Öryggi flugsamgangna (12.02.2024)

Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.

—–

Til lengdar þurfa flugsamgöngur til og frá eyju að vera sjálfbærar og lúta innlendri reglusetningu og stjórnvöldum. Það varðar þjóðaröryggi.

Þjóðaröryggismál hafa á síðustu misserum orðið sífellt mikilvægari, ekki síst vegna vaxandi stríðshættu í okkar heimshluta – og kannski vegna þess að viðskiptaþvinganir ríkja og jafnvel einstakra alþjóðlegra fyrirtækja eru algengari en áður.

Til að bregðast við þessu er Seðlabankinn að útbúa greiðslumiðlun – sem að því er virðist verður rekin af ríkinu – eða af innlendum aðilum – og þá sennilega með takmörkun á erlendu eignarhaldi, svipað og ríkir í sjávarútveginum. Til þess m.a. er leikurinn gerður.

Flugsamgöngur

Eitthvert mikilvægasta þjóðaröryggismál landsins er öryggi flugsamgangna. Það jafnast á við öryggi fraktsiglinga og samskiptaöryggi á netinu. Öryggi flugsamgangna virðist ekki hátt á blaði hjá Þjóðaröryggisráði eða ríkisstjórninni – og því ekki í hugum fréttamanna.

Fátt kann þó að vera mikilvægara. Öryggi flugsamgangna byggist meðal annars á því að flugvélar séu að verulegu leyti í eigu íslenskra flugfélaga – annars getur leigusali hvenær sem er rift samningi, kannski ef hann er andvígur stefnu íslenskra stjórnvalda, t.d. í hvalveiðimálum, laxeldi eða náttúruvernd.

Þá vil ég nefna að viðgerðarþjónusta og önnur þjónusta við flugsamgöngur þarf að vera í landinu – og varahlutalager til nokkurra mánaða hið minnsta. Ef þetta þrennt rekur á reiðanum – íslenskt eignarhald á flugvélum, viðgerðarþjónusta og góð lagerstaða varahluta – má loka fyrir flugsamgöngur til landsins yfir nótt.

Samfélagsleg sjónarmið

Þá er mikilvægt að flugfélög séu í sátt við samfélag sitt og á ég þá m.a. við að þau geri kjarasamninga við viðurkennd félög starfsmanna: félög sem eru í ASÍ. Við getum séð fyrir okkur að fjölmiðlar krefjist þess að orlofssjóðir stéttarfélaganna niðurgreiði ferðir jafnt hjá öllum flugfélögum. Væri það sanngjarnt ef eitthvert þeirra semdi við gervifélög sem grafa undan félagsskap launþega?

Í nágrannaríkjunum – raunar í fjölmörgum löndum – á ríkið hlut í flugfélögum til að treysta flugöryggi ríkja sinna. Mér finnst koma til greina að íslenska ríkið eigi slíkan hlut til að tryggja ábyrgar samgöngur, en eignarhald af því tagi hefur þó ekki alltaf reynst farsælt.

Ég myndi fremur, sem stjórnsýslufræðingur, mæla með að ríkið (Samgöngustofa) setti frjálsa markaðnum ströng skilyrði um rekstur flugfélaga hvað varðar sjálfbærni og allar aðrar rekstrarforsendur og innviði.

Undirboð

Ef íslenskt flugfélag hefur undirboð er ekki aðeins líklegt að það félag verði gjaldþrota, heldur er einnig líklegt að það taki ábyrg félög með sér.

Það vekur furðu ef lífeyrissjóðir, bankar og Isavia niðurgreiða flugfargjöld árum saman og velta kostnaðinum yfir á eftirlaunaþega – með lægri greiðslum til þeirra – á viðskiptavini bankanna og skattgreiðendur.

Reikna má út hvað kröfuhafar í þrotabú Wow niðurgreiddu flugmiða félagsins mikið – gjaldþrotið var upp á 130 milljarða – það eru nokkur þúsund kr. á sæti. Þegar upp er staðið verður raunkostnaður af samgöngunum ekki umflúinn.

Það er alveg ljóst hver borgar þessa niðurgreiðslu og ekki víst að gamla fólkið og almenningur í landinu séu sátt við bakreikninginn. Því miður höfum við séð svona flugrekstur áður; einhver myndi segja áralöng ósjálfbær undirboð.

Samkeppni

En hvað með samkeppni? Svarið er að alþjóðleg flugfélög veita mikla samkeppni og tryggja lágt miðaverð – þau eru þess albúin að yfirtaka flugsamgöngur til og frá landinu – og sitja þá í þeirri valdaaðstöðu gagnvart íslenskum stjórnvöldum sem enginn vill sjá. Flugsamgöngur þurfa að lúta íslenskum stjórnvöldum og reglusetningu þeirra – og það þarf að fylgja eftir þeim reglum sem fyrir hendi eru.

Ef íslenskir þjónustuveitendur eiga að velja íslenska greiðslumiðlun, sem virðist meiningin hjá Seðlabankanum, svo aftur sé minnst á það – ættu þá Íslendingar að velja íslensk flugfélög fram yfir erlend? Jafnvel þótt erlend félög undirbjóði flugmiða til og frá landinu í nokkur ár til að ryðja öðrum úr vegi? Full ástæða er fyrir Þjóðaröryggisráð, ríkisstjórnina, Samgöngustofu og Isavia að taka öryggi flugsamgangna föstum tökum.