunum sem máli skipta og varða opinbert starf þeirra“.
Heimfærsla fyrir m-lið:
Þórarinn Ingi mun hafa sinnt hagsmunaskráningu hvað varðar félag sitt. Hins vegar gerði hann ekki grein fyrir eignarhlut þess í afurðastöð – um það virðast ekki aðrir á Alþingi en hann hafa haft vitneskju. Það var ekki á almannavitorði. Þessi aðstaða þingmannsins til breytingartillögunnar – að hann einn eða aðeins fáeinir vissu af hagsmunum hans, kannski einkum aðilar í atvinnugreininni sem höfðu eins og hann hagsmuna að gæta – leggur honum auknar kröfur á herðar um að upplýsa og bregðast við hagsmunaárekstrum.
Að upplýsa um hagsmunaárekstra
Ef þingmaður telur sig standa frammi fyrir hagsmunaárekstrum
- n. ber honum að upplýsa um það.
Hvaða siðareglur fjalla um þetta?
Um þetta fjallar 9. gr. Siðareglnanna með orðunum: „Takist þingmanni ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra … skal hann upplýsa um þá.“ Þá er þetta ítrekað í 10. gr. þar sem segir: „Þingmenn skulu … vekja athygli á persónulegum hagsmunum sínum sem máli skipta við meðferð þingmála.“
Heimfærsla fyrir n-lið:
Ekkert bendir til að Þórarinn Ingi hafi upplýst um mögulega hagsmunaárekstra við að fjalla um frelsi afurðastöðvanna frá samkeppnislögum. Í slíku tilfelli hefði forseti Alþingis – en skrifstofa Alþingis og lögfræðingar hennar eru augu hans og eyru – brugðist við eins og honum ber. Hagsmunir Þórarins Inga varðandi afurðastöðvar voru ekki upp á borðinu þrátt fyrir að hann hafi sinnt hagsmunaskráningu.
Frumkvæði og fordæmi
Til þess að sneiða hjá áðurnefndum hættum ber þingmanni samkvæmt siðareglunum
- o. að bregðast við, sýna frumkvæði og fordæmi. Þannig hefur þingmaðurinn frumkvæðisskyldu; honum ber að láta vita af aðstæðum sem gætu varðað við siðareglur, sérstaklega þó mögulegum hagsmunaárekstrum.
Hvaða siðaregla fjallar um þetta?
Í h-staflið 5. gr. Siðareglnanna segir að þingmenn skuli „efla og styðja grundvallarreglur þessar með því að sýna frumkvæði og fordæmi.“
Heimfærsla fyrir o-lið:
Þórarinn Ingi virðist ekki hafa sýnt frumkvæði þegar hann stóð frammi fyrir umboðsvanda, freistnivanda og hagsmunaárekstrum og var öðrum þingmönnum því ekki gott fordæmi.
Álit forsætisnefndar
- p. Bent er á það í Siðareglunum að frumkvæði og fordæmi geti þingmaður sýnt með því að „[leita] álits forsætisnefndar á hátterni sínu.“ (6. mgr. 17. gr.).
Heimfærsla fyrir p-lið:
Ekkert bendir til að Þórarinn Ingi hafi leitað álits forsætisnefndar um hvað hann ætti að gera þegar hann stóð frammi fyrir umboðsvanda, freistnivanda og hagsmunaárekstrum.
Víkja sæti og kalla inn varamann
Siðareglur Alþingis kveða ekki á um önnur viðbrögð en þau sem hér hafa verið rakin. En venja er hjá æðstu stjórnvöldum að viðkomandi
- q. dragi sig í hlé við meðferð þess máls sem um ræðir og kalli inn varamann. Búast hefði mátt við slíkri ábendingu frá forsætisnefnd við álitsumleitan til hennar.
Heimfærsla fyrir q-lið:
Þórarinn Ingi vék ekki sæti við meðferð breytingartillögunnar – öðru nær, hann beitti sér fyrir henni.
Varamaður var ekki kallaður inn.