Til grundvallar bókinni eru gögn úr samþættum gagnaskrám Alþingis frá árunum 1991-2018, einkum úr: Þingmálaskrá, þingmannaskrá og Alþingismannatali. Þeim er fundinn viðeigandi skýringarrammi með túlkun fræðilegra heimilda, bæði innlendra og alþjóðlegra, og eru gögn túlkuð í ljósi fræðikenninga. Þá var sérstaklega aflað upplýsinga um Folketinget. Rannsókn á kynbundnu ofbeldi á Alþingi fólst í því að endurtaka rannsókn Alþjóða-þingmannasambandsins (IPU) og Evrópuráðsins frá 2018.
Unnið var með 1.796 þingmannafærslur sem taka til 258 þingmanna.
Nálgun viðfangsefnisins er að skoða kenningar um elítur og meta ættartengsl, þjóðfélagsstöðu, menntun og þingreynslu þingmanna í ljósi þeirra. Þá er yfirlit um femínisma notað til þess að skoða og meta mismunun milli kynjanna í þinggögnunum og niðurstöður endurtekinnar rannsóknar frá IPU upplýsa um kynbundið ofbeldi á Alþingi. M.a. er fjallað um íslenskar rannsóknir á elítum og á femínisma. Kenningar almannavalsskólans um stjórnmálaágalla, einkum um rentusókn, eru raktar til þess að meta og skoða valdastöðu og nefndasetur þingflokka og þingmanna ólíkra landshluta.
Þeim aðferðum er beitt að gögn eru oftast flokkuð í 2-5 flokka: Stjórnmálaflokkar (5), konur – karlar (2), höfuðborgarsvæðið – landsbyggð (2), ráðuneytum er slegið saman (9) og nefndum er slegið saman (9), nema einu sinni. Tímaeiningar eru yfirleitt þrjár: Fyrra tímabil: 1991-2003, síðara tímabil: 2004-2018 og staðan á árinu 2018 – en fyrir kemur að notuð eru kosningaár.